17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég veit af eigin reynslu að ég er miklu betri bisnissmaður en læknir, en ég vona að hv. síðasti ræðumaður sé miklu betri læknir en bisnissmaður. En ég ætla ekki að gera ræðu hans að umræðuefni hér, enda botna ég satt að segja hvorki upp né niður í henni. Ég vona að hann hafi farið þar með óhrekjandi visku. Það, sem kemur mér til að standa upp aftur, eru ýmis ummæli hæstv. samgrh. þegar hann tók til máls í fyrra skiptið, en hann talaði þá um að þrátt fyrir mótmæli að mér skilst sérfræðinga ríkisstj. þá buðum við út 80 millj. kr. skuldabréfalán til að framkvæma lagningu Djúpvegar og þau bréf hafi selst fljótt. Ég get ekki séð að það bendi á annað en að ríkisstj. hafi sérfræðinga sem alls ekki eru í neinum „kontakt“, ef ég má nota það orð, við fólkið eða það sem er að gerast í kringum þá. Það er staðreynd, að fólk hefur ekki hlaupið til og keypt þessi ríkisskuldabréf til að reyna að forða undan því sem forðað verður í þessu okkar ágæta þjóðfélagi sem er nú á fleygiferð, heldur hefur það keypt alls konar varning sem það hefur ekkert að gera við. Mér er sagt að sumir hafi keypt fleiri en eitt stykki af ísskápum, ískistum og alls konar tækjum, í von um þá líklega að geta selt það aftur seinna þegar verðgildi innfluttra vara hefur breyst. Þetta eru staðreyndir sem ég þekki úr mínu daglega lífi.

En mér finnst hæstv. samgrh. og fleiri þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, hafa horft alveg fram hjá þeim erfiðleikum sem útboð á skuldabréfum skapar á hinum almenna peningamarkaði. Það hlýtur að vera staðreynd í peningamálum eins og öðrum málum að það eyðist sem af er tekið. Ég held við hljótum að geta verið sammála um það. Ef það er tekið af peningamagni sem lánastofnanir hafa til umráða, sem er aðallega sparifé landsmanna, þá hlýtur að verða samdráttur í starfsemi bankanna og þeir geta þá verr gegnt sínu hlutverki gagnvart hinum almenna borgara og þjóðfélaginu. Það er alveg sama hvort það eru einstök fyrirtæki eða stórar deildir, þau lifa á því að velta þeim gjaldmiðli sem notaður er á hverjum stað, sín á milli, hjá okkur og í menningarlöndum almennt, ef vantar peninga. Í öðrum löndum er það annað. Sums staðar er miðað við kúgildi, eins og hv. síðasti þm. ræddi um og er enn þá í gildi viða hjá frumstæðum þjóðum, en þær gætu áreiðanlega orðið uppiskroppa með húsdýr ef þær færu að eyða eins og við gerum í þessu tilfelli. Veit ég ekki hvað þeir gera þá í staðinn fyrir skuldabréfaútboð.

Ég vil undirstrika það að þessi bréfasala er náttúrlega í beinni samkeppni við hinn frjálsa markað í peningamálum, og ég tel ólíklegt, þó að ráðh hafi tekið þannig til orða áðan að verðtrygging sparifjár hefði átt að koma miklu fyrr, að hann sé reiðubúinn til að jafna aðstöðu ríkisins og ríkisbankanna eða annarra fyrirtækja sem eru í fjárþörf. Hægt væri þá að gefa fyrirtækjum almennt heimild til að selja svona skuldabréf á því verði sem fólkið vill borga fyrir þau, eins og almennt er og hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur margoft talað um hér. En ég held að við séum ekki reiðubúnir til að ráðast í það núna.

Í þessu máli hefur komið skemmtilega fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að Reykjavík ætti að loka af með skurðum til að fyrirbyggja að þessir vegir eða hraðbrautir væri að einu eða neinu leyti fyrir Reykjavík eða reykvíkinga (StJ: Þetta sagði ég ekki eða ætlaði ekki að gera það.) Nei, en ég hef þá misskilið þig (StJ: Já.) Ég biðst afsökunar. (StJ: Ég sagði að ráðh. hefði talað eins og ætti að gera það.) Eins og ætti að gera það? (StJ: Já.) Að ráðh. hafi talað eins og ætti að gera það? (StJ: Eins og ætti að gera það, að vegirnir næðu ekki til Reykjavíkur.) Já, en það skiptir eiginlega ekki máli hvort er, en það er rétt að hafa það sem réttara er og ég leiðrétti það þá hér með. Það er oft sem það kemur fram í málflutningi manna, sérstaklega þm. annarra en reykvíkinga — það heyrist ansi lítið í Reykjavíkurþm. yfirleitt þegar þessi hagsmunamál eru til umr. — að það er hugsað til Reykjavíkur sem einhvers borgríkis sem er aðskilið frá öðrum landshlutum og ég harma það. Ég hélt að þetta væri ekki rétt. Ég hafði heyrt talað um þetta áður en ég kom inn á Alþ., en ég verð að segja það að ég harma að ég hef orðið var við að þetta er staðreynd. Ég vil þó upplýsa hv. þm. um það að vandamál reykvíkinga eru fyrir hendi og fjárfestingarþörf í Reykjavík síst minni en á landsbyggðinni, en það getur verið að þarfir borgarinnar séu aðrar en þær þarfir sem við höfum hér verið að ræða og almennt er rætt um þegar talað er um þarfir landsbyggðarinnar og fjárfestingar þar. Ég er reiðubúinn til að styðja hvaða góða hugmynd sem er fyrir landsbyggðirnar, en ég ætla að biðja a.m.k. þm. að gera sér ljóst að Reykjavik tilheyrir landinu ekki síður en Vestfirðir.

Ráðh. forðast að tala um þá spennu sem skuldabréfaútboðin skapa á peningamarkaðinum, og ég verð að lýsa furðu minni á því, því að það hefur orðið til þess eins og við vitum allir, — ég geri ráð fyrir að hver og einn hafi reynt það, að vegna þess að skortur er á veltufé fyrir þjóðina og vinnufé, hafa einstaklingar skapað sér gjaldmiðil utan við peningakerfið, má segja, sem bankarnir taka þó og versla með, og það eru víxlarnir. Sú gríðarlega upphæð sem liggur í víxlunum til viðbótar við peninga og svo aftur núna skuldabréfaútboð, ég held að það sé orðið þjóðarbúinu um megin að halda slíku áfram, og ég verð að vara við því.

Ég vil þá leiðrétta smá misskilning sem hefur líklega komið fram hjá 5. þm. Norðurl. v., Ragnari Arnalds, áðan. Hann talaði um að það væri hægt að leggja 5% aukagjald á ferðagjaldeyri. Ég vona að ég fari rétt með það, en það hefur verið reynt og það var stöðvað samdægurs vegna þess að Ísland hefur undirritað samninga við OECD- löndin um gagnkvæm skipti og frelsi ferðamanna, og það er einn liðurinn í þeim samningi að hækkun á gjaldeyrisviðskiptum umfram það, sem er lögfest gengi eru talin höft á ferðafrelsi (RA: Samt hafa margar þjóðir leyft sér þetta.) Þetta var talið og vitnað í þennan samning, það gerði Ferðamálaráð sem ég var varaform. í, á sínum tíma, og ríkisstj. stöðvaði það.

Ég vil þó taka undir með hv. 5. þm. Norðurl. v. þegar hann segir að samgrh. vilji láta að sér kveða. Ég fagna því. Ég tel að þannig eigi ráðh. að vera. Ég held að samgrh. hafi verið afskaplega duglegur fjmrh., og ég er alveg viss um að hann verður ekki síður duglegur samgrh. Ég vil geta aðstoðað hann við það að láta að sér kveða, en ég tel mig ekki geta stutt hann í slíkri fjáröflun til þessara vegakafla sem hann er nú með á prjónunum.

Hv. 5. þm. Austf. talar um að vel stjórnaðar þjóðir stuðli að sparnaði, að sparnaður verði sem mestur. En ég get ekki ímyndað mér að hann meini, að sparnaður eigi að verða með þeim hætti sem hér er stuðlað að, með þeim óeðlilega hætti, þeirri óeðlilegu samkeppni sem ríkir hér um sparifé landsmanna. Það má segja að hér séu engir bankar nema ríkisbankarnir sem kveður verulega að, og við hvern er ríkið þá að keppa? Það er að keppa við sjálft sig. Það er að draga vinnufé þjóðarinnar burt frá einstaklingunum sem náttúrlega heftir þá einstaklinginn sem hefur einhverja framkvæmdaþrá í sér og meira að segja stuðlar með því að braski. Við vitum allir að fólk kaupir þessi bréf sem auka verðgildi sitt svona — eins og þau hafa gert á síðustu 10 árum, — tólffaldast. Hvað gerir það svo í staðinn þegar það þarf að fá íbúð eða bak yfir höfuðið? Annaðhvort leitar á náðir borgaryfirvalda eða sveitarfélaga eða fær ódýrara lán hjá lánastofnunum, eins og t.d. húsnæðismálastjórn. Þetta eru dæmi sem við vitum um, fyrir utan annað, að þegar sparifé er lagt inn í bankana, þá er ákveðið prósent sem bankarnir eru skyldaðir til að leggja inn í Seðlabankann sem bindifé. Ef fólk tekur svo aftur 100% út sitt sparifé, þá sitja bankarnir uppi með bindiféð í Seðlabankanum, þannig að það má segja að þeir tapi ekki bara 100% af því sem fólkið lagði inn, heldur eru þeir með eigið fé bundið til viðbótar. Ég skal ekki fara með prósentuna, ég hélt hún væri um 40%. Hún var það, en það getur verið að hún hafi lækkað eitthvað.

Ég vil ítreka fyrri óskir mínar um að það verði kannað hvað peningamarkaðurinn hér þolir af tilfærslum af þessu tagi, þar sem veltufé er tekið upp og sett í framkvæmdafé. Og þar sem ég geri ráð fyrir að frv. þetta verði sent til fjh.- og viðskn. þessarar hæstv. d. og ég á sæti þar, þá mun ég óska eftir því í þeirri n., að skriflegar upplýsingar berist frá hagdeild Seðlabankans og Þjóðhagsstofnuninni um þessa tilfærslu á peningum úr veltufé í fjárfestingarfé í svo ríkum mæli sem raun ber vitni.

Ég ítreka það, sem ég sagði fyrr í kvöld, að fari svo að sérfræðingar þjóðarinnar í peningamálum telji ráðlegt að happdrættisskuldabréfasala haldi áfram og torveldi ekki eðlilega starfsemi bankanna, mun ég samþykkja frv. Að öðrum kosti sé ég mig tilneyddan að greiða atkv. gegn þessu frv.