16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

1. mál, fjárlög 1975

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í umr. um brtt. þá á þskj. 153 sem við flytjum þrír þm., þ.e. Karvel Pálmason, ég og Kjartan Ólafsson, hv. þm., sagði hæstv. samgrh. eitthvað á þá lund, að hann treysti sér nú ekki til stórra stökka, eins og nú stæðu sakir, hann væri ekki mikill stökkmaður, sagði hæstv. ráðh. Það fer nú tvennum sögum af því. Ég verð að segja eins og er, að ég tel það talsvert afrek hjá hæstv. samgrh. og flokksbræðrum hans að stökkva á einni nóttu frá vinstri bakkanum í íslenskum stjórnmálum yfir á hinn hægri án þess svo mikið sem að drepa við fæti. Og ég fæ ekki betur séð en í þessu stökki sínu sé hæstv. samgrh. jafnvel búinn íþróttum og Gunnar á Hlíðarenda, sem stökk jafnlangt aftur fyrir sig og áfram. Hitt get ég svo vel skilið, að eftir þetta heljarstökk hæstv. samgrh. skuli í bili vera runninn af honum mesti móðurinn og hann láti sér nægja á næstunni að hoppa í parís með íhaldinu.

Eins og rætt hefur verið hér um, þá flytjum við þrír þm. á þskj. 153 þrjár brtt. Þessar till. eru aðallega um hafnarbætur á Vestfjörðum. Það er í fyrsta skipti nú undanfarið ár, sem það hefur gerst, að það er hætt að draga úr fólksflótta frá Vestfjörðum. Menn geta rétt ímyndað sér hversu mikla siðferðislega breytingu slík breyting hefur í för með sér fyrir fólkið á viðkomandi stöðum. Það öðlast nýja von, það öðlast nýja trú á sjálft sig og byggðarlagið sitt. Og það öðlast traust á því að það geti áfram búið þarna mannsæmandi lifi og geti átt þess von í framtíðinni að eignast betra líf og betra lífsviðurværi en áður fyrr.

Það er nú einu sinni svo, að fiskveiðar eru undirstaða atvinnulífsins á Vestfjörðum og hafnamálin eru undirstaða þess að hægt sé að reka útgerð frá þessum stöðum. En nú gerist það, eins og hér hefur áður verið tekið fram, að lagðar ern fram till. um fjárveitingar til Vestfjarða, þar sem svo fer að Vestfirðir verða verst úti af öllum kjördæmum landsins.

Nú um helgina voru skiptin þannig, að Vestfirðir áttu að fá tæpar 60 millj. kr. til framkvæmda í hafnamálum, Vesturland um 84 millj., Norðurl. v. um 104 millj., Norðurl. e. tæpar 100 millj., Austfirðir 119 millj., Suðurl. 32 millj. og Reykjanes 84 millj., og eru þá landshafnir ekki taldar með. Þetta gerist á sama tíma og eru að koma ný skip á fiskihafnirnar á Vestfjörðum og hafnirnar þannig útbúnar, að það er varla að þessi nýju fiskiskip, stórvirkir skuttogarar, geti athafnað sig þar. Það hefur verið talað um það af hæstv. samgrh., að þetta standi allt til bóta vegna þess að framkvæmdum sé dreift nokkuð jafnt á þessi 4 ár sem hafnaáætlun er samin fyrir. Þessar upplýsingar hans vil ég leyfa mér að leiðrétta. Í áætlun Hafnamálastofnunarinnar var upphaflega gert ráð fyrir því að verja 44 millj. kr. til hafnarbóta á Vestfjörðum á næsta ári, árinu 1975, þó að í meðförum fjvn. hafi það verið hækkað í 58.6 millj. eða rúmlega það. En síðustu tvö ár áætlunarinnar, árin 1977 og 1978, er gert ráð fyrir því að verja yfir 380 millj. kr. til framkvæmda á þessum landsfjórðungi. Þetta er ekki að skipta framkvæmdafé jafnt milli ára. Þetta bendir til þess að þeir, sem áætlunina vinna, þ.e.a.s. Hafnamálastofnunin, séu vísvitandi að mismuna vestfirðingum þannig að telja þeim trú um að þeim framkvæmdum, sem þeir fá ekki í ár og ekki næsta ár og ekki árið 1976, megi þeir eiga von á árið 1977 og 1978. Hræddur er ég um það, að þegar að því kemur að standa við að veita fé, sem á að verja til hafnarframkvæmda á Vestfjörðum 1977 og 1978, þá haldi áfram að halla á ógæfuhliðina.

Hafnamálastofnunin er embættismannastofnun. Hún býr út sínar till. Það er okkar alþm. að taka ákvörðun. Embættismennirnir taka ekki ákvarðanir, það er Alþ., sem gerir það. Ef okkur líst ekki á till. embættismannanna, þá breytum við þeim. Það erum við sem segjum þeim fyrir verkum, en ekki þeir sem segja okkur fyrir verkum. Við þm. Vestf., ekki bara stjórnarandstæðingarnir, heldur stjórnarsinnarnir líka, erum á því máli að embættismenn Hafnamálastofnunarinnar hafi rangt fyrir sér, og við óskum eftir því við Alþ., við aðilann, sem ákvörðunarvaldið hefur, að það breyti þessum till. embættismannanna í réttara horf.

Það kann oft að vera satt um stjórnarandstæðinga að þeir iðki yfirboð við afgreiðslu fjárl. Það hefur ljóslega komið fram í okkar till., að svo er ekki um þær till. sem við flytjum saman, þremenningarnir, á þskj. 153. Það hefur komið m.a. fram í hví að stuðningsmenn ríkisstj. úr okkar kjördæmi hafa tekið undir þessar till. Það hefur verið rætt töluvert náið um þessar till. lið fyrir lið, en ég ætla þó að víkja að þeim í örfáum orðum til þess að skýra nokkru betur það sem þar stendur að baki.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir nokkru aukaframlagi til hafnarbóta á Ísafirði. Samgrh. fór með rangt mál hér áðan er hann sagði, að með þessari till. okkar væri stefnt að því að steypa þekju á hafnargarð sem ekki væri búið að byggja. Till. okkar miðast ekki við að leggja út í slíkar framkvæmdir við nýju höfnina á Ísafirði, sem ekki er frágengin. Till. okkar miðast við það að ljúka frágangi eldri hafnarinnar á Ísafirði, þ.e.a.s. að malbika hafnargarðinn á eldri höfninni og ljúka frágangi hafnarinnar eldri með því að leggja þar nýja vatnsleiðslu og nýja raflögn, sem sagt klára gömlu höfnina, þannig að meira þurfi ekki við hana að gera. Ef hæstv. samgrh. er jafnilla heima í nauðsynlegum framkvæmdum á Vestfjörðum og virtist vera að hann væri í sambandi við þessa till. okkar, þá skal mig ekki undra þótt við fáum heldur dræmar undirtektir.

Eins og menn vita var gerð á tímum viðreisnarstjórnarinnar sérstök áætlun fyrir Vestfirði, sem kölluð var Vestfjarðaáætlun. Hér var aðeins um hluta áætlunar að ræða, þ.e.a.s. það var aðeins gerð áætlun um samgöngumál. Engin önnur áætlun hefur síðan verið búin út fyrir Vestfirðingafjórðung. En þó að langur tími sé liðinn síðan þessi áætlun var lögð fram og þótt langur tími sé liðinn síðan átti að vera búið að sjá fyrir endann á henni, þá er það nú einu sinni svo að enn vantar töluvert upp á að þeirri áætlun sé lokið, samgönguáætlun Vestfjarðaáætlunar sé lokið. Þar vantar m.a. malbikun á veg milli Ísafjarðar og flugvallarins á Ísafirði og frágang á fjallvegum í nágrenni Ísafjarðar.

Við setjum ekki markið svo hátt, flm. þessarar brtt. á þskj. 153, að óska eftir því, að þessum verkum sé lokið á næsta ári. Við óskum aðeins eftir því, að malbikaður sé hluti Ísafjarðarflugvallar, og við óskum eftir því að það sé gert á næsta ári fyrst og fremst vegna þess að þetta er eina tækifærið sem við kunnum að hafa um margra ára skeið til þess að ljúka þessu aðkallandi verkefni. Það hefur jafnan verið borið fyrir af málsvörum ríkisstj. og framkvæmdavalds að það væri ekki hægt að ljúka þessari nauðsynlegu framkvæmd, vegna þess að það væru ekki tæki til staðar á Ísafirði og of dýrt yrði að flytja þau þangað. Nú er það svo að þessi tæki eru komin af stað. Þau verða þar næsta sumar, síðan ekki söguna meir, síðan hverfa þau burt frá Ísafirði, og eins og vegagerðarmenn tóku til orða við okkur þm. Vestf.: guð má vita hvenær þau koma þangað aftur. Sem sagt, annað hvort ljúkum við þessu verkefni á næsta sumri eða það getur dregist um mörg ár enn.

Þá afsökun, sem búið er að viðhafa um að það sé ekki hægt að ráðast í þessa framkvæmd sem hefur staðið fyrir dyrum í mörg ár, er ekki hægt að viðhafa lengur. Tækin eru komin á staðinn, þau verða þar aðeins um takmarkaðan tíma. Þennan tíma eigum við að nota. Þess vegna óskum við eftir því að það verði lagt í framkvæmdir á næsta sumri um malbikun á Ísafjarðarflugvelli, þ.e.a.s. á brautarendum og í kringum stöðvarhús.

Það hefur talsvert mikið verið talað um Súðavík hér og hafnarskilyrði þar. Ég ætla að fara örfáum orðum um það mál.

Nú eru gerðir út frá Súðavík einn 200 tonna bátur og 4 bátar 10–25 tonn að stærð, 3 trillur og einn skuttogari. Þar er nýbúið að endurbyggja frystihús gamalt, sem þar var á staðnum, og er það að verða eitt af fullkomnustu frystihúsum landsins með einhverjum besta aðbúnaði fyrir verkafólk sem ég hef séð á ferðum mínum og bera þó yfirleitt frystihúsin á Ísafirði af í þeim efnum. Fólkið á staðnum bindur miklar vonir við þessa uppbyggingu. En grundvöllur þess að hún geti haldið áfram er sú, að þeir súðvíkingar fái hafnarbætur þær sem nauðsynlegar eru. Hafnarmál í Súðavík standa nú þannig, að þar er á staðnum ein gömul og ónýt trébryggja sem búið er að loka og búið að banna alla umferð um. Þá er þar stálþilsbakki sem rétt nægir sem viðlegupláss fyrir skuttogarann. Viðlegupláss fyrir báta staðarmanna er ekki neitt og auk þess, eins og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir benti hér á áðan, er þessi eini stálþilsbakki, sem rétt nægir skuttogaranum og hrekur aðra báta á brott úr höfninni þegar skuttogarinn þarf að komast þar að, þannig útbúinu að það er akki hægt að koma við neinum festingum á togaranum þegar hann leggst þar upp að. Að vísu þurfa þeir togaramenn ekki að bregða festingum um nýja frystihúsið, en hins vegar þurfa þeir að bregða festingum um gamlan olíutank sem stendur þar rétt við. Þar eru engir bryggjupollar, engin aðstaða til þess að festa skip við bryggju önnur en þessi gamli olíutankur.

Þeir súðvíkingar telja sig hafa loforð fyrir því frá framkvæmdavaldinu að á árinu 1975 verði hafin framkvæmd til hafnarbóta í Súðavík. Þeir telja sig hafa loforð fyrir þessu, og þeir fela okkur þm. sínum að ganga eftir því að við það loforð sé staðið. Það reynum við að gera nú, flm. þessarar till., og aðrir þeir ágætir Vestfjarðaþm., sem okkur ætla að styðja í málinu. Það er ekki aðalatriði í þessu máli að koma höggi á stjórnarmeirihl., einstaka ráðh. eða ríkisstj. Aðalatriðið, sem fyrir okkur vakir, er að gera tilraun til þess að fá meiri hl. á Alþ. til þess að fallast á bráðnauðsynlegar framkvæmdir sem ekki kosta mikið fé, — framkvæmdir sem annars vegar eru þess eðlis, að ef þær verða ekki unnar í sumar, þá geta liðið mörg ár þangað til möguleiki gefst á að vinna þær, og hins vegar þess eðlis, að íbúarnir á viðkomandi stað telja sig hafa loforð fyrir því að hafa sagt við mig og ég hef það hér eftir: Ef ekki verður orðið við erindi okkar í þessu máli, þá getum við eins lagt niður okkar útgerð og flutt í burt.