12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Umræður utan dagskrár

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær áskoranir, sem komu fram hjá hv. 5. þm. Vestf. Það mál, sem hann kom hér með, er sannarlega þess eðlis, að líta verður á það að vissu marki sem óeðlilega lánsfyrirgreiðslu á sama tíma og öðrum sveitarfélögum með sömu tekjustofna og í mörgu enn lakari aðstöðu en Reykjavík hefur er neitað um fyrirgreiðslu í bankakerfinu að miklu leyti, — fyrirgreiðslu, sem þó aðeins er brot af þessari miklu summu, sem þarna er um að ræða. Það er áreiðanlegt, að þarna er um furðulega mismunun að ræða sem þessi stærsta peningastofnun landsins stendur fyrir, og má minna á að þetta er sama stofnunin og beitti sér fyrir því við hina viðskiptabankana, að settar yrðu strangar útlánareglur, — reglur, sem þessi bankastofnun hefur greinilega haft um forustu að brjóta að vissu leyti.

Í ljósi þessarar sérstöku grænu ívilnunar, sem Reykjavík hefur notið, þá skilst kannske betur tregða þessa sama banka að standa við, að ég hélt, áður gefin fyrirheit til vesælla sveitarfélaga á Austurlandi, sem m.a. olli því, að þau urðu ýmist að draga úr eða hætta framkvæmdum við sína nauðsynlegu varanlegu gatnagerð eða skilja eftir sig langan skuldahala sem þeim er ill viðráðanlegur.

Það er lágmarkskrafa, sem hér skal ítrekuð, að ríkisbankarnir mismuni ekki sveitarfélögum. Það er svo sem ekkert nýtt en kemur betur í ljós nú en oftast áður. Ég beini því þeirri eindregnu ósk til hæstv. ríkisstj., að hún láti slíkt misrétti ekki viðgangast og sjái til þess að hér sitji allir við sama borð, þótt ekki sé það allsnægtaborð sem Reykjavík hefur setið við á þessu ári.