14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

103. mál, siglingalög

Flm. (Eyjólfur Sigurðsson):

Herra forseti. Það frv. til l., sem ég er flm. hér að, fjallar um tryggingar sjómanna og er um.breytingar ásiglingalögum. Ég vil í upphafi máls míns lofa þeim þm., sem enn þá sitja hér á deildarfundi, að ég skal ekki hafa mörg orð um þetta, frv. skýrir sig mest sjálft. En ég vil í upphafi máls míns fagna þeim áhuga sem komið hefur fram hér í Nd. og reyndar í báðum deildum í haust á málefnum sjómanna, og er þá sérstaklega til að nefna þáltill. um öryggismál sjómanna og frv. um Sjóvinnuskóla Íslands sem kynnt var hér í dag, og bendir það til þess að nú ríki almennt á þingi mikill áhugi á sjómennsku, þ.e.a.s. málefnum þeirra manna sem sjómennsku stunda og eru okkur svo nauðsynlegir í þeim undirstöðuatvinnuvegi sem íslenska þjóðin byggir á.

Þær meginbreytingar, sem ég legg til að verði gerðar á lögum nr. 108 frá 31. des. 1972, um breyt. á siglingalögum, nr. 66/1963, eru þær, að í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 108 um dánarbætur sjómanna séu þær 1 millj. kr. við dauða, er greiðist nánustu vandamönnum og aðstandendum hins látna. Ég er í því frv., sem ég flyt hér, með hækkun í 2 millj., þ.e.a.s. um helming. Í öðru lagi er ég hér með breytingar á bótum, þ.e.a.s. örorkubótum, úr 3 millj. í 6 millj. Þessar tölur eru helmingshækkun frá því sem var í lögunum frá 31, des. 1972.

Það er ljóst og á að vera ljóst öllum mönnum, ekki bara þm., heldur öllum, hvað það er mikil nauðsyn á því að tryggingar sjómanna séu í sem bestu horfi og að þeir, sem stunda störf sín á hafinu, séu vel tryggðir og þurfi ekki að óttast um afkomu sína verði þeir fyrir slysi eða ættingjar eða fjölskyldur þeirra þurfi að bíða verulegt tjón að því fjárhagslega ef þeir verða fyrir slysum á sjónum. Það er því miður staðreynd að tugir sjómanna farast hér við land árlega, og hefur það verið þannig á undanförnum árum að bætur fyrir þá sjómenn, sem farist hafa í hafi, hafa verið skammarlega litlar og ástæða til þess að menn íhugi það nánar að við slík störf sem sjómennskan er verða menn að vera vel tryggðir.

Það er þannig í lögunum frá 1972 að þar er talað, eins og ég sagði áðan, um ákveðnar millj. í bætur fyrir örorku. En þegar slíkir tímar eru eins og verið hafa tvö s.l. ár, þar sem verið hefur óðaverðbólga, þá hafa þessar upphæðir rýrnað mikið og koma því að mjög takmörkuðu gagni þeim sem þær eiga að fá, hvort sem menn hafa orðíð fyrir slysi eða ættingjar fá dánarbætur. Þess vegna er það nú megintilgangur minn með flutningi þessa frv. og þeim lið þess, sem fjallar um vísitölubindingu þessara upphæða sem ég gat um áðan, að framvegis þurfi ekki að bíða eftir lagabreyt. á Alþ. til þess að menn fái eðlilegar tryggingabætur, heldur sé það reiknað út árlega af Hagstofu Íslands 1. des. hvert ár — hversu háar bæturnar eru, miðað við byggingarvísitölu þess árs sem er að líða. En þannig er með þessar tryggingar að þær eru teknar hjá hinum almennu tryggingafélögum á frjálsum markaði, og þess vegna er nauðsynlegt, fyrir hin almennu tryggingafélög að vita af því með nokkrum fyrirvara hvernig áætla á iðgjöld fyrir næsta ár með tillíti til þeirrar hækkunar sem orðið hefur á viðkomandi tryggingabótum samkv. vísitöluútreikningi 1. des. þess árs sem út er reiknað.

Margir sjómenn hafa tjáð mér að þeir fari alls ekki á sjó nema kaupa sér sjálfir tryggingar fyrir slysum, vegna þess hvað slysabætur í dag eru lágar, og telja það skyldu sína gagnvart fjölskyldum sínum að vera vel tryggðir. En því miður er það nú þannig að allflestir gera það ekki, og því er nauðsynlegt að það sé tryggt með lagasetningu að svo sé. Eins og öllum er kunnugt hefur það verið gert að ákveðnu marki, en dánarbætur og örorkubætur hafa verið bundnar við ákveðna upphæð í lögum. En ég legg til í þessu frv., eins og ég hef getið að framan, að í næstu framtíð verði þetta reiknað út frá vísitölu þannig að þeir geti verið öruggir um að dánarbætur þeirra séu metnar með tilliti til þeirrar verðbólgu sem yfir gengur á hverju ári.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri um þetta frv. Eins og ég sagði í upphafi, skýrir það sig að mestu leyti sjálft og er sanngirnisfrv., sem ég vona að Alþ. hraði eftir því sem frekast er unnt og að það verði að lögum sem fyrst eftir næstu áramót. En ég vil að lokum mælast til þess að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og síðan til 2. umr.