18.12.1974
Efri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Stefáns Jónssonar að fara beri að rannsaka gaumgæfilega um framleiðslu á fiskmjöli til manneldis. Á þinginu í fyrra flutti Jón Árm. Héðinsson till. til þál. um byggingu á nýrri síldarbræðslu í Grindavik og í því sambandi vakti ég athygli á því að norðmenn hefðu nú um nokkur ár framleitt loðnumjöl til manneldis og selt til þróunarlandanna, og því er ekki að neita að þetta er mjög mikilvægt mál sem ég tel fulla ástæðu orðið til þess að fara að hrinda í framkvæmd.

Á undanförnum árum hafa rannsóknarstofur hér á landi rannsakað og athugað ýmsa meðferð á loðnu til manneldis aðra en frystinguna og kemur þar einkum tvennt til greina. Það er í fyrsta lagi að búa til manneldismjöl og í öðru lagi að þurrka loðnuna og selja hana sem skreið. Þetta hvort tveggja hefur af sjálfu sér miklu meira gildi heldur en setja hana í gegnum svín eða nautpening, en örðugleikar munu vera nokkrir á þessu. Þó er vitað mál að ekki eru neinir tæknilegir örðugleikar á því að framleiða fiskmjöl til manneldis, og ég tel að það sé óhæfa að ár eftir ár líði án þess að við gerum tilraun í þessu efni. Ekki síst ef markaður á frystri loðnu fer nú þverrandi, þá er augljóst að fullkomin nauðsyn er á því að reyna að skapa meiri fjölbreytni í þessari atvinnugrein.

Norðmenn og bandaríkjamenn hafa í mörg ár gert tilraunir í þessu efni. Það var fyrst eftir að þeir komust upp á lagið með að einfalda þessa aðferð, þ.e.a.s. hætta að nema burt bæði lít og lykt af loðnumjölinu, sem þetta varð verslunarvara. Og nú skilst mér, að þetta sé flutt út í þúsundum tonna frá Noregi og gefi mjög góða raun sem eggjahvítugjafi.