16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

1. mál, fjárlög 1975

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég reiknaði ekki með að þurfa að taka hér til máls aftur, en hæstv. samgrh. varð þess valdandi, og ég vildi mjög gjarnan að hann væri við þegar ég flyt mitt mál hér, ef hæstv. forseti vildi gera ráðstafanir til þess. (Forseti: Já, ég skal gera það. — Ráðh. kemur innan tíðar.) Þakka fyrir. Nú, ef stutt er þangað til hæstv. ráðh. kemur, þá er kannske rétt að víkja aðeins að því, sem hér kom fram. — Já, hæstv. ráðh. er þá kominn í salinn.

Ég gat þess fyrr í dag í sambandi við tillöguflutning minn að því er varðar hafnamál og flugvallamál, að hér væri um svo brýn verkefni að ræða að það yrði ekki hjá því komist að láta á það reyna hér í þinginu hvort þessi mál næðu fram að ganga. Ég vék einnig að Hafnabótasjóðnum, og hæstv. samgrh. fann sig til þess knúinn að gera bar aths. við eða veita upplýsingar eða leiðrétta. Það er allt rétt sem var haldið fram í dag um að enn hafi engar lánveitingar átt sér stað úr Hafnabótasjóði. Hins vegar upplýsti hæstv. ráðh. að bréf hefði verið sent í dag til fjvn. þar sem, að ég hygg, gerðar eru till. um lánveitingar úr Hafnabótasjóði. Það má kannske segja um þetta: Seint koma sumir, en koma þó.

Að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóðinn, þá dreg ég í efa að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., — ég skal ekki fullyrða það, en ég dreg sterklega í efa að það sé rétt að það hafi ekki verið fyrir hendi sú lánveiting sem Atvinnuleysistryggingasjóður ætlaði að láta af hendi rakna til Hafnabótasjóðs, fyrr en í þessum mánuði. Ég man ekki betur en að vita- og hafnamálastjóri hafi upplýst það á fundi í fjvn., sennilega í sept. s.l., að það væri fyrir hendi lán hjá Atvinnuleysistryggingasjóði til Hafnabótasjóðs. Sé þetta rangt hjá mér og hæstv. ráðh. geti hrakið þetta, þá skal ég að sjálfsögðu kyngja því, en ég dreg þó sterklega í efa að það sé rétt sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan.

Hæstv. ráðh. vék sérstaklega að þeim brtt., sem ég ásamt öðrum hv. þm. stend hér að í sambandi við hafnamálin svo og flugmálin, og hann lét í ljós, sem ég er nú nokkuð undrandi á, að hann teldi að það væri nokkuð vel fyrir hafnamálum séð í því fjárlagafrv. sem hér er verið að ræða, þótt það blasi við að í þessum mikilvæga málaflokki sé hreinn niðurskurður yfir 20%. Ég tek ekki undir með hæstv. ráðh. þegar hann segir þetta, og mér finnst það heldur neikvætt að slík yfirlýsing skuli koma frá hæstv. ráðh., þar sem hann er þó þm. dreifbýliskjördæmis og útgerðarkjördæmis að nokkuð verulegu leyti. En vel má vera að hann telji að vel hafi verið séð fyrir því kjördæmi.

Hann sagði að ég hefði fullyrt hér í dag að Vestfirðir færu illa út úr þessum fjárveitingum sem nú er um talað. Ég nefndi engin nöfn í því sambandi. Ég sagði að finna mætti landshluta með þessum niðurskurði, og hæstv. ráðh. hefur þá sjálfsagt gengið sjálfur úr skugga um hver sá landsfjórðungur er, eftir því sem hann talaði hér áðan.

Ég ætlaði að víkja hér sérstaklega að tveimur þáttum í hafnamálunum, þ.e.a.s. annars vegar í sambandi við Ísafjörð og hins vegar í sambandi við Súðavík. Hæstv. ráðh, sagði, að það lægi ekki fyrir hvað gera ætti í Súðavík í sambandi við hafnarframkvæmdir. Ég lýsti því yfir í dag, að fyrir ári, þegar verið var að ræða um skiptingu á fjárveitingu til hafna, hefði verið upplýst af vita- og hafnamálastjóra, að þá lægi ekki fyrir nógu greinagóð till. um það sem gera ætti, þannig að það væri í reynd raunverulegt að veita fé til hafnarframkvæmda í Súðavík nú á þessu ári. Hins vegar var vitað þá og það er vitað enn í dag að það er hægt að framkvæma þá hluti á árinu 1975, sem við erum hér að tala um. Það er því ekki rétt að það þýði ekki á árinu 1975 að veita fé til hafnarframkvæmda í Súðavík. Það verkefni, sem við erum um að tala og hæstv. ráðh. veit hvað er, það er hægt að vinna á árinu 1975. Ég hef hér í höndum bréf frá oddvita Súðavíkurhrepps, það bréf sem fjvn. barst að því er þetta varðar, þar sem er sterklega undirstrikað af hálfu oddvíta að þær framkvæmdir, sem þeir eru að biðja um á árinu 1975 og lofað var á s.l. hausti, fyrir ári, að yrðu framkvæmdar á árinu 1975, þær framkvæmdir eru frumskilyrði þess að hægt sé að gera þær nauðsynlegu umbætur, er til úrbóta þurfa að verða að því er varðar nauðsynlegustu hreinlætisaðstöðu í kringum fiskvinnslustöðina á Súðavík. Það stendur fyrir dyrum að hraðfrystihúsinu þar verði lokað vegna þess að það skortir á hreinlætisaðstöðu í umhverfi þess, og þessar framkvæmdir, sem við erum hér um að ræða eru frumskilyrði þess að það verði hægt að starfrækja frystihúsið áfram. Ef þessar framkvæmdir fást ekki, þá benda allar líkur til að hraðfrystihúsinu verði lokað. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir, eins og ég sagði hér í dag, að hv. þm., hvað sem ráðh. líður, láti það spyrjast að það verði neitað að veita fé til þess mikilvæga verkefnis sem hægt er að færa sönnur á hversu mikilvægt er. Ég harma hins vegar það viðhorf hæstv. samgrh. að hann líti svo á að hér sé búið að loka öllum möguleikum til þess að fá breytingu eða hækkun á einhverjum þáttum í framkvæmdaliðum, þó að meiri hl. fjvn. sé búinn að skila till. eða fjvn. öll, hvernig sem menn vilja orða það, til 2. umr.

Ég minnist þess, þó að mín þingsaga sé ekki löng, að það hafa verið teknar til greina brtt., sem fluttar hafa verið hér á Alþ. við 2. umr. fjárl. í framkvæmdaliðum, og ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að ætla, nema þá að nýjum vinnubrögðum eigi að beita, að ekki sé hægt að fá leiðréttingu mála hér í þinginu, þó að fjvn. öll eða meiri hl. hennar hafi gert sínar brtt. hér í þinginu.

Að því er varðar Ísafjörð, þá sagði hæstv. ráðh. að það lægi ekki fyrir áætlun um hvað gera ætti á Ísafirði. Ég hef hér í höndum bréf frá bæjarstjóra Ísafjarðar, sem skrifað er 28. ágúst s.l. og er stílað á Vita- og hafnamálastofnunina, þar sem fyrir liggur beiðni um röðun framkvæmda og mikilvægi þeirra sem þeir leggja höfuðáherslu á. Ég sagði í dag, að hér er um að ræða þá fjárveitingu, sem við erum að tala um til framkvæmda eða réttara sagt kannske til að ljúka framkvæmdum, sem búnar eru að vera í gangi í allmörg ár.

Ef hæstv. ráðh. hefur átt við það að ekki væri hér um tölusetta kostnaðaráætlun að ræða, þá get ég upplýst hann um, að ég hef fengið upplýsingar sem gera ráð fyrir því að þessi framkvæmd, sem við erum að tala um, muni kosta um 8 millj. kr. Ég tel því að það skorti ekkert á að hægt sé að ljúka þessum þætti þessara framkvæmda, nema þá ef það verður skortur á vilja hæstv. ríkisstj. eða þingmeirihluta til að veita fé til framkvæmdanna. Það verður þá það sem á skortir.

Hæstv. ráðh. vitnaði í að það mundi verða lögð hér fram á Alþ. áætlun um hafnarframkvæmdir til 4 ára, á árunum 1975–1978, þar mundi hann beita sér fyrir því að þetta verk yrði tekið inn á fjárveitingu fyrir árið 1976. Nú má vel vera að þessi áætlun verði lögð fram hér á Alþ. Þessi áætlun, sem hæstv. ráðh. er að tala um, var eftir því sem ég best veit, send út frá Vita- og hafnamálastofnuninni síðari hluta nóv., og þá áttu sveitarstjórnir eða hafnarstjórnir úti um allt land að vera búnar að skila till. fyrir 7. des. Þessir aðilar áttu að hafa ca. hálfan mánuð til þess að skila sínum brtt. eða sínum athugasemdum við þá áætlun sem verið er að gera í framkvæmdum um hafnamál til 4 ára og það á tíma sem verið er að vinna að afgreiðslu fjárl. og fjárveitingum til fyrsta árs á þessari 4 ára áætlun. Enda ber þessi áætlun, sem ég hef að vísu ekki séð í heild, en sá að lá hér á borði eins hv. þm. áðan, það með sér. Ég hef að vísu fengið um það upplýsingar, að mér sýnist að það, sem þar er gert ráð fyrir á hinum ýmsu stöðum á landinu, sé að miklum meiri hluta af upphæðum til framkvæmdanna sett á síðari hluta áætlunartímabilsins. Ég fyrir mitt leyti tel, að a.m.k. við vestfirðingar höfum þá reynslu af áætlanagerð í hafnamálum, og mætti nefna fleiri málaflokka, að við leggjum ekki afskaplega mikið upp úr því þó að okkur séu sýndar tölur um svo og svo háar upphæðir sem fara eigi til hafnamála á Vestfjörðum árið 1977 eða 1978. Við höfum ekkert fast land undir fótum, þó að þessi áætlun verði lögð hér fram á Alþ., höfum enga vitneskju um hvort staðið verður við það sem í þessum plöggum er sýnt. Ég fyrir mitt leyti dreg stórlega í efa að svo verði með tilliti til þess loforðs sem Súðavíkurhreppur fékk fyrir rúmu ári, þegar honum var gefið vilyrði fyrir því að það yrði tekin upp fjárveiting til framkvæmdanna á árinu 1975, en það á nú að svíkja. Ég verð því ekkert mildaður þó að fram komi hér á Alþ. áætlun um hafnarframkvæmdir til 4 ára, þar sem langsamlega mestur hluti framkvæmdamagnsins er settur á síðasta ár framkvæmdanna.

Þá sagði hæstv. ráðh. að það ætti að gera það sem fært þykir í Bolungarvík. Ekki held ég nú að flokksbræður hæstv. ráðh. á þeim stað séu sammála honum í þessum efnum. Ég vék ekki einu orði að Bolungarvík hér í dag, og ég skal ekki fjölyrða mikið um það mál. En ég vil þó segja það að höfuðáhersla af þeirra hendi, heimamanna, var á það lögð að fá dýpkun í höfninni á árinu 1975 til þess að hægt væri að koma hinu nýja skipi, skuttogara þeirra, sem koma mun upp úr n.k. áramótum, inn í höfnina og hægt yrði að hafa hann þar þannig að hann gæti landað við bryggju. Þetta voru þeirra höfuðkröfur, en það hefur tekist að fá hækkað framlag til hafnarframkvæmda í Bolungarvík úr, að ég held, 4.2 millj. upp í 9.2. En það er víðs fjarri því að þessi hækkun á fjárveitingu leysi neitt það brýnasta verkefni sem þeir heimamenn þar voru um að tala, en ég skal ekki frekar víkja að því.

Þá er það í sambandi við flugvöllinn, og ég fagna því að sjálfsögðu að hv. 2. þm. Vestf. skyldi lýsa yfir stuðningi við það mál hér áðan. En mér fannst vanta á og ég vona að hann hafi gleymt því að lýsa jafnframt yfir stuðningi við þær brtt. sem við stöndum að að því er varðar hækkaðar fjárveitingar í hafnamálum til þessara staða sem við erum nú að tala um. Það þarf ekki síður stuðnings við heldur en flugvallamálið. Ég vænti þess fastlega að bæði hann og aðrir hv. þm. stjórnarliðsins úr Vestfjarðakjördæmi standi við bak okkar í þessum efnum, ekki bara í flugvallamálinu, heldur í hafnamálunum líka.

Ég veit ekki hvort hv. alþm. hafa tekið eftir því í sambandi við skiptinguna á flugvallafénu, að það eru veittar heilar 5 millj. til flugvallagerða í Vestfjarðakjördæmi. Ég þykist vita að þeir stjórnarliðar úr Vestfjarðakjördæmi séu ekki ánægðir með þessa afgreiðslu, og það er kannske næsta spurningin hversu miklu þeir geta áorkað til breytinga í þessum efnum. Ég benti á það hér í dag í sambandi við Ísafjarðarflugvöll, að þar er um að ræða framkvæmd sem átt hefur að vinna í áraraðir, en alltaf verið borið einhverju við. Mér finnst það ekki ofrausn þó að farið sé fram á það að veittar séu á fjárlögum ársins 1975 20 millj., þ.e.a.s. 25 millj. til Vestfjarða í uppbyggingu flugvalla í því kjördæmi.

Þegar hæstv. ráðh. talar um að búið hafi verið að ganga frá skiptingu í flugmálum, þegar Vestfjarðaþm.töluðu við hann, þá gengur enginn frá skiptingu í flugmálum annar en fjvn. og Alþ. Hafi einhverjir aðrir aðilar verið búnir að ganga frá þeim málum áður en þau komu til fjvn. og þá til Alþ., þá eru það rangir aðilar sem hafa gengið frá þeirri skiptingu. Það er mál fjvn. og Alþ. að ganga frá því. Sú mótbára fellur því um sjálfa sig. Hér er æðsta valdið í skiptingu fjármunanna, þ.e. Alþ. sjálft. Ég vil vona að hæstv. samgrh. skipti um skoðun í þessum efnum og láti viðsýni og réttlæti vísa sér veginn að því er varðar undirtektir undir þessi mál okkar vestfirðinga.

Hann vék að því, að hann væri ekki til þess líklegur að taka stór stökk ár eftir ár, til þess væru aðrir menn líklegri hér á Alþ. En ég verð þó að segja hæstv. samgrh. það til hróss, að hann sem fyrrv. fjmrh. átti hlut að því að gerðar voru til þess ráðstafanir að gjörbreyting varð á að því er varðaði fjármuni til hafnarframkvæmda í landinu frá því sem var áður og ekki bara frá fyrrv. ríkisstj., sem á undan var vinstri stjórninni, heldur og, að ég hygg, frá því sem verið hefur hjá öllum ríkisstj. sem verið hafa í landinu um árabil. Það var sannarlega þörf á því að taka til hendi að því er það varðaði. Þar átti hæstv. núv. samgrh. hlut að máli, og ég var að vona að hans stórhugur stæði lengur en bara þau 3 ár, sem hann var innan dyra vinstri stjórnar. Ég bjóst satt að segja ekki við því að það tæki ekki lengri tíma en 3 mánuði innan dyra hægri stjórnar að fá hæstv. samgrh. ofan af fyrri skoðun sinni, en það sýnist mér þó að hafi tekist að verulegu leyti.

Það má auðvitað taka hér inn í þær fjárveitingar, sem ætlaðar eru til landshafna. Ég er hér bara að tala um þær hafnarframkvæmdir sem eru greiddar að 75% af ríkishluta. Það væri auðvitað hægt að taka inn í þetta dæmi líka þær framkvæmdir í landshöfnum, sem áttu sér stað á fyrri árum, á árunum 1973 og 1974, en við erum ekki að tala um það hér. Ég sem sagt vona fastlega, þó að þunglega horfði í máli hæstv. samgrh. hér áðan, að hann standi við bak okkar dreifbýlismannanna úr þeim kjördæmum sem verst hafa orðið úti, mest þurfa á sig að leggja og við vestar aðstæðurnar búa í þessum efnum, standi við bak okkar og sjái til þess, að sjálfsögðu í góðu samstarfi við hæstv. fjmrh., að við þessum óskum okkar verði orðið.

En af því ég er kominn hér upp, þá ætla ég að víkja aðeins örfáum orðum að því sem hæstv. fjmrh. sagði hér fyrr í dag, þegar hann var að tala um það sukk og það ófremdarástand sem ríkt hefði í málum íslensku þjóðarinnar þegar vinstri stjórnin fór frá völdum og þegar þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, tók við. Þar var allt um að kenna þeim samstarfsaðila hæstv. fjmrh. í núv. ríkisstj. sem bar höfuðábyrgðina auðvitað á fyrrv. ríkisstj. Það sukk, sem núv. hæstv. fjmrh. telur að verið hafi í fjármálum ríkisins í tíð fyrrv. ríkisstj., hlýtur að stafa að hans áliti fyrst og fremst af slælegri framkvæmd fyrrv. hæstv. fjmrh., sem er samráðh. hans í núv. ríkisstj. Mér finnst reyndar undarlegt að það skuli vera hægt að hlusta á það hér dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, að Sjálfstfl., hv. þm. hans og hæstv. ráðh., skuli núa þeim framsóknarmönnum um nasir að allt illt, sem Sjálfstfl. telur að hafi verið gert í tíð fyrrv. ríkisstj., sé kannske númer eitt samstarfsflokk þeirra í núv. ríkisstj. að kenna. Það er leitt til þess að vita og þurfa undir því að sitja og á það að hlýða, að enginn hv. þm. Framsfl. eða hæstv. ráðh. skuli bera blak af sínum aðilum, sem áttu þó hlut að og kannske báru höfuðábyrgð á fyrrv. ríkisstj., sem öll þessi gagnrýni og allar þessar skammir eru þó settar á. Mér finnst þetta leiðinlegt, ekki það að ég þurfi að vera að taka upp hanskann hér fyrir hv. þm. Framsfl., en ég er það brjóstgóður að ég finn til með þeim þegar svona er að málflutningi staðið, og mér finnst það langt gengið að ég finn mig eiginlega knúinn til þess að rétta þeim hjálparhönd, fyrst þeir sjá sér ekki fært að bjarga sér sjálfir.