17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það væri kominn tími til að spyrna við fótum. Mér finnst rétt að fram komi í þessari d. svar hæstv. viðskrh., fyrrv. forsrh., sem eflaust er vel kunnugur efnahagsmálum og ástandi þjóðarinnar um þessar mundir og þekkir aðdragandann allan, en hann sagði: Þó fyrr hefði verið. — Ég er báðum þessum hv. þm. alveg sammála.

Ég verð að segja það að mér kemur frv. undarlega fyrir sjónir eins og það nú liggur fyrir. Þegar mér var fyrst kynnt þetta frv. var einungis talað um byggingu Norðurvegar frá Reykjavík til Akureyrar og happdrættisskuldabréfaútboð 1200 millj. kr. Síðan var því breytt í 2000 millj. kr. skuldabréfaútboð og bætist þá við vegurinn milli Rvíkur og Egilsstaða um Suðurland. 1/3 af þessum 2000 millj. átti þá að fara í Austurveginn. Nú hafa nokkrir hv. þm., sem hafa tekið til máls um þetta frv., boðað brtt. Ýmist á að taka af þessum 2000 millj. til vegalagningar í þeirra kjördæmum, þar sem þeir hafa áhuga á lagningu nýrra vega, eða eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., að bæta við þetta 2000 millj. kr. skuldabréfaútboð, hækka það upp í 2500 millj. og taka þá Vestfirði með og gera þá „að hluta af landinu líka“, eins og hann orðaði það.

Ekki skal ég koma í veg fyrir þessa samhjálp, m.ö.o. hrossakaup, eins og ég kalla það með sjálfum mér, eða kapp um þessa dýru framkvæmdapeninga.

Ég bið hv. þm. þessarar d. að virða það á betri veg að ég kveð mér hljóðs í þriðja sinn til þess að segja það sama. Endurtekning er þó að mínu mati nauðsynleg, þar sem þeir hv. þm., sem bera fram till. um vegalagningu víðs vegar um landið, flytja flestir sams konar till. um fjármögnunarleiðir, sem í öllum tilfellum eru happdrættisskuldabréfaútboð, sem ég tel, eins og nú er komið í peningamálum þjóðarinnar allt að því stórhættulegan verknað. Ég hef áður óskað eftir því að fjmrh. láti kanna hvað fjármálakerfi þjóðarinnar þolir að draga á þennan hátt úr veltufé ríkisbankanna og fjármálastofnananna almennt og eðlilegri veltu þjóðarinnar á hinum almennu peningamarkaði og festa þannig vinnufé landsmanna í opinberum framkvæmdum. Benda má á það, að með þessum skuldabréfaútboðum er farið út í samkeppni um sparifé landsmanna, sem banka- og peningastofnanir geta ekki ráðið við og gerir þessum stofnunum á ýmsan hátt óeðlilega erfitt að gegna hlutverki sínu í lánafyrirgreiðslum við einstaklinga og fyrirtæki.

Ég endurtek dæmið sem ég nefndi hér um verðmun á innlendu og erlendu lánsfé 11. des. hér á þessum sama stað, en þá upplýsti ég að ég hefði hringt í hagdeild Seðlabanka Íslands og leitað mér upplýsinga um hvað gengi dollarans hefði verið 11. des. 1964 og hvert gengið var þennan sama dag 1974. Svarið sem ég fékk frá hagdeildinni var að 11. des. 1964 var gengið 43.06 kr., en var þann dag 1974 117.70 kr. Það hafði tæplega þrefaldast. Á meðan, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði áðan, hefur íslenskt lánsfé í þessum skuldabréfum, sem seld voru á sama tíma, tólffaldast.

Ég endurtek því ósk mína til hæstv. samgmrh., að hann óski eftir því við hagdeild Seðlabankans eða Þjóðhagsstofnunina, í samráði við fjmrn., að kannað verði hvað hinn íslenski peningamarkaður þolir af happdrættisskuldabréfum eða útboðum á þeim, áður en áfram er haldið á þeirri fjárútvegunarbraut. Ég held að ekki sé hægt að fara fram á minna en að það liggi fyrir hreinn útreikningur á því hvað peningakerfi okkar þolir af slíkum lántökum án þess að koma hér öllu efnahagskerfinu úr skorðum.

Ég vil bæta því við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 2. þm. Norðurl. e., að til viðbótar þeim bréfum, sem hér eru boðin út, hefur peningaskortur á markaðnum gert það að verkum að fólkið sjálft hefur skapað sér gjaldmiðil. Ég veit ekki til þess, og hef ég búið í 7 löndum, að nokkurs staðar í veröldinni þar sem ég þekki til séu víxlaviðskipti eins almenn og hér hjá okkur. Það þýðir ekkert annað en að það er fjárskortur meðal fólksins og fólkið býr sér til gjaldmiðil, og þessi happdrættisskuldabréfaútboð eru þá til viðbótar þeim heimatilbúna gjaldmiðli.

Ég vil að lokum lýsa mig stuðningsmann varanlegrar vegalagningar um land allt á skipulegan hátt, — ég ætla ekki að fara út í þá sálma aftur, það gerði ég úr þessum stól 11. des., — þó að ég sé andvígur þessari fjáröflunarleið. En það vil ég segja hæstv. samgrh., að reynist útreikningar Þjóðhagsstofnunarinnar eða hagdeildar Seðlabankans jákvæðir eða mæli þeir með þessum happdrættisskuldabréfaútboðum, þá skal ég verða fyrsti maður til þess að stíga spor aftur á bak í þessum málflutningi mínum og styðja útboðin á bréfunum af heilum hug. En ég fer fram á það, — tel mig ekki vera að fara fram á of mikið, — að útreikningur liggi fyrir, áður en til endanlegrar atkvgr. komi, og þá frá þessum stofnunum. Ef ekki, þá sé ég mig tilneyddan til þess að greiða frv., sem hér liggur fyrir, mótatkv. mitt.