17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

312. mál, rannsóknir og virkjunarundirbúningur á Kröflusvæðinu

Fyrirspyrjandi (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 95 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh., sem hljóðar svo:

„Hversu langt er komið rannsóknum á háhitasvæðinu í Kröflu og hver er árangur þeirra rannsókna sem fram hafa farið? Hvenær verður ákvörðun tekin um kaup á vélum í væntanlega Kröfluvirkjun og hvenær er áætlað að hún taki til starfa?“

Hér þarf ekki að fara mörgum orðum um þann vanda sem steðjar að norðlendingum í orkumálum. Verulegur hluti þeirrar raforku, sem nú er dreift um Norðurland, er framleiddur með dísilvélum, og mun þessi hluti fara vaxandi á á næstu árum ef ekki verður að gert. Þó hafa verið gerðar ráðstafanir til að draga úr notkun raforku með því að leyfa ekki aukningu húsahitunar á Norðurlandi öllu. Talið er að olía sú, sem notuð er til raforkuframleiðslu á Norðurlandi á árinu 1974, nemi um 120 millj. kr. og verði þrátt fyrir áðurnefndar takmarkanir á húsahitun um 50% hærri árið 1975 eða um 180 millj. kr. Þannig mun olíukostnaðurinn við rekstur dísilstöðvanna halda áfram að velta upp á sig á næstu árum, meðan ekki tekst að nýta innlenda orkugjafa til að mæta þessari aukningu. Það er því með mikilli eftirvæntingu sem norðlendingar bíða eftir að þær ákvarðanir séu teknar í orkumálum sem tryggja þeim nægilega raforku og eins ódýra og framast er unnt.

Ég hef á þskj. 165 leyft mér ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. að flytja þáltill. um að lagningu byggðalínu norður í Skagafjörð verði hraðað svo að hún komist á fyrir árslok 1975. En þótt tækist að leggja byggðalínu til Skagafjarðar á skömmum tíma leysir hún ekki til framtíðar orkuþörf Norðurlands. Enn síður yrði byggðalínan til að tryggja það öryggi í orkumálum sem almenningur gerir kröfu til og á rétt á, bæði til einkanota og atvinnurekstrar.

Öllum almenningi er kunnugt að fram hafa farið rannsóknir á Kröflusvæðinu. Árangurs þeirra rannsókna hefur verið beðið með eftirvæntingu. Þá er einnig vitað að verulegur afgreiðslufrestur er á vélum og öðrum búnaði sem til Kröfluvirkjunar þarf. Ég vona því að hæstv. iðnrh. geti gefið umbeðnar upplýsingar. Greinagóð svör um, hvenær megi vænta orkuframleiðslu í gufuaflsstöð á Norðurlandi, eru þeim kærkomin sem nú búa við yfirvofandi orkuskort, a.m.k. svo fremi sem svörin gefa til kynna að umtöluð verk hefjist fljótt og taki ekki langan tíma.