16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

1. mál, fjárlög 1975

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði út af ræðu hv. 5. þm. Vestf. sem ég þarf að gefa skýringu á, en ég skal að öðru leyti ekki fara að blanda mér í þessar umr.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess út af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um Hafnabótasjóðinn, að till. að skiptingu á fé Hafnabótasjóðs var sent fjvn. í dag, og það er rétt að það er seint á ferðinni, en ástæðan fyrir því að það er svo seint á ferðinni sem raun ber vitni um er sú að Hafnabótasjóður hefur ekki fengið afgreiðslu á sínum málum fyrr en nú í s.l. viku. Í fyrsta lagi fékk hann það hjá Atvinnuleysistryggingasjóði í þessum mánuði og hjá Framkvæmdasjóði Íslands í s.l. viku, og er till. miðuð við það eftir að þær afgreiðslur hafa komið. Fjvn. fær nú allt þetta mál til meðferðar og getur sagt skoðanir sínar á því, hvort hún metur þessar till. þannig að hún vill samþykkja þær eða gera á þeim einhverjar breytingar. Hér er um að ræða að Hafnabótasjóður hefur alls 185 millj. kr. til skiptingar, og er gerð till. um það sem n. getur fjallað um. Það verður að segjast eins og er, eins og ég áðan sagði, að þetta er seint á ferðinni, en hins vegar eru skýranleg dæmi fyrir því, sem liggja í þeirri stjórnarbreytingu, sem varð á þessu ári, og þeim málum sem hefur orðið að vinna að síðan, því að þótt nokkuð væri búið að vinna í þessum málum þegar stjórnarbreytingin varð, þá var það að sjálfsögðu ekki búið nema að takmörkuðu leyti, eins og ég hef áður skýrt frá í sambandi við störf ráðh. fyrrv. ríkisstj.

Út af hafnarframkvæmdum almennt í landinu, sem hv. 5. þm. Vestf. vék að, vil ég í fyrsta lagi segja að það er náttúrlega ekki hægt að gera ráð fyrir því, þegar svo hraustlega er stokkið sem gert var í fyrra í hafnarframkvæmdum, að þá væri hægt að taka annað langstökk á þessu ári, ekki síst þar sem samgrh, er nú ekki neinn íþróttamaður eins og hv. þm. Vestf. er. Hins vegar er nú nokkuð vel fyrir þessum málum séð í fjárlagafrv. þegar það er haft í huga að verið er að vinna í landshöfnum og verið er að vinna í stærstu hafnaframkvæmd sem gerð hefur verið á Íslandi, sem er Þorlákshöfn. Að sjálfsögðu verður ekki unnið að hafnarframkvæmdum í Grindavík, sem nú er að mestu lokið, á næsta ári, en það var framkvæmd upp á um 170 millj. kr. Þrátt fyrir það að þetta sé tekið út úr dæminu, þá hækka nú fjárveitingar til hafnarframkvæmda og þó að með réttu megi segja að í magni sé það ekki miðað við að gera dýrtíðardæmið upp, eins og gert er, en ef landshafnirnar eru teknar með, þá er um meiri framkvæmdir að ræða hlutfallslega en áður var. Þess vegna held ég að rétt sé með farið, að nokkuð vel sé fyrir höfnunum séð, enda ber að gera það, og ég efast um að væri hægt að framkvæma öllu meira á árinu 1975 heldur en er ætlast til samkv. hafnaáætlun og er í þeirri fjárlagaafgreiðslu sem gerð hefur verið.

Út af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um hafnirnar á Vestfjörðum, þá lét ég eftir fund þann, sem ég átti með þeim hv. þm. Vestf., skoða það mál betur, og þá kom í ljós að um Súðavíkurhöfn er það að segja að þar liggur ekki fyrir ákvörðun um hvernig sú höfn verður byggð, hvort þar verður um stálþil að ræða eða höfn sem yrði byggð úr timbri. Að dómi verkfræðings vitamálaskrifstofunnar, sem hefur skoðað það mál, þá telur hann að með stálþili mundi notagildi þess hafnarbakka, sem fyrir er, ekki verða eins hagstætt og það er núna vegna þess að bára mundi aukast við hafnargarðinn sem hefði slæm áhrif á viðlegukant þann, sem nú er til staðar. Ef hins vegar verður farið í timburbryggju, þá styttist það bil sem þarf að gera með uppfyllingu á, og ákvörðun um þetta liggur þess vegna ekki fyrir. Hins vegar vonast ég til og get endurtekið, það að ég mun beita mér fyrir því að í hafnarframkvæmdaáætlun, sem lögð verður fyrir Alþ., er það kemur saman á nýjan leik, og gildir í næstu 3 ár til viðbótar þessu, þá mun stefnt að því að vinna þetta verk á árinu 1976.

Ekki lá heldur fyrir hjá hafnamálastjórninni áætlun um framkvæmdina á Ísafirði eða hvernig með það skyldi farið. Það varð því að ráði að sú viðbót, sem gerð var á höfnum á Vestfjörðum var miðuð við að gera það sem hægt var að gera í Bolungarvík, miðað við þær aðstæður sem þeir hv. þm. lýstu að framkvæmanlegt væri. Þetta vildi ég upplýsa hv. þm. um til þess að þeir vissu hvað við var að fást, fyrir utan það sem ég veit að hv. 5. þm. Vestf. gerir sér grein fyrir að þessu eru sem öðru takmörk sett.

Út af flugvellinum vildi ég segja að það er mál sem mér þykir mjög miður að skuli ekki hafa verið fyrr á ferðinni í mín eyru en það var, en það var síðasta föstudag sem hv. þm. töluðu við mig, og þá var búið að ganga frá skiptingu á því fjármagni sem til flugvalla átti að ganga hjá fjvn. Það var ekki í þeim till. flugmálastjórnarinnar eða flugráðs til fjárl., sem lágu fyrir í haust þegar ég kom í samgrn., nein till. um Ísafjarðarflugvöllinn. Og í þeim umr., sem flugmálastjóri hefur átt við mig, hefur þetta ekki komið fram. Ég skil hins vegar vel, að miðað við það að unnið verði að malbikun á Ísafirði á næsta sumri, þá ber brýna nauðsyn til þess að reyna að leysa þetta verk. Án þess að ég geti nú gefið fyrirheit um það, því að ég tel að það sé óhugsandi að úr þessu verði framkvæmdaliður sem þessi opnaður, því að það hefur yfirleitt verið sú regla hér að slíkum framkvæmdaliðum hefur ekki verið breytt eftir 2. umr. Það er búið að vinna þá í undirnefndum og þess vegna verður ekki hægt að leysa málið á þann hátt. Hins vegar mundi ég reyna að leita að öðrum leiðum til þess að vita hvort það væri hægt að koma þessu í framkvæmd á næsta sumri þegar unnið yrði að slíkum framkvæmdum þar vestra sem stefnt er að með malbikun, því að ég skil það, ef malbikunarframkvæmdir verða á þessum stað og tæki þar að lútandi verða síðan flutt burtu, þá er ekki hægt að flytja þau vestur til þess arna. Þess vegna mun ég athuga það mál nánar, þótt ég geti ekki gefið fyrirheit um að um lausn verði að ræða. Hins vegar er ég nokkurn veginn öruggur um það, að ef þessi till. um Ísafjarðarvöll hefði verið í till. flugráðs á s.l. hausti, þá hefði hún ekki fallið fyrir borð. En ég skal sem sagt taka það mál til nánari athugunar og vita hvort er hægt að finna leið til þess að leysa það. Þessar skýringar vildi ég gefa.