17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Hér hafa nú átt sér stað nokkuð sérstakar umr. á milli hæstv. iðnrh. og hv. 3. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Austf. Ég tel, að þær aths., sem hér komu fram frá hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, um þetta mál, hafi í rauninni verið ofureðlilegar og ekki gefið tilefni til þess að miklar umr. þyrftu að verða um þær aths., en hv. þm. hafði bent á að hann sæi ekki beinlínis nauðsyn á því að afgreiða þetta mái frá þinginu nú fyrir jólaleyfi, því að málið væri þannig vaxið. En jafnhliða lýsti hv. 3. þm. Reykv, yfir því, að hann væri fylgjandi málinu og mundi styðja það, því að hún væri fyrst og fremst um heimildarlög að ræða.

Hins vegar er það svo, að þær umr., sem hér hafa einnig farið fram á milli hæstv. iðnrh. og hv. 3. þm. Austf., Sverris Hermannssonar, hafa í rauninni verið af allt öðrum toga spunnar. Ég tel að það hafi komið greinilega fram í þessum umr., að hv. 3. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, efast mjög um gildi þessa frv. Hann komst þannig að orði í ræðu sinni, að hann efaðist um að hér væri um góðan kost að ræða. Hann fór hér líka allmörgum orðum um það, að í rauninni væri hér stefnt að því að virkja hálfvatnslausa á, sem engan dropa væri að finna í á tímum, og það var mjög greinilegt að hann var að hæðast að þessari virkjun að því leyti til. Það var líka alveg ljóst á hans málflutningi, að hann leggur aðaláherslu á að fullur kraftur verði lagður á áframhaldandi rannsóknir að stórvirkjun á Austurlandi. Hann telur, eftir því sem ég get helst skilið hans mál, að þessi virkjun kunni að verða til þess að draga úr möguleikum á því að ráðist verði í stórvirkjun í Fljótsdal. Meginástæðurnar fyrir því, að hann vill fresta þessu máli, eru byggðar á þessu.

Ég er fyrir mitt leyti algerlega ósammála hv. 3. þm. Austf. í þessum efnum, Ég tel að það eigi að greiða fyrir samþykkt þessa frv., og ég mun fyrir mitt leyti styðja það. Hér er um það að ræða að veita ríkisstj. heimild, og um það gat ég fyrir rúmum mánuði, þegar þetta mál var rætt. Hér er fyrst og fremst um heimildarlög að ræða, og það, sem auðvitað skiptir okkur austfirðinga mestu máli, er að fá vitneskju um, hvort ríkisstj. ætlar að notfæra sér þessa heimild og hvenær hún ætlar að taka ákvörðun um að ráðast í virkjunina. En málið virðist ekki vera komið það langt enn þá, að hægt sé að svara því hvenær slík ákvörðun verði tekin. Ég tel þó bót að því að ríkisstj. fái þessa heimild. Að mínum dómi er hér um að ræða hagstæða virkjun, enda er það álit allra þeirra sérfræðinga sem látið hafa uppi álit sitt á virkjuninni. Og þetta er sannarlega ekki nein ómerkileg virkjun fyrir okkur á Austurlandi. Hér er gert ráð fyrir virkjun sem nemur 32 mw. Sú vatnsvirkjun, sem við höfum stuðst við til þessa, er aðeins 3 mw., Grímsárvirkjun. Lagarfossvirkjunin, sem við höfum þó mænt á til þessa, er aðeins 7.5 mw. En hér er verið að ræða um virkjun upp á 32 mw., og er enginn vafi á því, að ef virkjunin reynist sú sem sérfræðingar segja, þá mundi þessi virkjun leysa raforkumál á Austurlandi til nokkurra ára á mjög viðunandi hátt, auðvitað ekki til þess að hægt sé að koma upp á Austurlandi stóriðju á svipuðum grundvelli og ráðist hefur verið í af útlendingum hér fyrir sunnan. En það er ekki það, sem við á Austurlandi höfum verið að biðja sérstaklega um í raforkumálum. Það er allt annað mál.

Eins og hér hefur komið skýrt fram, er með þessari virkjun ekki á neinn hátt dregið úr möguleikum þess að ráðist verði í stórvirkjun á Austurlandi. Þessi virkjun spillir því ekki á nokkurn hátt, og því sé ég ekki hver ástæða ætti að vera til þess að fulltrúar Austurlands tefðu fyrir því á einn eða neinn hátt að þessi heimild væri gefin og ráðist sé í þessa virkjun, svo brýn sem þörf okkar er í orkumálum, hvað svo sem líður áhuga einstakra manna á því að ráðist verði í stórvirkjun í sambandi við stóriðjurekstur.

Ég styð því að þetta frv. nái fram að ganga nú fyrir jól og ríkisstj. fái þá heimild sem felst í frv., í fullu trausti þess að ríkisstj. noti síðan þessa heimild, taki ákvörðun hið fyrst,r um að ráðast í þessa virkjun, en geymi ekki heimildina, eins og stundum hefur átt sér stað um slíkar heimildir, árum saman. Það eru mörg dæmi um að heimildir hafi verið veittar til virkjana án þess að þær hafi verið notaðar.

Ég er sannfærður um að austfirðingar villast ekkert á því í þessu máli, að þó að frv. þetta nái fram að ganga og ríkisstj. fái þá heimild, sem í frv. felst, þá sé þar með búið að leysa þann vanda, sem þeir standa nú frammí fyrir í orkumálum. Þeir kunna full skil á því. Þeir vita að þessi virkjun verður ekki til fyrr en eftir allmörg ár. En það situr síst á okkur að tefja það á nokkurn hátt að hægt sé að komast að því að taka ákvörðun um að ráðast í þessar framkvæmdir.

Hv. 3. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, talaði jafnvel um að það ætti að breyta nafninu á þessari virkjun og kalla þetta frv. til l. um fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar eða Fljótsdalsvirkjun. Það er greinilegt að hann er að hugsa hér um allt annað. Ég vara algerlega við þessu, því að mér er vel kunnugt um að hv. 3. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, gerir sér grein fyrir því alveg eins og ég, að við austfirðingar erum staddir í miklum vanda í þessum efnum og okkur liggur á að fá aukna raforku inn á okkar svæði. En ef við tefðum á nokkurn hátt fyrir því að ráðist yrði í þessa virkjun, þá gæti það kostað okkur mikið, jafnvel þótt menn reyndu að hugga sig við það — þeir sem áhuga hafa sérstaklega á því — að menn væru þó alltjent að rannsaka alla möguleika á miklu stærri virkjun sem gæti komið einhvern tíma og einhvern tíma, vegna þess að sú stórvirkjun er í rauninni um allt annað. Hún er ekki hugsuð fyrst og fremst til þess að þjóna hagsmunum okkar á Austurlandi. Hún er hugsuð hjá þeim, sem um hana tala, í sambandi við rekstur útlendinga. (SvH: Það má ylja sér við það.) Já, þá hugsun geta sumir yljað sér við, en aðrir hugsa um ýmislegt annað.

Ég er á þeirri skoðun, að hv. 3. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, hafi í rauninni misskilið það mál sem hér er um að ræða. Ég heyrði að hann talaði í sinni ræðu allmikið um byggðastefnu. Telur hann að það sé sérstök byggðastefna fyrir okkur austfirðinga að bíða um langan tíma í vandræðum í okkar raforkumálum meðan einhverjar athuganir fara fram á því hvort tiltækilegt sé að ráðast í margfalt stærri virkjun en okkur kemur raunverulega við á Austurlandi, í sambandi við einhverja möguleika um stóriðjurekstur útlendinga?

Eins og ég sagði í upphafi míns máls, tel ég ekki neina þörf á því að þeir séu að deila hér, hæstv. iðnrh. og hv. 3. þm. Reykv. um afstöðuna til þessa máls. Þeir geta rifist lengi um orkumálin almennt og hvernig þeir hafa hvor um sig staðið sig í þeim málum. Það er allt annað mál. Ég ætla ekki heldur að nota tíma minn hér til að fara að ræða um orkumálin almennt og hvað í þeim hefur gerst. Ég legg áherslu á að þetta mál nái fram að ganga, sé enga ástæðu til þess að verið sé að draga að veita þessa heimild fram yfir jólaleyfið. Hitt skal ég játa, að það er ekkert stórmál í sjálfu sér hvort frv. er afgreitt fyrir jól eða strax þegar Alþ. kemur saman aftur eftir jólaleyfi. Það er ekki stórmál, ef menn hafa þá hugsað sér að standa að afgreiðslu málsins. En mér sýnist á málflutningi hv. 3. þm. Austf., Sverris Hermannssonar, að hann efist um réttmæti þess að samþykkja eigi þetta frv.

Ég skal svo ekki tala lengra mál í þessum umr. Ég vil aðeins segja það varðandi þá brtt., sem hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, flytur á þskj. 166 við 4. gr. frv., að ég get vel stutt þá till., en tel í sjálfu sér ekki mikinn mun á efni hennar og 4. gr. frv. eins og hún er orðuð, tel það ekki skipta neinu afgerandi máti. Þó hygg ég að það væri öllu betra orðalag eins og hv. þm. leggur til að hafa þetta, en ég geri ekki neitt aðalatriði úr því hvor leiðin er valin varðandi möguleika á því að gefa sveitarfélögum á Austurlandi kost á að vera aðilar að þessari virkjun, ef þau óska eftir. En ég sem sagt styð það að þetta frv. nái fram að ganga og það helst nú fyrir jólaleyfi.