16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

1. mál, fjárlög 1975

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umr. með því að taka hér til umr. fjárlfrv. almennt eða þá stefnu sem í því felst. Það hefur fulltrúi Alþb. í fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, þegar gert og ég ætla ekki að bæta þar neinu við. Ég mun hins vegar ræða hér örfáum orðum um nokkur mikilvæg hagsmunamál Norðurl. v. og brtt. sem ég hef lagt fram við fjárlfrv. í því sambandi.

Fráfarandi ríkisstj. var við völd í 3 ár og skildi sporin viða eftir sig. Opinberar framkvæmdir víðs vegar um land voru stórauknar í tíð fyrri stjórnar og atvinnulífið tók mikinn fjörkipp. Atvinnuleysi, sem víða hafði herjað, varð úr sögunni og sem sagt viða um land urðu mikil umskipti. Ég held þó að flestir geti verið mér sammála um að óviða urðu jafngagnger umskipti og einmitt á Norðurl. v. Þar hafði atvinnuleysið verið ríkjandi, ekki aðeins í 3–4 ár eins og víðast hvar annars staðar, heldur í meira en áratug. Þar var atvinnuleysið meira en tvöfalt meira en annars staðar og meðaltekjur fólks lægri en í flestum öðrum landshlutum. Þessi hluti landsins var sem sagt augljóslega vanræktur og það ekki aðeins í atvinnumálum, heldur einnig hvað snertir opinberar framkvæmdir, t.d. í skólamálum og hafnamálum, og er auðvelt að rökstyðja þá fullyrðingu með tilvísun til fjárl. á síðasta áratug. Á þessu varð allmikil breyting á skömmum tíma, eins og ég hef þegar sagt, og fyrir það ber að þakka.

Nú höfum við fengið nýja ríkisstj., og er ekki ætlun mín að halda því fram að í þessu fjárlfrv. verði svo alger umskipti að Norðurl. v. sé orðið út undan eins og var áður fyrr. Á s.l. ári varð mikil aukning í framlögum til hafna á vestanverðu Norðurl., enda augljóst að þar var orðin æpandi þörf á miklum framkvæmdum, og þeirri stefnu er nú haldið áfram. Það ber fúslega að viðurkenna og ég vil því ekki bera hér fram neinar till. um auknar fjárveitingar til hafna í þessu kjördæmi, eins og ég hef þó oft áður gert. En það er einkum á tveimur sviðum sem ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með till. fjvn. Það er í skólamálum annars vegar og í heilbrigðismálum hins vegar.

Það er viðurkennd staðreynd og hefur margoft komið fram í skýrslum embættismanna menntmrn., að sveitahéruðin á Norðurl. v. voru langt á eftir öðrum landshlutum í skólamálum. Úr þessu hefur verið reynt að bæta með miklum byggingarframkvæmdum á seinustu árum og hafin bygging margra skóla samtímis, og í samræmi við þetta hefur menntmrn. einnig á þessu ári lagt áherslu á að framkvæmdir í þessu kjördæmi hefðu forgang, eða a.m.k. margar framkvæmdir þar. Ég vil geta þess að í till. menntmrn. var lögð áhersla á það að fjármagnsþörf vegna hafinna framkvæmda, miðað við að aðrar framkvæmdir færu ekki af stað, væri í þessu kjördæmi 143 millj. af samtals 1009 millj. á öllu landinu. Nú hefur aftur á móti verið ákveðið að taka inn allmarga aðra skóla, og afleiðingin verður sú, að þótt framkvæmdafjárhæðin sé mjög svipuð og ég nefndi áðan hvað snerti landið allt, þ.e.a.s. 1009 millj., þá hefur þetta kjördæmi nú verið skorið niður í 112 millj. sem er augljóslega hlutfallslega lægri fjárhæð en var á seinasta ári.

Ég hef flutt till. á þskj. 170 sem ætlað er að hamla nokkuð á móti þessum niðurskurði. Ber þar fyrst að nefna langstærstu framkvæmdina í kjördæminu, sem er skólabyggingin í Varmahlíð. Þar er verið að keppast við að ljúka miklum áfanga, og í till. rn. var gert ráð fyrir því að það þyrfti að lágmarki að veita til þessa skóla 41.5 millj. Þetta var sem sagt ein af forgangsframkvæmdunum sem þurfti nauðsynlega að komast með. Við niðurskurð var þessi upphæð lækkuð í 33 millj., sem augljóslega mun ekki nægja til að ljúka þessum áfanga. Það er að sjálfsögðu mjög óskynsamlegt að fjárveitingin nægi ekki til þess að unnt sé að nýta það mikla fjármagn sem komið er í þennan skóla, og þar af leiðir að ég hef gert till. um að þessi upphæð standi áfram og verði 41 millj. og 500 þús. Ég vil bæta því við, að enda þótt búíð sé að leggja æðimikla fjármuni í þennan skóla nú þegar eða líklega um 50–60 millj., þá kemur hann ekki að neinu gagni öðruvísi en að þessum áfanga sé lokið að fullu. Þá fyrst nýtist það fjármagn sem þegar hefur verið lagt í þessa framkvæmd.

Á seinustu fjárl. var gert ráð fyrir 300 þús. kr. fjárveitingu til byggingar skóla í Haganeshreppi, en það er skólinn á Sólgörðum í Fljótum. Hann er mjög illa aðþrengdur hvað snertir plássleysi, bæði fyrir kennslu og fyrir starfsmenn, og þetta var ein af þeim framkvæmdum sem menntmrn. lagði áherslu á að þyrfti að veita forgang og hafði ætlað í þessa skólabyggingu 9.2 millj. Þessi till. rn. kemur sem sagt í framhaldi af því að í fyrra er veitt undirbúningsfjárveiting að upphæð 300 þús. kr. til að hanna mannvirkið. Þetta var ein af þeim framkvæmdum sem urðu fyrir barðinu á skurðarhnífnum, og ég hef því leyft mér að flytja hér till. um að eftir standi 5 millj. kr. fjárveiting eða sem sagt helmingurinn af því sem rn. lagði til að yrði meðal forgangsframkvæmda.

Eins er með skólabyggingu á Skagaströnd, þar sem var byrjunarfjárveiting, — reyndar ekki í fyrra, heldur í hittiðfyrra, að ég held, — en í fyrra mun hafa verið veitt 1 millj. til verksins og rn. hafði gert ráð fyrir því að á þessu ári færu í þetta 3 millj., en það hefur síðan verið skorið niður í 1 millj., sem að sjálfsögðu dugir ekki til eins eða neins. Ég hef því gert hér till. um að þessar 3 millj. standi áfram.

Í fjórða lagi er svo að nefna sundlaugarbyggingu á Hvammstanga sem hefur verið í undirbúningi í mörg ár og var veitt byrjunarfjárveiting til á s.l. ári, gert þá að sjálfsögðu ráð fyrir því að áfram yrði haldið á þessu ári. Rn. hefur gert ráð fyrir 4 millj. kr. fjárveitingu eða nánar til tekið 4 millj. 162 þús. til þessarar framkvæmdar, en hún hefur verið skorin niður og ég geri hér till. um að 4 millj. standi eftir.

Ég vil svo víkja að hinum þætti opinberra framkvæmda á Norðurl. v., sem ég er ekki nægilega sáttur við að verði ekki meiri en fjárlfrv. eða till. fjvn. gera ráð fyrir, en það eru heilbrigðismálin.

Ef lítið er á fjárveitingar til heilbrigðismála á Norðurl. v. og annars staðar á landinu, þá kemur í ljós að til þeirra eru ætluð aðeins 5% af samanlögðum fjárveitingum til sjúkrahúsa víðs vegar á landinu, og er þá ekki meðtalið það fé sem rennur til t.d. Landsspítalans og annarra þeirra framkvæmda sem eiga að heita á vegum landsins alls, heldur einungis til staðbundinna framkvæmda sem unnar eru í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög. En fjárveitingin á Norðurl. v. er áberandi langsamlega lægst. Ég nefni hér til samanburðar að fjárveiting á Vestfjörðum, sem mun vera næstlægst, er 13% eða upp undir þrisvar sinnum hærri, og þetta sker mjög í augu.

Ég skal fúslega viðurkenna að fjárveitingar til heilbrigðismála á Norðurl. v. voru ekki nægilega miklar í tíð fyrri stjórnar og vantaði þar mikið á. Það var eins þá að fjárveitingar til heilbrigðismálanna voru mjög skornar við nögl. og það var eiginlega það svið helst sem við höfðum yfir að kvarta í tíð vinstri stjórnarinnar. En í fyrra hafði fjvn. þá afsökun að það væri ekki endanlega búið að teikna tvö mikil verkefni sem átti að ráðast í og var mikil áhersla lögð á í fyrra, þ.e.a.s. heilsugæslustöðvarbyggingar á Blönduósi og á Sauðárkróki. Á það var bent í fyrra að hönnun væri ekki lokið hvað þessi verk snerti og menn yrðu því að sætta sig við að á því ári yrði aðeins varið 1 millj. kr. til hvors staðar. Þetta sættu menn sig við, að sjálfsögðu í þeirri von að fjárveitingin yrði þá þeim mun rausnarlegri þegar kæmi að næstu afgreiðslu fjárlaga. En eins og ég hef skýrt frá, þá er því ekki að heilsa. Það er að vísu um að ræða fjárveitingu sem nemur 10 millj. kr. til hvors verkefnis, annars vegar á Blönduósi og hins vegar á Sauðárkróki, en ég mun ekki þurfa að segja mönnum nein tíðindi að það er allt of lítið í báðum tilvikum. Í því tilviki er varðar heilsugæslustöð á Sauðárkróki höfðu menn vænst þess að hún gæti orðið um 33 millj. á þessu ári, til þess að hægt væri að ná þeim áfanga að steypa upp húsíð, og 10 millj. munu í mesta lagi duga til þess að ganga frá grunnveggjum og steypa botnplötu, sem er allt of lítil byrjun á þessu ári. Ég hef því leyft mér að flytja á þskj. 170 tvær till. Aðra varðandi Blönduós og hina varðandi Sauðárkrók, um hækkun í 20 millj. í fyrra tilvikinu og 25 millj. í því síðara, varðandi Sauðárkrók.

Að lokum vil ég nefna eina till., sem ég geri hér varðandi heilbrigðismálin á Norðurl. v., en það er í sambandi við byggingu elliheimila. Till. um byggingu elliheimila eru 15 frá hv. fjvn., á 15 staði á landinu, samtals 38 millj. kr. En engin þessara fjárveitinga er til Norðurl. v., ég þarf ekki að taka fram að það er að sjálfsögðu eina kjördæmið sem verður þannig algjörlega útundan. Ég hef því leyft mér að bera fram till. um að ellideild héraðshælisins á Blönduósi fái 800 þús. kr., og getur það ekki talist mikil kröfugerð eða framhleypni að bera fram þá ósk að veitt yrði þessi upphæð til þess að undirbúa og hanna ellideild á Blönduósi.

Að endingu vil ég geta till., sem ég flyt einnig á þskj. 170, en það er eina till. sem snertir atvinnumálin á Norðurl. v. Svo er mál með vexti að ríkissjóður á verksmiðju á Siglufirði, sem heitir Lagmetisiðjan Siglósíld. Um verksmiðju þessa voru sett lög árið 1972, og í þeim lögum er gert ráð fyrir að varið verði ákveðinni upphæð til endurbóta og tækjakaupa, enda mun ekki hafa veitt af að gera þar allmiklar breyt. þannig að verksmiðjan gæti komið að nokkrum notum. Fyrsta fjárveitingin, sem rann til þessarar verksmiðju, var á árinu 1973, 5 millj. kr., sem fjárhaldsmaður ríkisins, fyrrv. fjmrh., var svo hygginn að taka upp í gamla skuld, þannig að verksmiðjan fékk ekki neitt af því framlagi. Þá voru nánar tiltekið teknar 4.5 millj. kr. upp í gamla skuld, þannig að af því fjármagni nýttist nánast ekkert. Á árinn 1974 fékk svo verksmiðjan aðrar 5 millj., og er svo í fjárlfrv. næsta árs í þriðja sinn, 5 millj. Nú er það hins vegar svo að framkvæmdir í verksmiðjunni hafa numið 14 millj. kr. á þessu ári einu og er þá átt við tækjakaup ýmiss konar. Endurbætur á húsnæði hafa numið tæpum 2 millj. kr., og í samráði við fjmrh. og iðnrh. var ráðist í kaup á húsnæði fyrir sérfræðilega menntaðan forstöðumann verksmiðjunnar, að fjárhæð 3 millj. kr. Þetta veldur því að verksmiðjan er í miklum fjárhagskröggum eins og er og þess vegna hef ég gert till. í samræmi við óskir, sem borist hafa frá stjórn Lagmetisiðjunnar Siglósíld til okkar þm. og til fjvn., að með hliðsjón af stórhækkuðu verðlagi verði þessi fjárhæð hækkuð úr 5 millj. í 10 millj.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þær till. sem ég hef gert, en vænti þess fastlega að hv. alþm. líti á þær af velvild og skilningi.