16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

1. mál, fjárlög 1975

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil í upphafi leyfa mér að færa nm. fjvn. og form. fjvn. þakkir fyrir störf þeirra í sambandi við fjárlagafrv. og þá miklu vinnu sem þeir nú eins og endranær hafa lagt af mörkum til þess að það gæti tekist á þessa þingi eins og áður að ljúka afgreiðslu fjárl, fyrir jólaleyfi. Ég vil jafnframt þakka starfsmönnum fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. fyrir aðstoð þeirra við fjvn. og fyrir þá vinnu sem þeir hafa innt af hendi.

Mér er fullkomlega ljóst að allar aðstæður við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. eru nokkuð sérstæðar og það hefur þess vegna verið nauðsynlegt kannske nú meira en áður að það næðist góð samstaða um afgreiðslu málsins, því að eins og fram hefur komið í ræðum þeirra hv. nm. sem hér hafa talað, þá er frv. lagt hér fram á Alþ. töluvert seinna en venjulega. En ástæðan var að sjálfsögðu sú að þing kom saman síðar á árinu en vanalegt er. Engu að síður hafði vinna við fjárlagafrv. hafist af undirnefnd sem skipuð hafði verið af fyrrv. fjmrh., og var það gert til þess að hægt væri að hraða afgreiðsla málsins eins og mögulegt væri til þess að ná settu marki.

Mér er fullkomlega ljóst að það er hægt að gagnrýna undirbúning fjárlagafrv., og ég held að það hafi engum dottið í hug að það yrði ekki gert. En ástæðurnar eru, auk þess sem ég greindi áðan, þær, að í sumar, um það leyti sem kosningar fóru fram, var mönnum ekki ljóst, hverjir skyldu í ráðherrastóla fara, og menn þess vegna haft misjafnt tækifæri til þess að vinna að málefnum rn. sinna. Þeir, sem jafnvel gerðu sér grein fyrir því að það væri ekki öruggt að þeir sætu í stólunum áfram, voru að sjálfsögðu ekki með till. sinar reiðubúnar og létu það eftir þeim, sem við tóku, að koma fram með till. varðandi gerð fjárlagafrv. En hvað um það, þessi vinnubrögð verða hér vonandi ekki á hverju ári. En það er ýmislegt annað sem betur mætti fara í sambandi við undirbúning fjárlagafrv. og vinnu við fjárlagafrv. í þingi og í fjvn. og ég get sagt það að ég er meira en reiðubúinn til samstarfs við fjvn. um það. Ég hafði hugsað mér sjálfur að beita mér fyrir ákveðnum breytingum á þeim vinnubrögðum sem þar hafa verið.

Ég vék að því áðan að till. einstakra rn. hefðu kannske verið síðbúnar vegna mannaskipta. En það á að sjálfsögðu ekki að koma að sök, því að þær stofnanir, sem gera till. til fjmrn., eiga auðvitað að skila sínum till. það tímanlega að hægt sé að grandskoða þær og þær fái mun betri skoðun en ef verið er að leggja þær till. fram á fundum fjvn. kannske örfáum dögum eða vikum fyrir jólaleyfi. En þetta hefur viljað brenna við í mörg ár, að siðbúnar till. hinna ýmsu stofnana hafa tafið fyrir afgreiðslu mála og gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að skoða málin ofan í kjölinn eins og skyldi.

Ég læt mér nægja þessi orð um vinnubrögð við fjárlagagerð bæði nú og í framtíðinni, en ég vænti þess að fjvn. verði við framlagningu næsta fjárlagafrv. betur undir það búin að vinna að því heldur en nú. Og ég veit reyndar að það er ósk fjvn.-manna að svo verði, og skal það að sjálfsögðu gert.

Hér hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar gjarnan komið fram með samanburð á fjárl. 1974 og fjárlagafrv. fyrir 1975. Gerður hefur verið margs konar samanburður og tölur settar fram. Mér er fullkomlega ljóst að það fjárlagafrv., sem við erum nú að fjalla um, og þau fjárl., sem sett verða fyrir árið 1975, eru hæstu fjárlög sem samin hafa verið. Það eru út af fyrir sig kannske engin ný sannindi að fjárl. hækki ár frá ári. En það ógnarstökk, sem nú er við gerð fjárlagafrv. og gerð fjárl. fyrir 1975, er algerlega óeðlilegt með tilliti til fjárl. á undanförnum árum.

Varðandi það, hverjar orsakir ern fyrir þessu stóra stökki, komum við að þeim ágreiningi sem er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. En ég held að það liggi í augum uppi að fjárlagafrv. hvers árs beri nokkuð mikinn keim af þeirri þróun sem átt hefur sér stað á því ári sem fjárlagafrv. er samið. Þróun efnahagsmála, þróun fjármála á þessu ári hefur verið algert einsdæmi og okkur hefur tekist að slá ekki aðeins Íslandsmet í verðbólgu, heldur erum við methafar þjóða Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Verðbólgan hefur verið svo geysileg að við erum þar nr. 1 þeirra landa sem tilheyra þeirri stofnun. Og þá er mér spurn: Hverjir slógu það met? Það gæti vel verið að þeir hv. tveir þm., sem hér töluðu áðan, hv. þm. Geir Gunnarsson og hv. þm. Karvel Pálmason, eigi einhvern þátt í því meti sem Ísland sló í verðbólgu á þessu ári.

Þegar farið er að bera saman fjárlagafrv. 1975 og fjárl. 1974 þá verðum við líka að gera okkur grein fyrir því, með hvaða hætti afgreiðsla fjárl. fór fram hér fyrir einu ári. Við skulum taka aðeins einn lið, niðurgreiðslur. Þær voru áætlaðar í fjárl. 1974 1500 millj. Það var þá þegar vitað að niðurgreiðslur yrðu töluvert miklu meiri miðað við þann grundvöll sem þá var varðandi niðurgreiðslur. En þá kom þáv, formaður fjvn. og sagði ósköp pent: Það er áætlað að lækka niðurgreiðslurnar og þess vegna þarf ekki að áætla þær nema 1500 millj. Niðurgreiðslurnar 1974 voru áætlaðar 1500 millj. Hver varð svo niðurstaðan? Í júnímánuði voru þær enn auknar, og tölurnar í dag eru ekki 50%, ekki 60%, ekki 80%, ekki 100%, heldur 120% umfram það, sem fjárl. 1974 gerðu ráð fyrir. 30. nóv. eru niðurgreiðslur 3 milljarðar 316 millj. kr. Og það er ósköp eðlilegt að menn taki sér reikningsstokk í hönd og reikni út hvað niðurgreiðslurnar árið 1975 eru miklu hærri en á fjárl. 1974? Þeir fá út að sjálfsögðu tölu sem er eitthvað töluvert á annað hundrað prósent. En þá ber þess að geta hverjar forsendur eru fyrir grunntölunni, sem miðað er við og þær voru þær sem ég gat um hér áðan.

Við skulum taka eina stofnun ríkisins, Rafmagnsveitur ríkisins, og gera okkur grein fyrir því hvernig staða þess fyrirtækis er. Það hefur verið skýrt frá því að rekstrarhalli þessa fyrirtækis muni nema milli 700 og 800 millj. kr. á árinu 1974. En þegar gerð er áætlun um rekstrarliði Rafmagnsveitna ríkisins 1975 eru auðvitað lögð til grundvallar fjárl. 1974, en þá skortir hvorki meira né minna en tæpar 800 millj. kr. á rekstrarliðina til þess að réttur samanburður komi út. Auk þessa höfðu verið samþykktar til Rafmagnsveitna ríkisins 200 millj. í umframfjárfestingu, þannig að þetta eina fyrirtæki fer sennilega langt í milljarð fram úr fjárl. 1974. Þegar þessi tvö dæmi eru skoðuð, þá sjá menn í raun og veru hversu raunhæf þessi fjárlög voru.

Hv. 11, landsk. þm. vék sérstaklega að þeirri rekstrargjaldahækkun sem væri nú í þessu fjárlagafrv. og sýndi það raunverulega, hvernig núv. fjmrh. stefndi í þveröfuga átt við það sem í stjórnaryfirlýsingunni var sagt, þarna væri ekki dregið úr, þarna væri aukið á ríkisbáknið. Mér skildist að hans dómi hefði átt að draga þarna mjög mikið úr. Síðan kom hann að liðnum verklegar framkvæmdir, þar hefði verið dregið úr framkvæmdahraða í fjárlagafrv. og þá að sjálfsögðu var það ekki eftir höfði hans né þeirra annarra stjórnarandstæðinga sem hér hafa talað. Ég fæ það ekki til þess að koma heim og saman. Í öðru orðinu er talað um að rekstrargjöldin mætti ekki auka, en verklegar framkvæmdir mættu hins vegar ekki minnka.

Nú skulum við gera okkur grein fyrir því í hverju stærsti hluti hækkunar fjárlagafrv. liggur, og gera okkur þá grein fyrir hvar viðkomandi þm. hefði viljað skera niður. Í fyrsta lagi hækka laun um 2 milljarða og 300 millj. kr. Launin eru samkv. launasamningum. Niðurgreiðslur hækka um 2.1 milljarð. Þær eru þó lægri en þær hefðu verið ef ákvarðanir frá tíð fyrri stjórnar hefðu verið óbreyttar 1975. Í þriðja lagi hækkar tryggingaliðurinn um 3.2 milljarða. Það er samkv. þeirri löggjöf sem gildir í dag. Síðan koma markaðir tekjustofnar upp á 2.9 milljarða samkv. löggjöf. Hér er um að ræða hækkun upp á 10.5 milljarða, 70% af hækkun fjárlagafrv. Ég er alls ekki með þessu að segja að ekki væri hægt að gera á þessu dæmi einhverjar þær breytingar að til sparnaðar gæti orðið. En ég geri ekki ráð fyrir því að í sept. á þessu ári hafi nokkur aðili haft aðstöðu til að breyta þessum 4 liðum sem allir eru bundnir, þannig að þegar komið er og sagt: Þessir liðir, þ.e.a.s. rekstrarliðirnir, hækka upp úr öllu valdi, það má alls ekki, — þá um leið eru menn að leggja til að einhverjir af þeim liðum, sem ég taldi hér upp áðan, hefðu verið skornir niður, enda þótt þeir greinist ekki í sjálfu frv. til annarra rekstrargjalda eða eftir því sem hv. þm. kallaði fram í. En þegar við leggjum saman þessa tölu á ellefta milljarð og fjárl. frá því í fyrra, erum við komin í 40 milljarða, eftir standa 5 milljarðar.

Þegar svo komið er og talað um 60 og eitthvað prósent hækkun á rekstrargjöldum, þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því á hvaða grundvelli það er. Kemur í ljós að þegar um er að ræða hækkun sem nemur á öðrum rekstrargjöldum um 65.7% sem hv. 11. landsk. vék hér að áðan, þá eru þessir útgjaldaliðir byggðir á verðlagshækkun sem nemur um 64%. Svo er í öðru tilfelli líka, þannig að hér eru nánast rekstrargjöldin vegna þeirrar verðlagshækkunar sem orðið hefur á milli ára, þ.e.a.s. þeirra mánaða ársins sem fjárl. eru samin á, og það verður ekki sagt um hvorki núv. fjmrh. né hans flokksbræður að þeir beri ábyrgð á þeirri hækkun sem öll á sér þó stað áður en þeir koma til setu í núv. ríkisstj.

Nei, það ber allt að sama brunni eins og ég sagði áðan. Hér er um að ræða þróun efnahagsog fjármála á s.l. ári sem hefur þessi áhrif að fjárlagafrv. fyrir 1975 og fjárl. ársins 1975 verða þau alhæstu og miklu hærri en nokkru sinni áður. En við verðum að gera okkur grein fyrir því, í hverju það er fólgið, og reyna að bregðast við, reyna að koma málum þannig fyrir að slíkt þurfi ekki að koma til.

Eitt af því, sem hér þarf að skoða, er að opinberar framkvæmdir verði ekki til þess að skapa þá spennu í efnahagslífinu sem verður okkur öllum til óhags. Það er ástæða til þess að draga úr opinberum framkvæmdum þegar slík spenna er í þjóðfélaginu, en auka opinberar framkvæmdir þegar aftur öfugt ástand hefur skapast. Það er það sem verið er að reyna. Ég held að þegar menn tala og gagnrýna annars vegar hækkun rekstrarútgjalda og koma svo jafnframt og gagnrýna að dregið er úr verklegum framkvæmdum, þá eru þeir að hitta sjálfa sig með því sem þeir segja í síðara orðinu.

Mig langar þá aðeins til þess að víkja að tveimur atriðum sem hv. 11. landsk. kom hér inn á í sambandi við hafnamál og þá sérstaklega hversu illa það kemur við sveitarfélögin, að dregið er að einhverju leyti úr hafnarframkvæmdum. Ég er sammála um það, að að sjálfsögðu hafa sveitarfélögin minna til þess að láta vinna í hafnarframkvæmdum ef fjárlög draga þar að einhverju leyti úr hraðanum. En ég trúi ekki að það hafi verið ástæðan fyrir því hversu illa sveitarfélögin voru öll komin þegar hv. 11. landsk. þm. hafði ekki lengur áhrif á gang mála. Ég trúi ekki að það hafi verið hans forusta, eins og hann vildi láta hér koma fram, í hafnamálum sem olli því hvernig komið var fyrir sveitarfélögunum. Gagnvart sveitarfélögunum verðum við að sjálfsögðu að líta á þeirra vandkvæði og meta hverju sinni, hvort það er einu sveitarfélagi hagkvæmara og betra að fá auknar hafnarframkvæmdir eða fá auknar sjúkrahúsaframkvæmdir. En á það var ekki heldur minnst í ræðu hans hér, að framlögin til sjúkrahúsabygginga hækkuðu miklu meira en rétt hlutfallslega. Að sjálfsögðu hlýtur það að koma fram annars staðar í opinberum framkvæmdum ef dregið er úr einum lið, enda þótt stefnt sé að því að allt meðaltal verði innan við það sem það hafði verið áður í magni.

Hann vék þá að sjómönnum og hvernig farið væri með þá, hvernig núv. ríkisstj. ætlaði sér að ganga til móts við þá í launamálum og öðru. Ég vil aðeins vekja athygli hans á því, að þegar núv. ríkisstj. tók við voru málefni sjávarútvegsins, fiskvinnslunnar, síður en svo í því lagi að það væri ástand sem íslenskir sjómenn óskuðu eftir. Það var og hlaut að verða fyrsta verkefni þessarar ríkisstj. í sjávarútvegsmálum að reyna að tryggja að fiskvinnslan yrði rekin hallalaust.

Mér er hins vegar ljóst að það hefur ekki tekist að leysa allan vandann í sjávarútveginum og það kannske tekst aldrei. Mér er líka fullkomlega ljóst, að þrátt fyrir þessar ráðstafanir tókst ekki að tryggja rekstrargrundvöll fyrir togaraútgerð og báta eins og skyldi. En við skulum vonast til þess að það sé ekki öllu lokið í þeim efnum og þar verði komið fram með einhverjar leiðréttingar til úrbóta. Mér er ljóst að hæstv. sjútvrh. hefur sent sjútvn. Alþ. till. sinar um það með hvaða hætti eigi að verja hluta gengissjóðsins og er þar um að ræða einn þátt í þeim till.

Það var sérstaklega vikið að því hér af hv. 1. landsk. þm. hvað ríkisstj. hygðist gera í sambandi við Lánasjóð námsmanna. Ég vék að því, eins og hann gat um, í fjárlagaræðu minni, að það frv., sem hér lá á borðum þm. á síðasta þingi í fyrra, væri til skoðunar og ég vonaðist til að það gæti orðið að lögum áður en afgreiðslu fjárl. yrði lokið. Þetta hefur því miður ekki reynst svo og þess vegna verður að taka ákvörðun um það á milli 2. og 3. umr. fjárl., hvað gera skal í sambandi við þá fjárhæð sem fjárveitingavaldið vill leggja til Lánasjóði námsmanna. En það er skoðun mín að þá tölu þurfi að finna út með þeim hætti að lánin haldi raungildi sínu frá því á s.l. ári og að gera verði ráð fyrir að þeir skólar, sem hefðu undir eðlilegum kringumstæðum getað notið þessa samkv. framlögðu frv. í fyrra, komi til með að njóta þess miðað við breytta löggjöf og að sá nýi kostnaðargrundvöllur, sem stúdentar hafa látið vinna, verði tekinn til skoðunar af trúnaðarmönnum ríkisstj. og reynt að nota hann eftir því sem sú skoðun gefur ástæðu til, þannig að við 3. umr. fjárl. þurfi að taka þessi sjónarmið inn og gera breytingu á því framlagi, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þá vék hv. 1. landsk. þm. að því, til hvers þær auknu tekjur, ef til koma, sem samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar verða einhverjar, yrðu notaðar við afgreiðslu fjárl. Það er að sjálfsögðu ljóst, að tryggingakerfið kallar á við 3. umr. fjárl. sennilega á milli 500 og 600 millj. og fyrir því verður að sjá, þannig að auk þeirra hækkana sem þær till., sem hér liggja fyrir, koma til með að valda, þá verður að reikna með því við 3. umr., auk þess sem eftir eru ýmsir aðrir líðir, sem hér hefur verið getið um bæði af hv. 1. landsk. þm., hv. 11. landsk., svo og hv. 5. þm. Vestf., en formaður fjvn., hv. 2. þm. Vesturl., gerði grein fyrir því í sinni ræðu hér þ. á m. eru raforkumálin, vegamálin og ýmislegt fleira sem fjvn.— menn þekkja e.t.v. hvað best.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv. við þessa umr. Ég ítreka þá ósk mína að okkur takist að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir þinghlé, og ég veit að ég hef þingheim allan með til þess að slíkt geti tekist.