18.12.1974
Efri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. iðnn. sagði var um það algert samkomulag í n. að mæla með samþykkt þessa frv., en einstakir nm. áskildu sér rétt til flutnings brtt.

Ég flyt hér brtt. við 14. gr. frv., þá sömu sem flutt var af hálfu Magnúsar Kjartanssonar í Nd., að hún orðist svo:

„Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita í Svartsengi við Grindavík og uppleystra efna og gastegunda sem háhitavatni og gufu fylgja. Ráðh. getur heimilað Hitaveitu Suðurnesja að taka eignarnámi lönd, mannvirki og önnur réttindi sem nauðsynleg eru til framkvæmda skv. lögum þessum. Um framkvæmd eignarnámsins fer eftir l. nr. 11/1973.“

Þessi breyting er nánast í samhengi við frv. til l. um breyt. á orkulögum, nr. 58 29. apríl 1967. Frv. hefur verið flutt sem stjfrv. á undanförnum þingum, en ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu, og er nú flutt sem þmfrv. af Magnúsi Kjartanssyni, Gunnari Sveinssyni, Benedikt Gröndal og Magnúsi T. Ólafssyni, þar sem kveðið er á um það að allur jarðhiti á lághitasvæðum svo og hverir og annar náttúrlegur jarðhiti á yfirborði háhitasvæðis sé háður einstaklingseignarrétti landeigenda, en annar jarðhiti á háhitasvæðum sé í almannaeign og í umráði ríkisins. Ég ítreka að öðru leyti stuðning minn við þetta frv., en ber sem sagt fram þessa brtt.