17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

315. mál, orkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir skýr svör og þau áform sem fyrirhuguð eru til að koma í veg fyrir orkuskort. Að vísu hafði ég aðeins aðrar upplýsingar um raforkuframleiðslu á Austurlandi, en það skiptir ekki meginmáli. Þær vélar, sem hæstv. ráðh. greindi frá að yrðu keyptar, eiga að framleiða samtals um 1 700 kw., eftir því sem mér sýnist, á samveitusvæði Grímsár, og eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, þá svarar það mjög til þeirrar þarfar sem þar er fyrir hendi.

Varðandi Hornafjarðarsvæðið, þá þykir mér það að vísu vægt áætlað að þörfin verði ekki meiri en 2 600–2 700 kw. í vetur. Ég gæti trúað að hún færi jafnvel yfir 3000 kw., en það skiptir ekki meginmáli. Það er nauðsynlegt að fá gastúrbínuna þangað til öryggis, og vænti ég þess að kleift verði að flytja hana þangað mjög fljótlega eins og fyrirheit höfðu verið gefin um á s.l. sumri.

Ég vil síðan endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðh.