16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

1. mál, fjárlög 1975

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær litlar, en mikilvægar brtt.

Sú fyrri er á þskj. 171 undir liðnum um byggingu sjúkrahúsa o.fl., þess efnis, að heilsugæslustöð á Kirkjubæjarklaustri hljóti 10 millj. kr. í stað einnar sem nú er í fjárl.

Saga þessa máls er sú, að á s.l. ári fengu Klausturmenn fjárveitingu að upphæð 1 millj. kr. til undirbúnings heilsugæslustöðvar. Það má með sanni segja að fólkið þar eystra hefur bæði notað tímann vel, sem síðan er liðinn, og svo peningana til þess að vinna að þessu áhugamáli sínu og að þeirra áliti lífshagsmunamáli. Þeir fengu arkitekt til að hanna og teikna smíði stöðvarinnar. Upp úr þessu verki hefur komið það, að sú teikning verður væntanlega notuð um land allt við gerð heilsugæslustöðva af stærðinni H 1. Þetta fólk var fyrst allra til að hafa öll sín gögn tilbúin, og eftir þessum gögnum munu allar aðrar stöðvar af sömu gerð verða hannaðar. Þeirra teikning er einfaldlega fyrsti liðurinn í stöðlun slíkra stöðva um land allt.

Þær stöðvar, sem smíðaðar kunna að verða annars staðar á landinu og nota þessar sömu teikningar, verða samkv. núv. fjárlagafrv. samt á undan þeim, ef ekki verður tekið tillit til þessarar hækkunarbeiðni. Lögin um heilsugæslu og uppbyggingu kerfis heilsugæslustöðva eru forsenda þess að læknar muni í framtíðinni fást til þess að vinna úti á landsbyggðinni, auk þess sem ein meginhugsun laganna var sú að bæta sem mest mátti verða og sem fyrst aðstöðu strjálbýlisins sem verst var sett. Aðstaðan á Klaustri er lítil sem engin. Vandamálið að fá lækna er sífellt erfiðara og meira brennandi, og vandinn við að halda lækni þar eystra leysist aðeins með því að fá þar viðunandi aðstöðu,sem þó verður sú minnsta sem gert er ráð fyrir í lögum í þessum efnum. Það er einmitt sú aðstaða, sem farið er fram á með þessari tillögugerð, og þó aðeins við 1. áfanga stöðvarinnar. Landfræðilega eru þeir á Klaustri illa í sveit settir í þessum efnum að því er snertir fjarlægðir frá lækningastofnunum. Þar á ofan bætist að oft er um mikil vandkvæði að ræða að komast vestur yfir hinn ógnvekjandi Mýrdalssand, sem er erfiður þröskuldur í samgöngum fyrir þá, sem búa austan hans. Þess vegna vofir læknisskortur nú yfir og þá verður illt í efni.

Svo að ég vendi nú mínu kvæði í kross vil ég vísa til ummæla hv. ráðuneytisstjóra er hann lýsti skoðun sinni á þessu máli, taldi að þarna þyrfti allra aðstæðna vegna og áðurtalinna erfiðleika að koma stöð af þessari gerð upp og það í fremstu framkvæmdaröð. Ráðuneytisstjórinn taldi enn fremur mjög mikilvægt að byggðar væru samtímis þær stöðvar sem ynnu saman í framtíðinni, enda gert ráð fyrir slíkri samvinnu milli stöðvanna í Vík og Klaustri. Ég legg til að þrátt fyrir margar óskir annars staðar frá, þá verði tekið tillit til þeirra atriða, sem ég hef lýst hér á undan, og hv. Alþ. geti fallist á að samþykkja þessa hækkun.

Herra forseti. Síðari brtt. mín er af allt öðrum toga og er á þskj. 174 undir liðnum ýmis utanríkismál. Þar er gert ráð fyrir að framlag Íslands til aðstoðar við þróunarlöndin hækki úr 5 millj. í 9.5 millj., sem mun vera sem næst sú tala sem til þarf að við íslendingar stöndum við okkar framlag, sem við höfum samið um við undirritun hæstv. ráðh. Ólafs Jóhannessonar á milliríkjasamningi milli Íslands og hinna Norðurlandanna annars vegar og Kenýa og Tansaníu hins vegar. Samningur þessi var staðfestur fyrir okkar hönd í júlí 1972. Til þess að við verðum okkur ekki til vanvirðu með því að standa ekki við okkar hlut í þessum milliríkjasamningi ber brýna nauðsyn til þess að hækka framlagið til samræmis við þær verðbreytingar sem orðið hafa síðan.

Ég mun ekki hafa mörg fleiri orð í þessu sambandi, en ég vil leggja sérstaka áherslu á það við hv. alþm. að þeir skilji nauðsyn þess að við íslendingar fáum ekki á okkur óorð fyrir að standa ekki við milliríkjasamninga sem gerðir eru í því skyni að leggja okkar skerf, þótt ekki sé stór, til aðstoðar við sárfátæka alþýðu þriðja heimsins.

Ég vil að lokum geta þess, að mér er kunnugt um af samtölum við ýmsa fjvn.- menn að þetta mál hefur fengið þar góðan hljómgrunn.