12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst að hæstv. forseti verði að leyfa mér að þakka hæstv. bankamrh. fyrir þau orð sem hann sagði hér síðast. Ekki er það svo oft sem hann verður aðnjótandi þakklætis frá mér, svo að mér finnst að það sé ástæða til þess fyrir hæstv. forseta að leyfa mér að bera fram þakkirnar, þótt ég hafi talað tvísvar.

Mér fannst hæstv. bankamrh. taka ólíkt jákvæðara undir þetta mál heldur en félmrh., því að ég skildi ekki félmrh. á annan veg en þann, að hann ætlaði ekki að taka þetta mál upp og beita sér fyrir því innan ríkisstj., að sveitarfélögin fengju hliðstæða fyrirgreiðslu við Reykjavík. Ég þakka því hæstv. bankamrh. fyrir hans skilning, enda hefur hann meiri skilning á dreifbýlismálunum, svo sem eðlilegt er, heldur en kannske hæstv. félmrh., og það kom einmitt fram og ég þakka honum fyrir það. Ég vona að það verði í reynd tekið upp innan ríkisstj. að veita sveitarfélögunum úti á landsbyggðinni sömu fyrirgreiðslu og Reykjavík hefur fengið.

Ég skal ekki ræða öllu meira um þetta, en ég vil þó að lokum víkja að því, sem hæstv. félmrh. kom með og sagði, að Reykjavíkurborg hefði verið búin að safna þessum óreiðuskuldum í tíð fyrrv. ríkisstj. Hver heyrði talsmenn Reykjavíkurborgar halda því fram fyrir kosningar, að það væru óreiðuskuldir upp á 600 millj. við Landsbankann? Hver heyrði fulltrúa Reykjavíkurborgar halda því fram fyrir alþingiskosningar, að slík óreiða væri á fjármálum borgarinnar? Ég efast um að nokkur hafi heyrt það fyrir tvennar kosningar í vor. Það má vera, að dæmið hafi verið orðið þannig, en því hefur ábyggilega ekki verið haldið á lofti fyrir kosningarnar.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri en ég vil sem sagt þakka hæstv. bankamrh. fyrir það sem hann sagði. Ég tek hans orð svo og ég treysti því að hann taki þetta mál upp og beiti sér fyrir því innan ríkisstj., að ríkisbankarnir veiti sveitarfélögunum úti á landsbyggðinni sams konar fyrirgreiðslu og Reykjavíkurborg.