16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

1. mál, fjárlög 1975

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Nokkur orð vegna þeirra ummæla hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar að ég muni ekki hafa þekkt til Gæsluvistarsjóðs er ég bar fram frv. mitt um sjóð til aðstoðar við drykkjusjúka. Nú verð ég að viðurkenna að ég var á fundi annars staðar í húsinu er þm. flutti ræðu sína, en efnislega mun rétt eftir haft, og það einnig að sem stjórnarþm. hefði ég heldur átt að leggja áherslu á aukningu til Gæsluvistarsjóðs en að bera fram slíkt frv. sem þetta.

Það er nú svo að ég þekki til Gæsluvistarsjóðs, og það er kannske ekki síst ferill Gæsluvistarsjóðs sem gerir það að verkum að ég flyt þetta frv. mitt.

Vikurnar og mánuðina fyrir alþingiskosningarnar 1971 mátti oft lesa í Þjóðviljanum ófagrar lýsingar á því ófremdarástandi er ríkti í málefnum drykkjusjúklinga. Að mínu viti var mikið til í þessu, þetta var að miklu leyti rétt. Kannske var ástæðan sú að sú stjórn, sem þá var við völd, hafði lagt megináherslu á uppbyggingu þriggja stærstu sjúkrahúsa í landinu og þá var það eins og oft áður, að einmitt þessi hópur varð afgangs. Og þó var til Gæsluvistarsjóður og hafði verið til í mörg ár. Svo skeði það eftir kosningarnar 1971 að ritstjóri Þjóðviljans varð heilbrmrh., fékk því öll völd og aðstöðu til þess að bæta úr því ófremdarástandi sem lýst hafði verið og að vissu leyti var rétt. Og nokkru eftir að hann kom til valda valdi hann sér aðstoðarráðh., þá konu sem ég tel að einna heilust sé í þeim málum og vilji af einlægustum hug gera eitthvað til að bæta hag drykkjusjúklinga, þá birtist í blöðum og öðrum fjölmiðlum ákvörðun um að reisa skyldi drykkjuhæli á Vífilsstöðum, 20 manna drykkjuhæli. Síðan var þessi ráðh. við völd í 3 ár. Drykkjumannahælið á Vífilsstöðum var í byggingu og það er enn í byggingu og mun þurfa til þess að ljúka þeirri byggingu fyrir þessa 20 drykkjusjúklinga jafnmikið fé og búið er að verja til þess í dag. En hvað þá um Gæsluvistarsjóð? Jú, þegar vinstri stjórnin tók við völdum voru tekjur Gæsluvistarsjóðs 19.6 millj. kr. Í fyrstu fjárl. þeirrar stjórnar voru tekjur þessa sjóðs auknar upp í 20.8 millj. En Adam var ekki lengi í Paradís. Árið 1973 er framlagið 19.8 millj. og á síðustu fjárl. þeirrar stjórnar, 1974, er framlagið til Gæsluvistarsjóðs komið niður fyrir það sem það var í síðustu fjárlögum viðreisnarstjórnarinnar, þ.e.a.s. niður í 19.4 millj. úr 19.6 millj. kr. Á sama tíma hafði aftur á móti byggingarvísitalan hækkað úr 528, að ég held, upp í 1290.

Þegar ég leit yfir þennan feril bjóst ég við á þessum árum að eitthvert undur mundi ske í þessum málum. Ég átti von á því að einmitt þetta fólk, sem var við völd og hafði aðstöðu til þess að gera eitthvað fyrir drykkjusjúklinga, mundi gera það. En það dróst og dróst, og loks var svo komið að í vor bar ég fram frv. mitt um sjóð til aðstoðar við drykkjusjúka. Vegna hvers? Vegna þess að ég treysti ekki Gæsluvistarsjóðnum. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir síhækkandi verðlag, jafnvel þrátt fyrir góðan vilja þeirra, sem við völdin voru og höfðu hug á að sinna þessum málum, þá stóð sjóðurinn í stað, þ.e.a.s. hann minnkaði ætíð að raungildi. Og ástæðan var að sjálfsögðu augljós. Það var jafnan í svo mörg horn að líta að hjálp við þetta fólk varð eins og áður afgangs. Ég get ekki kallað það aðgerð, þótt umbætur séu gerðar á aðalgeðveikrasjúkrahúsi landsins, og það er engin grundvallarhjálp við drykkjufólk. En kannske er skýringin líka sú, sem form. Alþb. viðhafði núna, einmitt fyrir einni eða tveimur mínútum í þessum stól, að á vinstristjórnarárunum var fé til heilbrigðismála mjög skorið við nögl. (Gripið fram í: Ég átti við kjördæmið hjá mér.) Jæja, en það gat samt átt við hitt. Hins vegar kemur hv. þm. Magnús Kjartansson og vill nú gera bragarbót og stórauka Gæsluvistarsjóð. En ég vil upplýsa hv. þingheim um það, að eftir þá reynslu sem er af sjóðsmyndun sem ríkisstjórnir geta haft áhrif á, ríkisstj. sem ætið vantar peninga, þá er ekkert öryggi fyrir því að þeir sjóðir fái aðstöðu til að sinna því málefni, sem þeir eiga að sinna. Ef aftur á móti þetta frv. mitt verður að lögum, sem er á þann veg að hver sem kaupir eina flösku af sterku brennivini greiði fyrir það 100 kr. viðbót, þá er hér kominn mikill, sterkur og góður tekjustofn, sem um 10 ára skeið mun veita það fjármagn sem þarf til þess að gera verulega stórt átak í þessum málum. Og jafnvel þó að stjórnvöldin hefðu hug á því að dreifa þessu fjármagni til annarra þarfamála, sem ég efast ekki um að eru alltaf fyrir hendi, þá eiga þau þess ekki kost eftir að búið er að samþ. þessi lög. Það er munurinn á þessu lagafrv. og á því að leggja fé til meðferðar drykkjusjúkra á fjárl. hverju sinni.