17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

112. mál, opinberar fjársafnanir

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. beri að skoða vel. Ég held að hér sé merkismál á ferðinni og það jafnvel ekki síður fyrir þá sem standa í því að safna fé hjá almenningi. Á mínum mörgu árum hef ég átt aðild að mörgum söfnunum, og mér er fullljóst að það hefur verið slæmt að ekki hafa verið nein ákvæði til um slíkar safnanir. Bæði veit ég að það hefur komið fyrir að einstaklingar hafa gengið í hús og talið sig vera fulltrúa aðila sem þeir voru ekki fulltrúar fyrir og í öðru lagi er alltaf sú hætta sem flm. benti á, að tortryggni skapist gagnvart þeim sem standa í söfnunum.

Þessi ákvæði, sem munu vera skyld ákvæðum í nágrannalöndunum, eru til orðin einmitt vegna þessarar reynslu og vegna þess að upp hefur komist um misferli í hinum stóru löndum. Ég tel að það sé miklu minni hætta á slíku hér hjá okkur í fámenninu. En þó er ekki því að leyna að það væri til mikilla bóta fyrir báða aðila að fá lagafrv. sem þetta samþ. Ég vil því taka það fram, að mér finnst sjálfsagt að skoða þetta mál mjög vel.