18.12.1974
Efri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft frv. til l. um Hitaveitu Suðurnesja til athugunar og mælir einróma með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja. Einn nm. var fjarverandi, Eggert G. Þorsteinsson.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál. Þó vil ég vekja athygli á því að hér er verið að taka fyrsta stóra skrefið eftir olíukreppuna að því að koma jarðhita til upphitunar til sem flestra landsmanna. Þess nýtur nú í dag n.þ.b. helmingur þjóðarinnar. En athugun, sem gerð var á s.l. vetri leiddi í ljós að gera má ráð fyrir að u.þ.b. 60–65% landsmanna fái notið jarðhita til upphitunar síns húsnæðis.

Vonandi fylgir fleira á eftir. Bent hefur verið á hitaveitur eins og t.d. í Borgarfirðinum, víða á Suðurlandi og einnig á Norðurlandi. En það, sem hér er gert, er að því leyti stærst af þeim hitaveitum sem til greina koma, að það mun ná til meiri fjölda en aðrar utan Reykjavíkursvæðisins.

Ég vil aðeins vekja athygli á því sem kemur fram í grg. um Hitaveitu Suðurnesja, saminni af Fjarhitun hf. og Orkustofnun, frá 30. nóv. 1974. Þar segir svo í síðustu málsgrein, með leyfi forseta:

„Samkvæmt rekstraráætlun, þar sem gert er ráð fyrir fjármagnskostnaði sem miðast við lán til 15 ára með 10% vöxtum, verður upphitunarkostnaður í upphafi um 80% af kostnaði olíuhitunar en lækkar þar til að eftir 15 ár verður hann 50% af kostnaði olíuhitunar.“

Mér sýnist þarna vera um upplýsingar að ræða sem hið háa Alþ. þurfi fyrr eða siðar að láta til sín taka. Upphitunarkostnaður með hitaveitu á Reykjavíkursvæðinu mun vera nálægt því þriðjungurinn eða þar um bil af kostnaði við upphitun með olíu. Hér er rætt um 80% af kostnaði við upphitun með olíu og niður í 50% að 15 árum liðnum. Við gerum einnig ráð fyrir því, íslendingar, að hita húsnæði þeirra, sem ekki fá notið jarðhitans, um 35% íbúa landsins, með raforku. Ljóst er að upphitun með raforku verður allverulega dýrari en upphitun með jarðhita á Reykjavíkursvæðinu. Sú spurning hlýtur að koma upp hvort hið opinbera verði ekki að hafa forgöngu um jöfnun á þessum upphitunarkostnaði.

Skoðun mín er sú að hjá því verði ekki komist, og sýnist mér að réttara væri að líta á það fyrr en seinna.