12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er fyrst örlítil aths. í sambandi við þessar umr. utan dagskrár. Mér sýnist að með þeim sé stefnt í þá hætti sem því miður hafa tíkast hér á Alþ. að fundartíma sé eytt í umr. utan dagskrár. Ég vil þess vegna skjóta því til forseta hvort hann eða forsetar vildu ekki leita eftir samstarfi við alþm. um að þeir kæmu þá fyrst fram með fsp. utan dagskrár þegar fjallað hefur verið um þær fsp. sem eru á dagskránni. Ég tel það tillitsleysi gagnvart þeim hv. þm. sem hafa farið að á löglegan hátt að öllu leyti og borið sínar fsp. fram á þann hátt sem þingsköp gera ráð fyrir, að það sé haldið þannig á málum að þeir komist alls ekki að með þær fsp. Ég held að þetta sé mál, sem allir þm. verði að athuga með velvilja og reyna að ná skynsamlegri vinnubrögðum í þessu efni, og ég vil skjóta því til forseta að beita sér fyrir því í samvinnu við þm.

Út af því, sem hér hefur verið rætt, fjárhagsmálum sveitarfélaga, ætla ég aðeins að segja örfá orð.

Við hv. síðasti ræðumaður erum og höfum oft verið hjartanlega sammála um margt og m.a. vorum við alltaf sammála um það í síðustu ríkisstj. að standa gegn hækkunum á álögum í sveitarfélögunum og beita mikilli aðhaldssemi gagnvart fyrirtækjum sem fóru fram á hækkanir. Kannske höfum við verið of aðhaldssamir. Það sýnir sig a.m.k. nú að fjárhagur þessara fyrirtækja er bágborinn. Það sýnir sig líka og er staðreynd sem liggur fyrir, að fjárhagur margra sveitarfélaga er ekki góður. Ég held að það verði að segja þar um, að þau hafi ekki sniðið sér stakk eftir vexti, þau hafi ekki hagað sínum framkvæmdum fyrr en þá um seinan í samræmi við fjárhagsáætlanir og tekjumöguleika. Þetta tel ég út af fyrir sig illa farið, vegna þess að ég tel einmitt eins og síðasti ræðumaður að á því ári, sem við lifum nú á, hafi verið full þörf á því að beita aðhaldssemi af sveitarfélögum og af ríkinu. Ég hef fyrir mitt leyti viljað vinna að því, að það væri gert. En það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að þetta hefur ekki tekist. Framkvæmdaviljinn — framkvæmdaþörfin kannske — hefur verið svo mikill að það hefur ekki verið hægt að halda þessu í þeim skefjum sem æskilegt hefði verið. Þess vegna er þetta staðreynd sem við stöndum andspænis nú, hverjum svo sem um er að kenna, að það eru fjölmörg sveitarfélög í fjárhagslegum vandræðum.

Þau mál hafa verið rædd. Þau voru rædd í fyrrv. ríkisstj. Þar voru í rauninni allir sammála um að leyfa ekki hækkun og álögur og fyrrv. félmrh. var þar ekki undanskilinn. En þessi mál hafa verið rædd í núv. ríkisstj. og ríkisstj. er áreiðanlega ljóst að hún verður í þessum efnum að rétta fram hjálparhönd eftir því sem við verður komið. Það hefur verið samþykkt í ríkisstj. að gefa sveitarfélögunum m.a. vilyrði fyrir að leyfð verði sú álagningarhækkun, sem lög heimila á næsta ári. Ég er ekki að segja að ég sé sérstaklega hrifinn af þessari ákvörðun, en hún er sjálfsagt óhjákvæmileg. Með þessu ætti að vera greitt fyrir því, að sveitarfélög gætu fengið úrlausn hjá þeim bönkum, sem þau hafa skipt við, og með þessum hætti hefur ríkisstj. þegar sýnt vilja sinn í þessu efni. Ég tel enn fremur sjálfsagt og hefur verið rætt um það í ríkisstj. að taka til meðferðar og reyna að greiða fyrir því að leysa bráðan og óhjákvæmilegan vanda sveitarfélaga, þannig að þau gætu komið lausaskuldum — má kannske segja óreiðuskuldum — í fastara horf, í föst lán a.m.k. fram á næsta ár. Þessari stefnu verður áreiðanlega fylgt af ríkisstj., og félmrn. verður auðvitað eðlilegur forgönguaðili til þess að hafa milligöngu þar um. Þar á meðal efast ég ekki um að Ríkisstj. muni beita sínum áhrifum gagnvart bönkum í þessa átt. Hitt er það, að fyrrv. viðskrh. veit það eins vel og ég og reyndar af lengri reynslu en ég, að viðskrh., þó að þeir fari með bankamál, geta ekki gefið bönkunum fyrirmæli um það, hvernig þeir skuli halda á málum, og þess vegna er það að ríkisstj. getur ekki gefið bönkum, ríkisbönkum, fyrirmæli um það, hún yrði þá að fá einhverja stoð í lögum frá Alþ. þar um. Hún getur ekki gefið fyrirmæli um að þeir skuli lána þetta og þetta, heldur verða þarna að koma til samningar og þá auðvitað samningar um hvert einstakt tilfelli, og ríkisstj. getur ekki gegnt þar öðru hlutverki en að vera meðalgönguaðili, velviljaður meðalgönguaðili og reyna að greiða fyrir því að viðhlítandi úrlausn fáist. Ég skildi hæstv. félmrh. svo að þetta væri það, sem hann var að segja, og hann tæki jafnframt fram, eins og sjálfsagt er, að það væri forsenda fyrir því, að hvaða ríkisstj sem er færi að láta þessi mál til sin taka, að til hennar sé leitað af hlutaðeigandi. Þegar hafa nokkur sveitarfélög gert það og sjálfsagt má búast við að fleiri komi á eftir.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, þannig að það ríki enginn misskilningur í þessu efni, að það er vilji ríkisstj. að reyna að greiða úr þessum vandamálum, hvernig sem á því stendur að þau hafa skapast, eftir því sem í hennar valdi stendur. Hitt getur ríkisstj. náttúrlega aldrei tryggt, að allir aðilar búi við fullkomið jafnrétti í þessu efni. Það kann alltaf að vera að eitthvert sveitarfélag af einhverjum ástæðum geti náð sérstaklega hagstæðum samningum við sinn viðskiptabanka, og þess vegna er ekki hægt að segja að þar ríki fullkomið jafnrétti. Það getur í raun og veru aldrei ríkt í þessum efnum, því að ég vil segja að sem betur fer hafa sum sveitarfélög hagað sér fyllilega skynsamlega í þessu og ekki lifað um efni fram og þurfa þar af leiðandi sjálfsagt á engri fyrirgreiðslu að halda. En vafalaust geta þau sagt, þegar þau svo sjá það að önnur sveitarfélög fá einhverskonar fyrirgreiðslu: Þetta hefur að nokkru leyti bitnað á okkur að því leyti til að við drógum úr okkar framkvæmdum. Ef það ætti að ríkja jafnrétti, ættum við nú að fá það sem á vantar til þess að við getum haldið uppi framkvæmdum til jafns við þá sem héldu áfram á fullri ferð og drógu ekkert úr hraðanum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, að ég held að við ættum allir að sameinast um að reyna að koma á skynsamlegri vinnubrögðum við fsp. utan dagskrár.