17.12.1974
Sameinað þing: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

312. mál, rannsóknir og virkjunarundirbúningur á Kröflusvæðinu

Fyrirspyrjandi (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir greinagóð og fróðleg svör, og ég vænti að þeir, sem mestan hlut eiga að máli, orkunotendur á Norðurlandi, muni gleðjast yfir því, að það virðist svo sem bygging orkuvers við Kröflu muni taka nokkru skemmri tíma en almennt hefur verið gert ráð fyrir.

Ég get ekki undir þessum kringumstæðum stillt mig um að minnast á það, að orkuskorturinn á Norðurlandi kemur fram í fleiri en einni mynd. Það er ekki einungis að það sé skortur á vélaafli til að framleiða orkuna, heldur eru þar eins og annars staðar miklir erfiðleikar á því að halda dreifikerfunum við svo að þau dugi. Þetta hefur mjög berlega komið í ljós núna á síðustu dögum þegar spennir bilaði norður á Kópaskeri, eins og alþjóð er kunnugt. Hefur tekið marga daga að flytja spenni nærri því í kringum hálft landið og hann er ekki kominn á áfangastað enn. Því miður mun vera svo, að Rafmagnsveitur ríkisins eru fátækar af varahlutum, og bilanir eins og þessar geta orðið afar óþægilegar fyrir þá sem fyrir þeim verða.

Ég ætla ekki að hafa hér mörg orð um. En það er ekki einungis að línurnar séu viða veikar, svo að þær séu lélegar í vondum veðrum, heldur er varahlutaskortur. Það mun meira að segja vera svo að sá spennir, sem nú er verið að flytja til Kópaskers, er ekki nægilega stór til að anna því verki sem hann ætti að vinna þar. Þetta veit ég að er stórt verkefni úr að .leysa á næstu árum að leysa þá fjármagnsþörf sem er fyrirhendi til þess að styrkja svo rafmagnslínurnar og rafveitukerfið allt að það þjóni tilgangi sínum, en þetta er eitt af þeim verkum, sem tvímælalaust verður að snúast að mjög á næstunni. — Ég þakka fyrir.