17.12.1974
Neðri deild: 23. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

116. mál, lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breyt. á l. nr. 46 16. apríl 1971. um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar, og um heimild fyrir Hafnarfjarðarkaupstað að taka eignarnámi landspildu í Hafnarfirði. Ég flyt þetta frv. ásamt hv. þm. Reykn., sem sæti eiga í þessari d., þeim Gils Guðmundssyni og Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur, auk hv. þm. Eyjólfs Sigurðssonar.

Þetta frv. er flutt að beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og hreppsnefndar Garðahrepps. Í sjálfu sér er hér um að ræða einfalt og lítið mál þótt í þetta viðamiklum búningi sé. Það er um að ræða að tæpur 1/2 hektari úr landi Garðahrepps fari í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, og það er raunar það sem talnaröðin í 1. gr. frv. þýðir,

2. gr. kveður hins vegar á um heimild bæjarstjórnar Hafnarfjarðar f.h. bæjarsjóðs til að taka eignarnámi leiguréttindi á landi því, sem Sjómannadagsráð hefur fengið undir fyrirhugaðar byggingar Dvalarheimilis aldraðra í landi Hafnarfjarðar. Það fylgir hér grg. sem er bréf bæjarstjórans í Hafnarfirði og sveitarstjórans í Garðahreppi, — bréf sem þeir hafa skrifað þm. Reykn. í Nd., og þar er þetta mál allt nánar rakið. Ég þarf ekki að endurtaka neitt sem þar er sagt. En í sem stystu máli sagt er frv. flutt vegna þess að sú lóð, sem Sjómannadagsráð hafði fengið hjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, reyndist ekki nægilega stór þegar farið var að hanna byggingar sem þarna skyldu rísa. Þess vegna var á sinum tíma leitað til hreppsnefndar Garðahrepps til þess að fá viðbótarland, en landið, sem Sjómannadagsráð hafði fengið, var einmitt á mörkum þessara sveitarfélaga. Sú málaleitan var samþykkt af hreppsnefnd Garðahrepps. Síðan var gerð ákveðin samþykkt á milli sveitarstjórnanna til þess að forðast eða koma í veg fyrir hugsanlega árekstra sem gætu orðið ef stofnun sem þessi yrði í tveimur sveitarfélögum. Þannig var t.d. ákveðið að byggingarnefnd Hafnarfjarðar skyldi fjalla um þetta mál eingöngu, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar að því er varðaði þessa stofnun og annað eftir því. En siðar kom úrskurður skipulagsstjórnar ríkisins með stuðningi félmrn. þess efnis að ekki væri heimilt að byggja stofnun sem þessa í tveimur sveitarfélögum. Því er ekki um annað að ræða en að breyta mörkunum, og það hafa sveitarstjórnir þessara sveitarfélaga þegar samþykkt.

Ég vonast til að þetta frv. nái afgreiðslu fyrir jólahléið. Það er að vísu seint á ferðinni, en það er nauðsynlegt að fá frv. samþykkt til þess að ekki verði tafir á byggingarframkvæmdum Sjómannadagsráðs. Verkið hefur þegar verið boðið út að nokkru, en ekki er hægt að hefja framkvæmdir fyrr en þessi breyting hefur verið gerð.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísa ð til hv. allshn.