12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar, skal ég taka undir með honum að fjárhagsörðugleikar sveitarfélaganna eru miklir og það svo að til hreinna vandræða hefur horft og horfir fyrir sum sveitarfélög. Fjárhagsmál sveitarfélaganna í heild skal ég ekki ræða hér né orsakir þess, hvernig komið er, en að sjálfsögðu eru tekjustofnamál og fjárhagsmál sveitarfélaganna í heild til athugunar hjá ríkisstj.

Fyrir nokkrum dögum var lagt fram frv. um eflingu Lánasjóðs sveitarfélaga og er það frv. einn liður í þeirri viðleitni að rétta hlut sveitarfélaganna, en að sjálfsögðu þarf margt þar eftir að fara.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. gerði sérstaklega að umtalsefni, samninga Reykjavikurborgar við Landsbankann, vil ég taka fram að það hefur verið mál milli borgarinnar og Landsbankans án þess að félmrn. hafi haft þar milligöngu um. Í rauninni má segja að það þurfi að vera meginreglan, að þegar sveitarfélög þurfi fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum þá reyni þau fyrst samninga við þá lánastofnun, sem þau helst hafa haft samband við, viðskiptabanka eða sparisjóð, og að sjálfsögðu er félmrn. reiðubúið til þess að veita fulltingi og atbeina til þess að greiða úr þeim málum þegar þess er óskað.

Að sjálfsögðu verður að skoða málefni hvers sveitarfélags fyrir sig. Ástæður þeirra eru ákaflega ólíkar eins og öllum er kunnugt. En frá því er að sjálfsögðu rétt að skýra, að nokkur sveitarfélög utan Reykjavíkur hafa leitað til félmrn. um fyrirgreiðslu og lánsútveganir og hefur félmrn., þar sem því hafa þótt full efni til, veitt þá milligöngu, sem á hefur þurft að halda, eða aðstoð við sveitarfélagið til þess að fá fyrirgreiðslu í lánastofnunum.

Ég vil út af fyrirspurn hv. þm. taka fram að ég tel eðlilegt og sjálfsagt að rn. reyni að greiða úr vandamálum þeirra sveitarfélaga, sem á slíkri fyrirgreiðslu þurfa að halda, og vil aðeins endurtaka að almennar yfirlýsingar, er að sjálfsögðu ekki hægt að gefa vegna þess hvað fjárhagsástandið er ólikt í hinum ýmsu sveitarfélögum. Hvert mál verður að skoða fyrir síg og þau sveitarfélög, sem eiga í verulegum vanda, verða auðvitað að fá fyrirgreiðslu og þar koma til bankar og aðrar lánastofnanir. Félmrn. er reiðubúið til þeirrar milligöngu, sem ástæða er til að veita hverju sinni.