17.12.1974
Neðri deild: 23. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur nú lýst vilja n. í þessu máli og afgreiðslu hennar. N. var einhuga um að verða við óskum suðurnesjamanna um það að leggja sitt til að frv. yrði að lögum fyrir jólafríið.

Þetta frv. er orðið nokkuð vel undirbúið, og ég hygg að það sé rétt, sem kom fram í ræðu frsm., að þótt n. hefði haft lengri tíma til athugunar á málinu, þá hefði það ekki breytt miklu. Það eru glöggir útreikningar og miklar rannsóknir sem liggja að baki þessa máls, þannig að það verður að vænta þess að arðsemin, sem talin er vera allgóð á þessu fyrirtæki, sé á rökum reist og þeir reikningar sem þar hafa verið lagðir fram.

En það er aðeins út af brtt. hv. 3. þm. Reykv. sem ég sé ástæðu til að taka til máls, þótt hann lýsti að öllu leyti rétt aðdraganda þessarar till. og að n. styður hana ekki. Ég tel að þessi till. sé ekki tímabær og eigi ekki við á þessu stigi málsins. Það er vitað, að nú eru gerðar samningstilraunir við landeigendur og hitaeigendur um þetta mál. — Ég er alls ekki þeirrar skoðunar, að það tefji fyrir málinu þótt umrædd till. verði ekki samþ. Ég er ekki heldur þeirrar skoðunar að verðið á hitaréttindunum verði svo hátt að það skipti nokkrum sköpum í sambandi við mannvirkið sem hér á að ráðast í. Ég minnist þess, að í ársskýrslu Rafmagnsveitna ríkisins 1973 var um þetta skrifað og þá kom það fram skýrt og ákveðið að verðið á hitaréttindunum í Svartsengi mundi ekki skipta neinu verulegu máli í sambandi við stofnkostnað fyrirtækisins.

Það er rétt að fyrir iðnn. liggur frv., sem var flutt hér í fyrra um háhitasvæðin, og það er einnig rétt að talað var um að taka það mál til afgreiðslu eftir þinghléið. Það var einnig rætt um að taka það til alvarlegrar athugunar hvort n. gæti sameinast um einhverja lausn á því frv. Það tókst ekki í fyrra. Við sjálfstæðismenn vorum á móti málinu, eins og það var þá lagt fyrir. Nú er það enn í svipuðu formi og það var. Frv. var sent í fyrra til umsagnar nokkurra aðila, og það voru ýmis mótmæli sem komu fram. Ég minnist sérstaklega umsagnar Búnaðarþings sem var alveg á móti frv. eins og það var lagt fyrir í fyrra. Enn hefur ekki verið gerð sú breyting á frv. sem neinu máli skiptir eða nægir til þess að Búnaðarþing mundi geta fellt sig við frv., eins og það er núna. En það er ekki nema sjálfsagt að athuga hvort hægt er að sameinast um einhverja breytingu á frv. Ég er ekki þeirrar skoðunar eins og hv. þm. Magnús Kjartansson, sem sagði í fyrra að eins og orkulögin væru, þá hefði það jafnvel tafið fyrir því að framkvæmdir gætu hafist. En ég minnist þess ekki, að það sé hægt að nefna nokkurt dæmi um að mannvirki hafi tafist vegna þess að lögin, sem nú eru í gildi um þessi efni, séu ekki nægilega virk. Eignarnámsheimildin er alltaf fyrir hendi, og sá möguleiki er vitanlega notaður þegar samninga.leiðin bregst.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þetta. Þetta frv. getur örugglega orðið að lögum vegna afgreiðslu iðnn. Nd. Ég hygg að það sé nauðsynlegt að flýta fyrir málinu til þess að hægt sé að gera alvöru úr samningum við þá sem eiga hitaréttindi í Svartsengi. Gera þarf ráðstafanir til þess að útvega fjármagn, því að hér er um dýrt fyrirtæki að ræða, en aðkallandi og gott fyrirtæki eigi að síður.