17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Lengi var kýrverðið viðmiðun okkar í fjármálum. Hér er mikið talað um dýr lán og það er kannske kjarni þessara umr. hvort þetta lán, sem við ætlum að taka, sé óhæfilega dýrt. Þá kemur spurningin: Hvað er dýrt lán? Ef við greiðum lánið með andvirði þess sem kostar að leggja jafnlangan veg, 100 m eða km eða hvað sem er að liðnum 10 árum, hefur þá lánið verið okkur dýrt? Ég held að þetta sé það sem hefur skeð. Fyrir 10 árum var bensíngjaldið, að mig minnir, 1.47 kr. eða 1.67 kr. eða eitthvað slíkt. Í dag er bensingjaldið 16.70 kr. Með sama útreikningi yrði bensíngjaldið ansi hátt. Það, sem hefur skeð og kemur til með að ske á næstu 10 árum — en við skulum vona að það verði ekki í svo ríkum mæli sem á undanförnum 10 árum — er það að ríkissjóður fær miklu fleiri milljarða til ráðstöfunar en hann hefur í dag, ekki vegna þess að þessir mörgu milljarðar séu svo miklu verðmeiri, heldur vegna þess að verðgildi krónunnar hefur breyst. Hér er ekkert annað sem skeður en það, að fólkið, sem kaupir þessi happdrættisbréf, fær sitt kýrverð til baka ef það hefur kostað kýrverð upphaflega.

Hitt er annað mál að um það mætti kannske deila í þessu efni, hvort vextirnir eru of háir. Ég held að það hefði ekki mikið að segja í þessu tilfelli, þar sem hér er um happdrætti að ræða, hvort vextir væru 7% eða 10%. En þar á móti kemur að við fáum eins og sagt hefur verið, áralöng afnot af þessum vegi í raun og veru fyrir vextina. Og við fáum meira, við fáum mikinn beinan sparnað, eins og hefur verið getíð um. Ég held að það hafi verið reiknað út að sparnaðurinn við Keflavíkurveginn, beinn sparnaður í viðhaldi, hafi verið a.m.k. á annað hundrað millj. á ári. Og þetta gerir að sjálfsögðu miklu meira en að borga afborganir og vexti af veginum. Á sama hátt mun það verða hér. Við spörum líklega núna 60–100 þús. kr. á bíl sem keyrir að jafnaði á malbikuðum vegi, miðað við að hann keyri 20 000 km á ári, eins og hann gerir gjarnan í þéttbýli. Og svo er enn eitt sem gerist við þetta, að þegar kominn er góður vegur til Akureyrar þá getið þið verið viss um að tekjur af bensingjaldi Vegasjóðs aukast stórkostlega. Þetta hefur sýnt sig hér í fjölmenninu, að því betri vegi sem menn hafa, því meira aka þeir, og umferðin hér austur yfir fjall hefur margfaldast síðan góði vegurinn kom, Þetta þýðir að sjálfsögðu miklu meiri tekjur ríkissjóðs en áður. Og með þessum hlunnindum á að endurgreiða lánin.

Hitt er ég ásáttur með, að það er ekki nokkur hæfa að eiga að borga þetta allt of ört, ekki í einu lagi, en vafalaust verður fundin leið við því. Ég held, þótt ég óski jafnan eftir því að geta heldur tekið óverðtryggð lán en verðtryggð, að ef ekki er hægt að fá annað lán og þarf að vinna framkvæmdina, þá sé ég ekki að það sé neitt því til fyrirstöðu að gera það. Ég held að fátt sé okkur nauðsynlegra einmitt núna en að fá góða vegi um allt land.