17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Maður er nú hálffeiminn við að koma inn í þessar umr., en það var ein setning sem sögð var hér áðan, sem fyrst og fremst gerði það að verkum að ég kem hér upp. Það var einn hv. þm. sem sagði að það væri nauðsynlegt að líta til Vestfjarðanna líka svo að allir landshlutar fengju sitt. En það er til einn landshluti enn, þar sem meiri hluti þjóðarinnar býr, og því verður ekki neitað, að þessar ráðstafanir, sem gerðar eru þarna, þýða að sjálfsögðu það, að hið almenna vegafé mun líka að nokkru leyti fara á þau svæði þar sem þetta happdrættisfé á að nýtast.

Ég verð að segja það, að ég er mikill talsmaður mikilla vegalagna og mikilla umbóta á því sviði og mér þótti verulega ánægjulegt að hlusta á hæstv. ráðh. tala hér um breyt. á vegal. fyrir nokkrum dögum og er eindregið því fylgjandi að stórátak sé gert til varanlegra umbóta á okkar þjóðvegum. Hins vegar er því ekki að leyna, að það væri æskilegra að skipulag og áætlanir væru gerðar um hvað gera skuli við svo mikla fjármuni sem hér er um að ræða og þá kannske, eins og sagt hefur verið, að tillít verði tekið til allra landshluta og þarfa þeirra. Nú efast ég ekki um meiri þörf annarra landshluta en okkar hér syðra. En við eigum enn þá miklu verki ólokið, og m.a. einmitt vegna okkar mikla þéttbýlis eigum við stundum í örðugleikum með að komast um. Og ég vil vekja athygli á því að það er hundraða millj. kr. verkefni fram undan, sem er talið bráðnauðsynlegt, en það er lagningin hér frá Breiðholtinu og yfir í Hafnarfjörð. Við eigum eftir að leggja góðan veg að Þingvöllum. Við eigum eftir að leggja góðan veg til Þorlákshafnar sem er einn mesti dreifingarstaður hér sunnanlands á fiskhráefni. Og lengi mætti telja, þannig að verkefnin eru næg framundan.

Ekki er það þó ætlun mín að draga úr í þessu efni og að þessi aðferð verði notuð. Ég þyrfti kannske meiri fræðslu á fjármála- og viðskiptasviðinu til þess að átta mig fullkomlega á því, að þessi aðferð hafi verulega hemlandi áhrif á okkar veltu. Ég skal viðurkenna, að ef tekin yrðu erlend lán mundi veltan hér innanlands stóraukast, það er auðsjáanlegt. En við svona framkvæmdir, þar sem fyrst og fremst er um innlent efni að ræða, eiginlega allt annað en olíuna, og þar sem um mjög lítinn mannafla, en fyrst og fremst stórvirkar vinnuvélar er að ræða, virðist mér ekki annað gerast en það, að þetta fer úr einum bankanum í annan. Það er tekið að láni hjá Landsbankanum af einhverju stórfyrirtæki og síðan fer það inn í bankabækur þeirra sem við taka eða fá launin greidd út. Þetta verður vafalaust útskýrt, en einhvern veginn á ég svolítið erfitt með að sjá að þetta hafi einhver hroðaleg áhrif á okkar efnahagskerf í.

Varðandi endurgreiðsluna skulum við hafa eitt í huga um þetta margumtalaða lán, sem er svo erfitt að endurgreiða nú, mér skilst allra helst vegna þess að þeir, sem eiga að fá endurgreitt, vilja fá að láta það standa. En látum svo vera að það sé erfitt. En þegar þetta lán var tekið voru fjárl. 3 milljarðar nú eru fjárl. 48 milljarðar. Ég er ekki viss um að það sé óhagstæðara fyrir ríkissjóðinn að greiða þessa upphæð nú í ár, ef hann vildi endilega það við hafa, heldur en það hefði verið fyrir hann að leggja það út á þeim tíma í einu lagi. Mig langar til að gera þá fyrirspurn hér: Er ætlunin að öll þessi stóra upphæð sé aftur endurgreidd á einu ári? Ég hafði haldið að það væri nú ekki meiningin, þegar stórlán eru tekin, að þau væru endilega greidd upp á sérstaklega stuttum tíma.

Enn eitt atriði er í þessu máli. Við höfum nú fengið nýja ríkisstj. tveggja stærstu flokka landsins. Er þá ætlun þeirra manna, sem eru svo hræddir við þetta fyrirkomulag, að verðbólgan, sem hefur svo mjög borið á nú á síðustu árum, allt frá 1965, haldi áfram að vera eins stórkostleg og verið hefur? Til hvers er þá að hafa sterka stjórn?