17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed., sem nú hefur afgreitt það hingað til þessarar hv. d. Í aths. við þetta lagafrv. segir á þessa leið:

„Í gildandi útvarpsl., nr. 19/1971, er mælt fyrir um að útvarpsráð skuli kjörið til fjögurra ára. Áður voru lagaákvæðin á þann veg, að útvarpsráð skyldi kjörið eftir hverjar alþingiskosningar. Með því var tryggt, að skipan útvarpsráðs, sem ber að gæta fyllstu óhlutdrægni, væri jafnan í samræmi við skipan Alþ. Þykir rétt að hverfa á ný að þessu ráði.“

Mér sýnist við nánari skoðun þessa máls að eðlilegra sé að kjósa ráðið eftir alþingiskosningar, þannig, eins og segir í aths., að skipan þess sé jafnan í samræmi við skipan Alþ. á hverjum tíma. Þessi skoðun mín liggur að sjálfsögðu til grundvallar því, að ég mæli nú fyrir þessu frv.

Ég vil rifja það upp til fróðleiks, að kjör útvarpsráðs hefur farið fram með nokkuð breytilegum hætti, frá því að rekstur Ríkisútvarpsins hófst árið 1930. Þá voru sett fyrstu lögin um útvarpsrekstur ríkisins. Strax var ákveðið að menntmrh. skipaði formann ráðsins og þá án tilnefningar, Hefur alltaf verið svo, að ráðh. hefur skipað formanninn, en í seinni tíð úr hópi kjörinna útvarpsráðsmanna. Að öðru leyti tilnefndu ýmsir hópar menn í útvarpsráð þá, stofnanir eins og Háskóli Íslands, prestastefnan og fleiri aðilar. Síðan er það 1934, að horfið er frá þessari skipan til hálfs og Alþ. kýs þá 3, hlustendur 3, — hlustendum voru líka einn hópurinn sem tilnefndi í fyrsta ráðið, — Alþingi kýs 3, hlustendur 3 og ráðh. skipar formann. Þessi skipan stóð ekki nema um 4 ár, því að 1939 er þessu hreytt þannig, að Alþ. kýs þá allt ráðið. Þá er kosið til ákveðins tíma. Því er svo aftur breytt 1942. og þá verður kosningatilhögun á þá lund sem nú er lagt til að verði, að Alþ. kjósi ráðið eftir hverjar alþingiskosningar. Þessi skipan stóð til 1971, að aftur var tekinn upp sá háttur að kjósa útvarpsráð til ákveðins tíma. Þetta eru í allra stystu máli þær hreyfingar sem orðið hafa á þessu fyrirkomulagi frá því að íslenska ríkisútvarpið var stofnað.

Menn hafa oft rætt um það og m.a. í þeim umr., sem urðu um þetta mál í Ed., að það gæti verið æskilegt og að sumu leyti eðlilegra að aðrir aðilar en hið pólitíska vald, þ.e.a.s. Alþ., kysu útvarpsráðið, en engar beinar till. komu fram um það í umr. um þetta mál, og ég man ekki eftir að ég hafi séð neinar ákveðnar till. í seinni tíð um að taka upp aðra skipan þessara kosninga.

Menn tala um að það geti verið heppilegt að útvarpsráð væri alveg óbundið af hinum pólitísku flokkum og væri kosið af þeim. En þó að finna mætti einhverja aðila, sem eru ekki pólitískt uppbyggðir á sama hátt og Alþ. er, þá auðvitað sjá menn það í hendi sinni að alls staðar í þjóðfélaginu hafa menn stjórnmálaskoðanir, og miðað við reynslu af ýmsum öðrum kosningum má ætla að þær kynnu að koma við sögu, þótt ekki væri á jafnformbundinn hátt og þegar Alþ. á í hlut. Öll þessi ár hefur það því orðið ofan á að hafa á þennan háttinn, að kosið yrði til þessa ráðs, eins og margra annarra nefnda og ráða, með hlutbundinni kosningu á Alþ.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Lagt er til með þessu frv. að nú verði horfið aftur að því skiplagi, sem verið hefur lengst af og allt til 1971, að kosið verði í útvarpsráð á Alþ. eftir hverjar alþingiskosningar. Þetta er gert, eins og ég hef þegar tekið fram, í þeim tilgangi að skipan útvarpsráðs verði jafnan í sem nánustu samræmi við skipan Alþingis.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til menntmn.