16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

1. mál, fjárlög 1975

Eyjólfur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég flyt ásamt tveimur öðrum þm., Jóni Arm. Héðinssyni og Sighvati Björgvinssyni, nokkrar. brtt. á þskj. 172, en þær brtt. eru flestar við kafla í fjárl., sem nefnist Ýmis framlög til einstaklinga, heimila og samtaka. Þessar till., sem við erum með hér, eru flestar til stuðnings félagasamtökum, sem fást við líknarmál og eru í flestum tilfellum stofnuð af einstaklingum og áhugamönnum um viðkomandi vandamál ákveðinna sjúklinga.

1. brtt., sem við flytjum, er í sambandi við Styrktarfélag fatlaðra, Sjálfsbjörg. Í till, meiri hl. fjvn. er gert ráð fyrir að styrkur til Styrktarsjóðs fatlaðra, sem er fyrst og fremst byggingarstyrkur, sé 3.3 millj., en við mælumst til þess, að þeirri upphæð verði breytt í 4.5 millj. Ég hef hér í höndunum afrit af bréfi frá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, — bréfi, sem sent var til fjvn. Alþ. og mig langar — með leyfi forseta — að lesa örstuttan kafla úr til þess að skýra fyrir þm. hversu mikilvægt mál hér er á ferðinni og hversu nauðsynlegt er að fjárframlag til þessara samtaka sé hækkað, en í bréfinu segir:

„Við leyfum oss hér með að fara þess á leit við hv. fjvn. Alþ., að fjárveiting sú til Styrktarsjóðs fatlaðra, sem oss er ætluð á fjárl. fyrir árið 1975, verði hækkuð úr 3.3 millj. í 4.5 millj. kr. Sem forsendur fyrir þessari beiðni viljum við minna á, að hv. Alþ. samþykkti árið 1962 lög um tekjustofn til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, þ.e. 3 kr. af hverju kg hráefnis til sælgætisgerðar. Þessi lög voru sett til 10 ára eða ársins 1972. Þau fengust ekki framlengd vegna áætlana stjórnvalda um einföldun skattakerfisins. Samtökunum hefur hins vegar verið úthlutað styrk s.l. tvö ár, sem að vorum dómi er allt of lágur, sé miðað við þá heimild, sem lögin veittu, og þær miklu verðhækkanir undanfarinna ára. Umrædd fjárveiting er hinn eini fasti tekjustofn sem samtökin geta treyst á, en innan vébanda þeirra eru nú 13 félög og félagsmenn nálægt 1300. Það er því í mörg horn að líta, þar sem þetta fé rennur jafnt til eflingar margvíslegri starfsemi hinna einstöku deilda úti á landi og til framkvæmda landssambands Sjálfsbjargar í Reykjavík.“

Það kemur sem sagt fram í þessu bréfi, að þeir fjármunir, sem samtökin byggðu fyrst og fremst á, voru skattur af hráefnis kg til sælgætisgerðar. En eins og kemur fram í bréfinu, þá var hann til 10 ára og þau misstu af þeirri tekjuleið 1972. Frá þeim tíma telja þessi samtök að þau hafi misst hlutfallslega allmikið fé úr sínum rekstri vegna þess að það, sem fjárlög hafa áætlað þeim, er hlutfallslega miklu minna en þau fengu úr fyrri fjáröflun, sem þau fengu af þessu sælgætiskg eða hráefni í sælgætisgerð.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa brtt., en sný mér að öðrum, sem við erum með hér og eru við sama kafla, eins og ég gat um í upphafi.

Ég minnist hér á barnaheimilið Sólheima í Grímsnesi, en samkv. áætlun í fjárlagafrv. er tillagið mjög rausnarlegt — eða hitt þó heldur, 65 þús. kr., en það er sem svarar mánaðarlaunum einnar fóstru á því heimili. Við leggjum til að þessu 65 þús. kr. framlagi verði breytt í 300 þús.

Sama má segja um fávitaheimilið í Skálatúni. Það er reiknað með 65 þús. kr. fjárframlagi til þeirrar stofnunar en við viljum hækka það í 300 þús.

Geðverndarfélagi Íslands eru áætlaðar 75 þús. kr., en við viljum mælast til að það verði 300 þús.

Tjaldanesheimilinu eru áætlaðar 200 þús., en við óskum eftir hækkun í 400 þús. kr. Styrktarfélagi vangefinna eru áætlaðar 100 þús., en við mælumst til þess að sú tala verði hækkuð í 300 þús.

Öll þessi félög og stofnanir hafa það sameiginlegt að vera stofnuð af áhugafólki, fyrst og fremst aðstandendum sjúklinga, sem þurfa á þessar stofnanir, eða sjúklinga, sem ekki hafa komist þangað, en þyrftu þangað að komast. Það starf, sem unnið er af sjálfboðaliðum og einstaklingum, sem leggja mikla vinnu á sig til að halda þessum stofnunum gangandi eða til að afla á margvíslegan hátt fjármuna til rekstrar þeirra, — það starf hefur oft og tíðum ekki verið mikils virt, en er mikils virði, þegar ríkisvaldið treystir sér ekki til að haldaslíkum stofnunum gangandi með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það nálgast því að mínu mati að vera móðgun við þá aðila sem starfa við þessi félög, að fjárframlög til þessara heimila skuli vera frá 65 þús. og upp í 75 þús., sem eru laun eins starfsmanns í einn mánuð í flestum tilfellum.

Það er stundum talað um það, að okkur sé nauðsynlegt að hafa sinfóníuhljómsveit, að hafa þjóðleikhús, til þess að geta talist vera búsett eða íbúar í menningarþjóðfélagi. En er það menningarþjóðfélag sem lætur slíka þegna eiga sig að mestu leyti og ýtir þeim fram hjá sér ár eftir ár þegar talað er um fjárlög á Alþ. og talað um fjárveitingar til hinna ýmsu stofnana í þjóðfélaginu? Ef það er nauðsynlegt til þess að kallast menningarþjóðfélag að styrkja Þjóðleikhúsið með 128 millj., Sinfóníuhljómsveitina með 27 millj., þá er ástæða til þess að þessi heimili, sem ég minntist á áðan, fái ekki 65 þús., heldur hundruð þús., ef ekki millj., til. þess að þeir borgarar, sem þessi félög vernda, fái viðunandi starfsskilyrði og þessir sjúklingar verði ekki hornrekur í þjóðfélaginu ár eftir ár og gleymdir, ekki bara af einstaklingum í þjóðfélaginu, heldur því miður einnig af hinu háa Alþ.

Það eru fleiri brtt., sem við erum með hér, sem fjalla um þennan sama kafla í fjárl., en eru ekki um líknarfélög.

Það er till. okkar að framlag til Neytendasamtakanna, sem reiknað er með að sé 250 þús., verði hækkað í 550 þús. Það er staðreynd, sem þarf í sjálfu sér ekki að rökræða hér lengi, að neytendasamtök hafa a.m.k. í nágrannaþjóðfélögum okkar reynst mikill og góður vettvangur fyrir hinn almenna neytanda til þess að berjast fyrir rétti sínum, fylgjast með verðhækkunum og hafa ýmislegt gott af í sínu daglega lifi. Neytendasamtök á Íslandi hafa því miður ekki reynst eins og þau ættu að vera, ekki eins sterk samtök og þau skyldu vera fyrir neytendur, því miður. En að ætla þeim 250 þús. kr. í rekstur er að mínu mati og okkar flm. fyrir neðan allar hellur. Í slíku verðbólguþjóðfélagi sem við höfum mátt búa við undanfarin ár er nauðsynlegt að neytendur hafi samtök og það sterk samtök, eins og ég sagði áðan, til þess að fylgjast með verðbólguþróuninni, fylgjast með vöruverði og sjá um, að þeir séu ekki hlunnfarnir í verslun eða viðskiptum. 550 þús. kr. af hálfu ríkissjóðs til Neytendasamtakanna er í sjálfu sér lítil upphæð, en gæti þó verið hvatning til Neytendasamtakanna um að gera enn þá betur en þau hafa gert hingað til, og mætti því segja að slíkur styrkur væri fyrsta skrefið í þá átt að biðja um, að Neytendasamtökin verði í framtíðinni sterkari og áhrifameiri félagsskapur en þau hafa verið hingað til.

Ég reyndar minntist ekki á það áðan, þegar ég talaði um líknarfélögin, að í þessum brtt. er einn nýr liður við þennan sama kafla um framlög til einstaklinga, heimila og samtaka, þ.e.a.s. það er framlag til Félags fjölfatlaða, en það er félag, sem stofnað var í fyrravetur af foreldrum fjölfatlaðra barna fyrst og fremst, en þau félagasamtök hafa reyndar starfað stuttan tíma, en voru stofnuð eingöngu vegna þess að hin fjölfötluðu börn, sem þetta fólk ýmist átti eða var aðstandendur að, höfðu hvergi inni, litla kennslu og litla möguleika yfir höfuð til þess að fá nokkurn framgang í sínu lifi, því að þau komust í flestum tilfellum ekki inn á neinar stofnanir og urðu að hafast við í heimahúsum, sem var hvorki þeim né þeirra aðstandendum til góðs og þess vegna gerðu foreldrar þessara barna tilraun til þess að bæta hag þeirra. Þess vegna förum við fram á það nú að Félag fjölfatlaðra fái 300 þús. kr. styrk á fjárl. til þess að bæta möguleika þeirra til frekari uppbyggingar náms eða aðstöðu og þjónustu við þessa borgara, og að Alþ. gleymi hvorki þessum né öðrum sem ég hef minnst á hér, sem eru sjúklingar í þessu þjóðfélagi, en hafa gleymst meira og minna hingað til.

Einnig förum við fram á það, að við bætist nýr liður og sá liður fjallar um bindindisstarfsemina í landinu, en eins og hefur komið fram hér í umr. um fjárlög, þá hefur verið minnst á það að áhugi manna hér á Alþ. hefur farið mjög vaxandi, sérstaklega í haust, fyrir áfengisvarnamálum. Er það góðs viti, og ég vil taka undir það. Við hvetjum til þess að áfengisvarnaráði verði úthlutað 500 þús. kr. til útgáfustarfsemi til þess að auka skilning manna á þessu vandamáli og reyna að fyrirbyggja það mikla böl sem nú ríkir í áfengismálum á Íslandi.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þessar brtt., en ég vil mælast til þess við hv. fjvn., að hún taki þessar brtt. okkar til yfirvegunar og hafi í huga það, sem ég ræddi áðan um þessa þjóðfélagsborgara sem orðið hafa undir og gleymst á undanförnum áratugum, þeir verði ekki enn einu sinni látnir sitja á hakanum, þegar við tölum um milljarða í alls konar framkvæmdir, — að slíkir sjúklingar og slíkt fólk, sem okkur ber að vernda sem hér sitjum á Alþ., það fólk verði ekki enn einu sinni út undan, en við sjáum veg okkar í því að styrkja það fólk til frekari hamingju og betri framtíðar.