17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

316. mál, veiting íbúðarhúsalána

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er öllum kunnugt að hér var um verulegan vanda að ræða hvernig greiða átti úr þessum lánsfjármálum, vegna þess að húsnæðismálastjórn skorti nokkur hundruð millj. kr. til þess að hægt væri að gera þær ráðstafanir sem ég hef skýrt frá. Hins vegar hefur tekist að ráða fram úr þeim vanda, og ég ætla að þetta sé ekki öllu seinna á ferðinni en yfirleitt undanfarin ár og að því leyti ekki ástæða til gagnrýni.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að sumir þeir aðilar sem leitað var til um lánsfyrirgreiðslu, sýndu ekki jákvæðar undirtektir. En að því er snertir ummæli um Seðlabanka Íslands, þá á þetta ekki við um hann, því að það er ekki ástæða til þess að kvarta yfir undirtektum þeirrar stofnunar. Hún átti sinn þátt í að leysa þetta mál.