17.12.1974
Efri deild: 23. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 140 flyt ég ásamt hv. 5. þm. Austf. frv. til l. um breyt. á lögum um verðjöfnun á olíu og bensíni, nr. 34 frá 18. febr. 1953. Þau lög gera ráð fyrir því, að söluverð á gasolíu, brennsluolíu, ljósaolíu og bensíni skuli vera hið sama á öllum útsölustöðum landsins, eins og segir í 1. gr. þeirra laga. Hins vegar er í 5. gr. þessara sömu laga flugvélabensin undanskilið.

Vel má vera, að þetta hafi verið talið eðlilegt í þann tíma. Þá voru fáar atvinnuflugvélar staðsettar úti á landi og hér ekki um neitt stórmál að ræða. Á þessu hefur hins vegar orðið mikil breyting nú upp á síðkastið. Lítil flugfélög hafa víða verið stofnuð og starfa gjarnan innan ákveðinna landshluta, og ég hygg að það sé óumdeilanlegt, að þessi flugfélög veita mikilvæga þjónustu með samgöngum innan þess landshluta og við þann landshluta. Þau sinna gjarnan sjúkraflugi í miklum mæli og eru til taks þegar á þarf að halda og aðrar leiðir oft ófærar. Mikilvægi þessara flugfélaga hefur raunar verið viðurkennt af hinu háa Alþ. með styrkjum sem til þeirra eru veittir á fjárlögum. Hins vegar er sá verðmunur, sem er á flugvélabensíni á hinum ýmsu stöðum,verulegur kostnaðarauki fyrir þessi flugfélög.

Ég hef fengið upplýsingar frá olíufélaginu Skeljungi, sem birtar eru í grg. með þessu frv. að þar kemur fram, að verðlag á flugvélabensíni á t.d. Egilsstöðum, Ísafirði og Höfn í Hornafirði er yfir 25% hærra en í Reykjavík. Á Akureyri er það hins vegar ekki mjög miklu hærra en í Reykjavík, en þó um það bil 10% hærra. Eflaust stafar þetta af meiri flutningi á flugvélabensíni til Akureyrar. Þó er í þessum verðmismun ekki tekið fullt tillit til flutningskostnaðar, töluverður afsláttur mun á honum veittur.

Við flm. teljum að hér sé um alvarlegan ójöfnuð að ræða, sem getur verið það mikill að í raun og veru getur ráðið rekstrargrundvelli þessara litlu flugfélaga og raunar leiðir gjarnan til þess að styrkur til þeirra frá Alþ. verður hærri. Við teljum því tímabært að breyta umræddum lögum með því að fella niður fyrrnefnda 5. gr. laganna, sem undanskilur flugvélabensín. Með því móti yrði verðjöfnun einnig komin þar á.

Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það, hve hátt slíkt verðjöfnunargjald yrði, en því miður hefur mér ekki tekist að fá þær svo ábyggilegar að ég geti flutt þær hér. Allir ern hins vegar sammála um að slíkt gjald yrði mjög lágt, enda liggur það í hlutarins eðli. Notkun á flugvélabensíni í Reykjavík er svo margfalt meiri en til samans úti um landið að þar yrði aðeins um örlítið hundraðshlutaálag að ræða.

Ég ætla ekki að lengja þessa framsögu, en leyfi mér að vænta þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir og fljóta afgreiðslu. Legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. að þessari umr. lokinni.