17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er ekki vegna þess að ég þurfi að bera af mér sakir sem ég kveð mér hljóðs. Það er ekki enn komið að því, enda eru þetta mjög svo friðsamlegar umr.

Mér þótti vænt um að hæstv. samgrh. skyldi taka hér til máls, en ég verð að viðurkenna að ég saknaði þess að hann ræddi um kjarna þess máls sem ég tók hér til umr. Hann sagði í raun og veru það eitt sem andsvar við gagnrýni minni á þessari sérstæðu tegund skuldabréfa að það ættu allir að vita að góðir vegir spöruðu fólki mikið fé. Þetta er sá alþýðlegi sannleiki sem hann gat vel leyft sér að koma á framfæri, en mátti vita að ég og aðrir hefðu einhvern tíma heyrt áður. Þetta vita að sjálfsögðu allir. Aðalatriði málsins er hins vegar það að spurningin er ekki eingöngu um hvort vegirnir spara fólki fé, heldur um hitt, hver ætlar að greiða framkvæmdina, hver ætlar að greiða lánið sem er tekið og með hvaða hætti. Kjarninn er sem sagt sá, hvort það sé eitthvert vit í því frá efnahagslegu sjónarmiði og frá sjónarmiði ríkissjóðs að hlífast við að taka þátt í kostnaðinum, greiða kostnaðinn í 10 ár, heldur velta kostnaðinum yfir á skattgreiðendur á næsta áratug og ætla þeim að greiða kostnaðinn með tvöföldum þunga. Það er þetta sem ég hef gagnrýnt og kallað ábyrgðarleysi.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson ræddi þetta mál hér áðan og hann virtist fyrst í sinni ræðu ekki sjá muninn á því að tekið væri lán til orkuframkvæmda annars vegar eða lán til vega. En hann hlýtur að gera sér grein fyrir því að þó að hvort tveggja séu þjóðhagslega mjög mikilvægar framkvæmdir, þá er munurinn sá að við erum vanir að skattleggja fólk vegna orkunotkunar jafnóðum og það notar orkuna eftir að raforkuverið hefur verið byggt, en það gerum við sjaldnast í sambandi við vegina. Hann nefndi að vísu þann möguleika að við gætum lagt á vegaskatt. Ég vil nú spyrja hvort honum eða einhverjum öðrum detti í hug að það sé raunhæft að það verði farið að leggja á vegaskatt á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég hef ekki mikla trú á því að svo verði. Hinn möguleikinn er líka sá að ætla sér að innheimta þetta í bensíninu. En gallarnir eru tveir á þessu fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi sá, eins og ég hef margrætt um, að þetta eru óhagstæðustu kjör sem hugsast geta, en í öðru lagi það að við ætlum okkur ekkert að borga af þessu láni 10 ár. Þar af leiðandi er hætt við að fjmrh., sem lítið hugsa um annað en líðandi stund, eins og þeir gera flestir, muni ekki á þessum 10 árum afla neinna tekna til að standa straum af láninu þegar þar að kemur. Þess vegna er heldur óraunhæft að tala um bensínskatt í þessu sambandi.

Orkuneysla og bygging orkuvers gæti í þessu sambandi verið raunhæfur samanburður ef um það væri að ræða að tekið væri verðtryggt lán sem ætli að greiða eftir 10 ár og raforkan væri ókeypis á þessum tíu árum. Síðan fengjum við alla súpuna yfir okkur að þeim tíma liðnum. En þannig er það ekki að sjálfsögðu. Við getum selt orkuna mjög auðveldlega til notenda, bæði til almennra nota og til fyrirtækja sem svo aftur nota hana með góðum hagnaði, og á þann hátt er auðvelt að standa undir láninu. Þetta vona ég að menn skilji að er kjarni þessa máls.