17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

316. mál, veiting íbúðarhúsalána

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 120 svo hljóðandi fsp. til hæstv. félmrh.:

„Hvenær er áætlað að lán verði veitt úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra húsbyggjenda, sem gert höfðu íbúðir sínar fokheldar fyrir 15. nóv. s.l.?“ — Þar á ég vitanlega við þá sem höfðu skilað þeim vottorðum til Húsnæðismálastjórnar ríkisins fyrir þann tíma, því að við það er miðað.

Sjálfur þykist ég nú nokkurn veginn vita það svar sem hæstv. ráðh. kemur hér með, en hið sama verður ekki sagt um þá 800–900 einstaklinga, að ég hygg, hvarvetna á landinu sem hér eiga hlut að máli, eftir reynslu fyrri ára, þegar vinstri stjórnin kom því fasta skipulagi á að allir, sem gert höfðu fokhelt fyrir 15. nóv. og skiluðu vottorðum til stofnunarinnar fyrir þann tíma og voru á annað borð þá með umsóknir sínar í lagi, fengju lánsúthlutun 15. des. Það var að vísu í knappasta lagi hvað snertir þá sem afskekktast búa og þurfa nokkurn tíma fyrir sér með nauðsynleg gögn til að ná í lánin, en þó hygg ég að þetta hafi nægt flestum til að fá fyrirgreiðslu fyrir áramót. Hér er um mjög viðkvæman tíma að ræða í fjárhagsmálum hverrar fjölskyldu og því mikils um vert að lán nái afgreiðslu fyrir áramót.

Nú á þessu hausti hefur hula hvílt hér yfir og enn hefur mér vitanlega engin tilkynning verið gefin út um lánsmöguleika þessara aðila. Margir eru því orðnir harla vondaufir og það því frekar sem svör þeirrar stofnunar, sem hér ræður úthlutun, hafa yfirleitt verið neikvæð mjög og jafnvel afgerandi neikvæð í sumum tilfellum sem ég veit náið um. Það er því engin furða þótt spurt sé og óskað eftir því við hæstv. ráðh. að hann upplýsi þingheim og alþjóð nú um hvað á döfinni sé.