17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. síðasta ræðumanni það, að hann mundi eftir Vestfjörðum. Það er ákaflega sjaldan sem maður heyrir slíkt hér frá öðrum en þm. Vestf.

Ég vil fara örfáum orðum um þetta frv. um happdrættislán ríkissjóðs.

Við íslendingar höfum upp á síðkastið farið í vaxandi mæli inn á þessa leið til fjáröflunar til vegagerðar. Ég held við getum verið sammála um það, að þessi fjáröflunarleið er mjög umhugsunarverð. Sumir munu segja að við séum orðnir hálfóðir í happdrætti og hugsum ekki um afleiðingar sem það getur haft, við skrifum ávísun á framtíðina. Þessa ávísun verður einhvern tíma að greiða með fjárhæð sem við þekkjum ekki. Ég er þó þeirrar skoðunar að þetta komi til greina í sambandi við vegamálin. Það er mikilvæg framkvæmd og sparar veruleg útgjöld. Í því sambandi get ég því fyrir mitt leyti fallist á þessa fjáröflunarleið.

Það frv., sem upphaflega lá fyrir, gerði ráð fyrir 1200 millj. kr. Með slíkri innheimtu og skyldi þeim eingöngu varið til þess að kosta uppbyggingu Norðurvegar á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Aðrir þm. hv. hafa verið fljótir að hoppa á vagninn í jólavertíðinni og hafa nú aukið þetta í 2 000 millj., og jafnframt er því komið inn, að 2/3 hlutum skuli varið til að greiða kostnað við Norðurveg milli Akureyrar og Reykjavíkur og 1/3 hluta við gerð Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Þetta er sem sagt hinn margrómaði hringvegur, sem þjóðin öll virðist nú eiga að aka eftir og helst hvergi annars staðar.

Hv. þm. Ingi Tryggvason gerði grein fyrir því áðan, hvernig farið var með spenni einn næstum því í kring um landið til þess að komast frá Egilsstöðum til Kópaskers. Gaman væri að heyra hann gera grein fyrir því hvernig farið hefði verið með þennan spenni til Vestfjarða. Ég hygg að það séu 2–3 vikur síðan síðustu bílarnir fóru þangað, og þangað verður ekki opin leið landleiðina fyrr en í vor. Fyrst og fremst stafar þetta af því að ekki hefur enn komist á samband um Inn-djúpið og suður yfir í Barðastrandarsýsluna, sem er nauðsynlegt til þess að unnt sé að halda opinni leið. Þegar það samband er fengið, leyfi ég mér að fullyrða að þetta mun gerbreytast. Kunnugir menn segja að þá muni ekki vera stórum erfiðara að halda þar opinni leið heldur en í öðrum landshlutum, t.d. á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar.

Við, sem störfum fyrir Vestfirði, höfum notið nokkuð góðs af happdrættisláni, 80 millj. kr. verður þar ráðstafað til þess að koma sambandi á um Djúpið, þann veg sem liggur að Ögri og fyrir þá firði sem áður var ekki vegur um. En það er ákaflega mikill misskilningur sem stundum heyrist frá ókunnugum, að þar með sé Djúpvegi lokið. Vegurinn frá Ögri og inn Djúpið er gamall vegur, sem hvergi nærri ber umferðina, því fer víðs fjarri. Eftir er að leggja veginn frá ögri inn Mjóafjörðinn yfir í Ísafjörðinn í Nauteyrarhreppinn og suður um fjöllin og tengja hann vegakerfi landsmanna. Rætt er um tvær leiðir, annaðhvort Þorskafjarðarheiðina, sem nú er farin að mestu leyti á niðurgröfnum vegi, þar eru u.þ.b. 40 km á milli bæja, en hins vegar gott ýtuland, eða hins vegar aðra fjallaleið, sem er styttri, þ.e.a.s. Kollafjarðarheiðina. Það er aðeins um 5–6 km fjallvegur. Hins vegar er sá annmarki á þeirri leið, að þá eru eftir tveir hálsar til að komast í vegasamband. Þeir eru snjóþungir og það mál þarf einnig að leysa. Þarna er stórt átak fram undan.

Ég verð að segja með fullri virðingu fyrir hringveginum, sem er ákaflega mikilvægt átak í vegamálum þessarar þjóðar og ber að fagna, að hringvegi er ekki lokið fyrr en Vestfirðir eru komnir í samband. Ég skal ekkert fullyrða um hvað mikið fjármagn þarf til þessa, en mér kæmi það ekki undarlega fyrir sjónir þótt það væri af stærðargráðunni 400–500 millj. kr. Rætt hefur verið áður á hv. Alþ. um þörf á brú yfir Þorskafjörðinn. Það er kostnaðarsöm framkvæmd, en mundi gerbreyta öllum samgöngum við þetta svæði. Ég get vel trúað því, að kostnaður yrði ekki undir 500 millj. kr. að henni meðtalinni.

Er nú ekki rétt að gera það, sem aðrir hv. þm. hafa gert, hoppa á vagninn og hækka þetta upp í t.d. 2500 millj. og taka Vestfirði með? Ég sé ekkert að því fyrst við förum þessa leið. Þá erum við þó komnir með alla landshluta. Þetta mun ég athuga.

Það er vitanlega mikið umhugsunarefni, hvernig vinna á að vegáætlun. Þar vantar stóraukið fé. Ég hef sagt áður, að með tilliti til þess, hve þörfin er mikil og mikið sparast, get ég fylgt þessari fjáröflunarleið. En er ekki réttara að vinna að vegamálum þannig að afla fjár til vegasjóðs og gera síðan eina áætlun um vegaframkvæmdir í landinu öllu, en vera ekki með fyrsta flokks landshluta og annars flokks landshluta, eða fyrsta flokks vegi og annars flokks vegi. Er ekki rétt að taka þetta allt saman í einni myndarlegri áætlun, t.d. vegáætlun til fjögurra ára, eins og nú er gert, en jafnframt með áætlun til lengri tíma. Komið hefur fram hjá hæstv. samgrh., að átak sem þetta gæti tekið 2–3 vegáætlanir. Vel mætti draga upp eins konar ramma að langtímaáætlun, sem næði t.d. yfir þrjár venjulegar vegáætlanir. Þannig væri þessi fjáröflun til vegasjóðs óbundin, en samkvæmt ákvörðun Alþ. við gerð vegáætlunar, bæði við gerð langtímaáætlunar og skammtímaáætlunar. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að áætlanir fyrir einstaka landshluta ættu að falla inn í slíka almenna heildaráætlun. Ég hygg að þetta væru skynsamlegri vinnubrögð.

Nú erum við með vegáætlun með einhverja lús, ætli það séu ekki um 70–80 millj. kr. í hvern landshluta til nýbyggingar þjóðvega? við erum hins vegar hér með 2 000 millj. kr. fjármögnun og þannig upphaf að áætlun fyrir hringveginn, og við erum með landshlutaáætlanir fyrir Austfirði, Norðurland og eitt sinn Vestfirði, og fleiri munu efalaust bætast þar við. Ég held að við stefnum í ógöngur. Ég fyrir mitt leyti tel að sá framgangsmáti, sem ég hef lýst, væri ólikt hyggilegri en sá sem að er stefnt með þeim vinnubrögðum, sem fram koma hér. Ég geri mér grein fyrir því að erfitt muni að fá þessu breytt þannig við meðferð þessa máls. Því sýnist mér það besta leiðin að taka Vestfirði með eins og þeir væru hluti af þessu landi okkar, hækka upphæðina enn og gera ráð fyrir því að koma Djúpveginum í öruggt samband við vegakerfi landsins.