17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, en ég hygg að hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, hafi misskilið mig dálítið varðandi samanburð á orkuverum og vegum. Það eina sem ég var að reyna að koma á framfæri, þótt það kunni að hafa verið óljóst, var að vegir skiluðu af sér arði, skiluðu af sér tekjum á sama hátt — þó á dálítið annan hátt að vísu — og orkuver. Þessar tekjur koma fram í því gjaldi sem innheimt er fyrir að aka þessa vegi, og þessar tekjur koma einnig fram í þeim þjóðhagslega sparnaði sem verður af þessum vegum. Þótt arðsemisútflutningur á vegagerð sé ekki mjög algengur hér á landi, þá er hann mjög svo algengur meðal nágrannaþjóða okkar, á alveg sama hátt og arðsemisútflutningur fyrir orkuver á sér stað.

Það hefur verið spurt hvernig ég vilji rökstyðja það að sú leið að selja verðtryggð skuldabréf auki sparnað. Hv. 12. þm. Reykv. sagði áðan að fólk reyndi í verðbólgu að forða því sem forðað verður, það keypti fleiri en eitt stykki af ísskápum o.s.frv. Ég þykist hafa vissu fyrir því að allmargir, sem hefðu lagt í slíka eyðslu, hafa einmitt keypt happdrættisskuldabréf og stuðlað þannig að auknum sparnaði í þjóðfélaginu.

Ég er alveg sammála hv. 2, þm. Norðurl. e., Jóni G. Sólnes, að verðbólga er hlutur sem væri betra að vera án. En því miður er verðbólga staðreynd, og með því að hafa þennan möguleika sköpum við þarna leið sem stuðlar að auknum sparnaði.

Það er rætt um það hér að þessi leið dragi vinnufé frá einstaklingum, dragi fjármagn frá einstaklingum. Það má halda áfram: Dregur það ekki fjármagn frá einstaklingum ef ákveðinn aðili tekur lán hjá bankastofnun, fjármagn, til þess að fjárfesta í ákveðnum framkvæmdum? Það má lengi ræða þetta, en hér er um það að ræða að einstaklingurinn hefur ákveðið val og með því að þessi leið er fyrir hendi, þá getur hann valið milli þess að leggja kannske í ótímabundna fjárfestingu, við skulum segja íbúðarhúsnæði, og hins vegar að kaupa happdrættisskuldabréf.