18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég var því miður ekki við þegar umr. byrjuðu um þetta mál, en ég heyrði það á fyrri flm. í gær að honum fannst þessar umr hafa verið nokkuð persónulegar og harðar. Ég get sagt hv. fyrra flm. það strax að ég mun ekki hefja persónulegar ýfingar við hann, en umr, um þetta mál og ýmis skrif um þetta mál í Þjóðviljanum minna mig á karl sem ég las um þegar ég var ungur maður. Hann hafði orð á sér fyrir það að vera ekki sannsögull og hann bjó oft til skemmtilegar sögur, — sögur sem hann hélt að nágrannarnir hefðu gaman af að hlusta á í fásinninu og þá ekki síst í skammdeginu þegar mest var þörfin á að létta mönnum í skapi. Þegar karlinn var búinn að segja þessa sögu nægilega oft, þá endaði það með því að hann fór að trúa því að þetta væri einber sannleikur sem hann hafði í upphafi skáldað. Ég held að hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, sé farinn að trúa því, sem hann upphaflega vissi að var ósatt, þegar hann talar um álverksmiðjuna og álsamninginn. Síðast í gær sagði hv. þm, að þetta væri versti samningur sem gerður hefði verið f.h. íslendinga. Hann sagði að álverið tæki 60% af þeirri raforku sem íslendingar hefðu yfir að ráða. (Gripið fram í.) Hv. þm. sagði 60%. Ég er alveg víss um að segulbandið skrökvar ekki, það standa 60% þar. En hv. þm. gæti breytt því í handriti ef hann vill hafa það, sem sannara reynist.

Hv. þm. endurtók það í gær að þjóðin tapaði 1000 millj. kr. á ári á þessum samningi. Ég er alveg sannfærður um að í upphafi, þegar hv. þm. fór að tala um álsamninginn og jafnvel að gefa í skyn að þetta væri hálfgerður landráðasamningur, þá vissi hann betur. En hv. þm. hefur endurtekið fjarstæðuna svo oft að það hvarflar að honum nú að fara að trúa þessu. Ég vil gera tilraun til að leiða hv. þm. í allan sannleika.

Það er enginn vafi á því að samningurinn við álfélagið var mjög góður fyrir íslendinga. Íslendingar hafa notið góðs af þessum samningi, og fyrir það að samningurinn var gerður reyndist mögulegt að virkja í einum áfanga við Búrfell, en ekki farið í smávirkjun í Efstadal eins og hv. þm. gerði till. um að fá heimild til að gera þegar virkjun við Búrfell var til umr. Víst er um það, að ef ekki hefði fengist orkufrekur iðnaður til þess að nýta orkuna frá stóru virkjuninni við Búrfell, þá hefði orkan til almenningsnota orðið 65–70% dýrari en hún varð með því að álverksmiðjan kom til. En þrátt fyrir það segir hv. þm. að samningurinn hafi verið óhagstæður fyrir þjóðina. Er það óhagstætt fyrir íslendinga, að hafa fengið virkjunina við Búrfell meðan enn var tiltölulega ódýrt að virkja og þjóðin hefur notið góðs af því í ríkum mæli? Það er fróðlegt fyrir hv. þm. að fá upplýsingar um hversu mikið íslendingar fá í erlendum gjaldeyri vegna álverksmiðjunnar á árinu 1974. Það verða 1 milljarður 723.5 millj. kr. í hörðum gjaldeyri. Greiðslan sundurliðast þannig: Laun og launatengd gjöld 732.7 millj., rafmagn 345.9 millj., framleiðslugjald 263.8 millj., hafnarvextir 51.3 millj., annað 275.8 millj. og vegna byggingarframkvæmda, vinnulaun o.fl. sem hér er keypt, 54 millj., alls 1723.5 millj. kr. En hvað er nú um raforkuverðið? Það er mjög lágt, segir hv. þm. Raforkuverðið hefði vitanlega getað verið mun hærra en það er ef verksmiðjan hefði ekki verið látin greiða framleiðslugjald. Ef framleiðslugjaldið væri lagt við raforkuverðið, þá væri raforkuverðið 5.3 mill. og þykir það hátt miðað við þann tíma sem þessi samningur var gerður. Ef tekið er hliðstætt fyrirtæki í Noregi, sem heitir Sörral, systurfyrirtæki álverksmiðjunnar hér og hefur hér um bil nákvæmlega sömu ársveitu, kemur í ljós að það greiðir aðeins 4.8 mill þegar álverksmiðjan hér greiðir 5.3 mill. En Sörral í Noregi greiddi í skatta aðeins 4.2 millj. ísl. kr. þegar álverksmiðjan hér greiðir 263.8 millj. Ef skatturinn hjá Sörral bætist við orkuverðið og skatturinn sem álverksmiðjan greiðir reiknast sem orkuverð, verður orkuverðið 5.3 mill hjá ÍSAL, 4.8 mill hjá Sörral. Bæði fyrirtækin eru með jafnháa veltu.

Nú hefur hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, haldið því fram að norðmenn kynnu að semja. Þegar hann var iðnrh. og þegar hann átti þátt í því að reynt var að semja við Union Carbide og leiddi þá samninga að mörgu leyti eins og gefur að skilja sem iðnrh., þá lagði hann áherslu á að miða orkuverðið, þegar samið var við Union Carbide, við orkuverð í Noregi vegna þess að norðmenn kynnu að semja í sambandi við stóriðju og þeir mundu ekki semja af sér. Ég held það væri gott fyrir hv. 3. þm. Reykv. að skrifa hjá sér ofannefndar tölur þar sem hann hefur traust á norðmönnum og telur að þeir semji ekki af sér. Ég er reyndar sömu skoðunar og hv. 3. þm. Reykv. að þessu leyti, að norðmenn hafa mikla og langa reynslu í þessu efni. En þeir láta sér nægja 4.8 mill þegar ÍSAL greiðir sem svarar 5.3 mill. Ég get lánað hv. þm. skýrslur sem ég hef tekið þessar tölur úr, því að mér er umhugað um að sannfæra hv. þm. og fá hann til þess að hætta að trúa því að það sé orðið að sannleika sem var upphaflega í munni hans einber lygi.

Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt hér í Alþ., þegar rætt er um mikilsverð mál, að komist sé að réttri niðurstöðu og rök fundin fyrir hverju máli. Verði þá hætt að breiða út það, sem ekki getur staðist, í veikri von um að orðið geti flokkslegur ávinningur að slíkum málflutningi, vegna þess að almenningur geti ekki gert sér grein fyrir hvað er rétt og hvað er rangt.

Þegar talað er um nýtingu innlendra orkugjafa er nauðsynlegt að komast til botns í málinu og finna traustan grundvöll fyrir þá samninga sem gerðir eru.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði tilburði til þess, á meðan hann var iðnrh., að fá samninga við útlendan auðhring, eins og það er oft nefnt, til þess að fá orkufrekan iðnað inn í landið, svo að unnt væri að halda áfram að virkja fallvötn landsins og nýta þá orku sem að allt of miklu leyti er óbeisluð í landinu. Í fallvötnunum og fossunum er mikill þjóðarauður. Það er einnig gott að vita af því að jarðhitinn er mikils virði og bíður þess að verða nýttur. En það kemur þjóðinni ekki að gagni fyrr en jarðhitinn er virkjaður og tekinn til almenningsnota. Ég er sannfærður um að hv. 3. þm. Reykv. hefur gert sér grein fyrir þessu, og tilburðir hans til þess að ná samningum við Union Carbide sanna það að hann hefur nokkurn skilning á þessu. Hvers vegna skyldi hv. þm. Magnús Kjartansson ekki geta gert sér grein fyrir því að innlenda orkugjafa ber að nýta?

Till. sú, sem hér er til umr. á þskj. 80, er flutt af hv. 3. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Austf. Nú er það svo að íslendingar hafa á seinni árum gert talsvert að því að nýta innlenda orkugjafa bæði í fallvötnunum og eins jarðhitann. Í tíð viðreisnarstjórnarinnar frá 1959 til 1971 var mikið að því gert að beisla orkuna, bæði jarðhitann og fallvötnin. Virkjað vatnsafl fimmfaldaðist á þessum tíma og í tíð viðreisnarstjórnarinnar voru keyptir stórir jarðborar til landsins og mikið að því gert að auka hitaveitur. Hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, varð iðnrh. 1971. Ætla má að hann hafi viljað sem ráðh. láta eitthvað gott af sér leiða, m.a. í því efni að halda áfram stefnu viðreisnarstjórnarinnar að þessu leyti. Mér dettur ekki í hug að kasta steinum í hv. þm. fyrir það þótt ýmsir hafi haldið því fram að hann hafi ekki vaknað til meðvitundar um þessa nauðsyn fyrr en olíuverðið hækkaði haustið 1973. Auðvitað fengu íslendingar þá aukinn áhuga og gerðu sér enn betri grein en áður fyrir því hversu nauðsynlegt er að nýta innlenda orkugjafa í auknum mæli. Sannleikskorn getur því verið í þeirri fullyrðingu, sem hefur verið viðhöfð um hv. þm. á meðan hann var iðnrh., að hann hafi vaknað af dvala þegar olíuverðið hækkaði.

Hv. þm. flutti sams konar till. og þá sem hér er um að ræða á síðasta Alþingi, eftir að olíuverðið hækkaði. Nokkuð var unnið að orkuöflun meðan hv. þm. var iðnrh., þótt stöðvun hafi orðið í bili og ótrúlega lítið hafi verið gert á 3 árum í þessu efni. Núv. ríkisstj. undir forustu hæstv. iðnrh. hefur gert sér grein fyrir því, hversu nauðsynlegt er að nýta innlenda orkugjafa. Kunnugt er það, að nú er unnið ötullega að undirbúningi áætlana í þessu efni, bæði virkjunaráætlana fallvatna svo og um notkun jarðhita. Ég er sannfærður um að umrædd till., þótt hún verði samþykkt, flýtir ekkert fyrir um það sem nú er verið að vinna að. Hins vegar sé ég enga ástæðu til að setja fót fyrir að till. nái fram að ganga, vegna þess að útilokað er að hún geti spillt fyrir því, sem verið er að gera, og hún getur ekki orðið til þess að draga úr áhuga stjórnvalda eða annarra í þeim efnum.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur mælt fyrir till. Hann hefur einnig skrifað þá grg. sem er með till. En það er leiðinlegt að þurfa að segja að það lítur út fyrir að þegar hann var að skrifa grg., þá hafi hann verið búinu að tyggja upp í huga sér það oft sem hann vissi að var rangt, að honum fannst rétt að setja það í grg. sem sannleika. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp nokkrar setningar úr grg., sem er alveg dæmalaus og hámark ósvífninnar. Þar segir í 2. málsgr.:

„Fyrir tæpum áratug var því haldið fram af þáv. stjórnarvöldum að nýting innlendra orkulinda væri að verða þjóðhagslega óhagkvæm, aðrir ódýrari og hagkvæmari orkugjafar mundu taka við. Í samræmi við það var meira en helmingi allrar raforkuframleiðslu landsmanna ráðstafað til erlends fyrirtækis fyrir afar lágt verð sem haldast skyldi óbreytt til ársins 1997.“

Hv. þm. heldur því fram, að fyrir tæpum áratug hafi íslensk stjórnvöld talið að innlendir orkugjafar væru að verða lítils virði, þess vegna hafi orkunni frá Búrfellsvirkjun verið ráðstafað fyrir gjafverð til erlends fyrirtækis. Fyrir tæpum áratug mun ég hafa verið orkumálaráðherra og var það um 14 ára skeið. Hv. þm. getur leitað í þingtíðindunum bæði að því sem ég hef sagt og aðrir ráðherrar um þetta leyti, og það mun ekki finnast stafur eða setning sem vitnar um að það sé rétt, sem hv. þm. segir hér í grg., heldur þvert á móti. Sagt var að það væri nauðsynlegt að nýta íslenska orkugjafa, innlenda orkugjafa, fallvötnin og jarðhitann, því að meðan það væri ekki gert kæmi þjóðinni það ekki að gagni. Það voru aftur á móti aðrir menn, vísindamenn úti í heimi, sem héldu því fram að kjarnorkan gæti orðið samkeppnisfær og jafnvel ódýrari en vatnsorkan. En það voru ekki íslenskir stjórnmálamenn sem sögðu það, því að þeir vissu ekki neitt um það. Kjarnorkan hefur ekki enn orðið samkeppnisfær við vatnsvirkjun, og lítur út fyrir að það verði mjög langt þangað til. Það var ekki þetta sem réð því að ráðist var í að virkja Þjórsá, heldur vissan fyrir því að stórvirkjun í Þjórsá og annars staðar á landinu, þar sem virkjunaraðstaða er góð, gat orðið til þess að koma styrkum stoðum undir atvinnulífið og auka fjölbreytni þess, auka framleiðsluna og stuðla að því að skapa atvinnuöryggi í landinu.

Álverksmiðjan í Straumsvík hefur því malað gull fyrir Ísland síðan hún kom og hefur starfað eftir þeim samningum sem gerðir voru. Á fimmta hundrað manns hafa örugga og vel borgaða atvinnu í verksmiðjunni og þjóðin fær hátt á annan milljarð í erlendum gjaldeyri á þessu ári vegna verksmiðjunnar. Ísland væri fátækara ef þessi verksmiðja hefði ekki komið. Ísland væri að öllu leyti snauðara ef stórvirkjunin í Þjórsá hefði ekki komið við Búrfell á þeim árum sem hún var gerð. Og nú væri ekki verið að virkja við Sigöldu ef virkjunin við Búrfell hefði ekki komið. Ef samþ. hefði verið till. hv. 3. þm. Reykv. um heimild til þess að virkja við Efstadal og horfið að því ráði í stað þess að virkja við Búrfell, þá væri orkuskortur, engin stóriðja og engar tekjur af henni.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. Magnús Kjartansson hefur skrifað hjá sér þær tölur, sem ég áðan las upp um orkuverðið, sem er sama sem 5.3 mill hjá ÍSAL, ef framleiðslugjaldið er lagt við, en 4.8 mill hjá Sörral, systurfyrirtæki ÍSALS og af sömu stærð. Skatturinn, framleiðslugjaldið, sem álverksmiðjan greiðir, hefur verið notað aðallega í tvennum tilgangi. Það hefur verið lagt í Byggðasjóð til þess að halda uppi jafnvægi í byggð landsins, og Hafnarfjarðarkaupstaður hefur fengið rúmlega 1/5 hluta af þessum tekjum til sín. Og þessi 1/5 hluti af gjaldinu, sem álverksmiðjan greiðir til Hafnarfjarðar, gerir meira í tekjum bæjarins en álagðir skattar á 274 fyrirtæki í Hafnarfirði. Byggðasjóður eða Atvinnujöfnunarsjóður, eins og hann hét þegar hann var stofnaður með tekjum frá álverksmiðjunni, hefði haft minna starfsfé úr að spila ef þessar tekjur hefðu ekki verið fyrir hendi.

Það var gerð grg. fyrir tveimur árum um rafmagnsverðið og greiðslur ÍSALs vegna orkukaupa. Ég tel rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér örlítið úr þessari grg. sem er á rökum byggð, og væri gott fyrir hv. 3. þm. Reykv. að leggja sér á minni það sem þar kemur fram.

Meðalverð orkunotenda, þegar þessi grg. var gerð, - það var á árinu 1972, — orkunotenda í Reykjavík var 1.80 kr. kwst., en ÍSAL greiddi þá 26.04 aura á kwst. eða rúmlega 1/7. En þetta er ekki raunhæfur samanburður. Það ber að athuga nánar, að talið er að tilkostnaður á raforku til neytenda skiptist þannig: framleiðslukostnaður 1/3, flutningskostnaður á háspenntri orku og spennustöðvar 1/3 og dreifing til neytenda 1/3. Sé tekið tillit til þeirrar staðreyndar, að ÍSAL tekur við orkunni háspenntri og rekur eigin spennubreyta og dreifingarkerfi, verður ljóst að margfalda má orkuverð það, er ÍSAL greiðir, með 2.35 til þess að fá tölu, er sambærileg má teljast við greiðslur annarra notenda fyrir raforku, og með 1.17 ef samanburður er gerður við heildsöluverð. Er þá gert ráð fyrir að nýtingartíminn sé hliðstæður. En einnig verður að hafa í huga að ÍSAL nýtir aflið, sem fengið er frá Búrfelli, um 8 200 last. á ári, þ.e. nýtingartíminn er nær 94%, en ekki einungis 50% eins og gildir um aðra notendur að meðaltali. Í Reykjavík var meðalnotkun 4 267 klukkustundir árið 1971 eða tæp 49%. Vegna þessa tiltölulega lága nýtingartíma verða almennir notendur að greiða fyrir það afl sem þarf að vera til þess að unnt sé að mæta toppálagi, og er gjaldskráin miðuð við þessa staðreynd. Sé gengið út frá ofangreindum staðreyndum og borið saman verð til ÍSALs og Áburðarverksmiðju ríkisins, en Áburðarverksmiðja ríkisins greiðir sama verð og ÍSAL, annars vegar og heildsöluverð til almenningsveitna að meðtöldu verðjöfnunargjaldi hins vegar, kemur í ljós að ÍSAL og Áburðarverksmiðjan greiða um 40% lægra verð í heildsölu að tiltölu við aðra kaupendur fyrir að hafa til afnota afl sem nemur 1 kwst. í eitt ár. Það ber þó að hafa í huga, að greiðslur ÍSALs fyrir raforku eru miðaðar við Bandaríkjadollar og eru því óháðar gengisbreytingum krónunnar. Stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar, 1. og 2. áfanga, ásamt Þórisvatnsmiðlun og Búrfellslinu 2 nam 5 200 millj. kr. Heildargreiðslur ÍSALs fyrir orku á 25 ára tímabili munu nema 6 400 millj. kr. Ef aðrir kaupendur greiddu sama verð og ÍSAT. næmu heildargreiðslur á 25 árum því 10 milljörðum 650 millj. kr. Þessi upphæð nægir til þess að afskrifa áðurgreindan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar og skyldra mannvirkja, sem einnig eru að hluta nauðsynleg vegna Sigölduvirkjunar, á 25 árum. Búrfellsvirkjun ætti hins vegar að endast a.m.k. í 75 ár, að talið er af verkfróðum mönnum.

Ég held, að það sé erfitt að hrekja það sem hér hefur verið sagt, og hygg ég, að hv. 3. þm. Reykv. hefði gott af því að kynna sér það sem hér er um að ræða. Ég vil trúa því, að hv. þm. vilji hafa það sem sannara reynist, að hann vilji nú gera upp hug sinn og sannfæra sig um að það, sem hann hefur áður haldið fram, sé ekki á rökum byggt, að hann átti sig nú á því, að það er ekki satt sem hann hefur sagt um álsamninginn og greiðslur álverksmiðjunnar til íslendinga. Það er ekki rétt, að samningurinn við álverksmiðjuna sé slæmur fyrir Ísland, heldur miklu fremur er hann mjög góður fyrir Ísland og gefur þjóðarbúinu miklar tekjur og vaxandi.

Ég tel ekki, hæstv. forseti, ástæðu til að hafa þetta miklu fleiri orð að sinni. Auðvitað gefst tækifæri til þess að ræða þetta mál frekar hér í þessari hv. deild.

En hvað skal gera til þess að flýta nýtingu innlendra orkugjafa, til þess að flýta framkvæmdum á því sem allir eru sammála um að þurfi að gera? Það þarf vitanlega að semja áætlanir. Það þarf að verja miklu fé til rannsókna til þess að ekki sé ráðist í dýrar framkvæmdir nema að þrautathuguðu máli. Það þarf að gera sér grein fyrir því, hvað er hagkvæmast bæði með jarðhitann og fallvötnin. Við íslendingar ráðum yfir þessum auðlindum og við ætlum ekki að afsala okkur þeim til annarra. En ég tel að það hljóti að vera hagkvæmt að semja við erlenda aðila um ýmis atriði þessa máls, til þess að við getum nýtt þetta sem fyrst og á sem hagkvæmastan hátt. Við getum samið við erlenda aðila án þess að afsala okkur nokkrum réttindum og án þess að skaða þjóðfélagið á nokkurn hátt, en með því mætti tryggja þjóðinni hagnað á tiltölulega stuttum tíma.

Ég skal ekki segja hvernig fer um samninga við Union Garbide, en ég get trúað því að það verði lagt fram frv. á hv. Alþingi um málið, og reynir þá á hvaða viðtökur það frv. fær. Verði það frv. samþ., þá kallar það á virkjun strax í framhaldi af Sigölduvirkjun. Það gerir fært að beisla fljótt vatnsafl sem nú er ónotað. Það verður til þess að koma nýrri stoð undir atvinnulífið, og það verður til þess að auka fjármagn og afrakstur af þjóðarbúinu. En það má segja, að þótt Union Carbide komi hér með verksmiðju, þá sé það ekki nema örlítill þáttur í þessu máli. En segja má að mikla nauðsyn beri til að virkja fljótt þar sem orkuna vantar, eins og á Norður- og Austurlandi.

Hæstv. iðnrh. varð fyrir svörum hér í gær og gaf greinargóðar upplýsingar um, að hverju er verið að vinna í orkumálum, m.a. það, að Kröfluvirkjun muni komast fyrr í gagnið en búist var við, og er það út af fyrir sig mjög gott.

Í dag var frv. um Bessastaðaárvirkjun sent úr þessari deild til hv. Ed. Enn vantar miklar rannsóknir til þess að unnt sé að ákveða að virkja í Bessastaðaá. En ef vonir manna rætast, þá er það byrjun á stórvirkjun á Austurlandi.

Hæstv. ríkisstj. er búin að gera ráðstafanir til að kaupa stóran jarðbor, gufubor, til þess að geta flýtt fyrir jarðborunum og hitaveituframkvæmdum. Þessi bor kemur að vísu ekki til landsins strax vegna þess hversu afgreiðslutími er langur. En vonir standa til að það taki ekki meira en eitt ár eða eitt og hálft ár að fá þennan bor sem er mjög stórvirkur þegar hann kemur.

Ég geri ráð fyrir því að það sé ekki rétt að ég eyði lengri tíma að þessu sinni, þar sem önnur mál bíða sem ætlað er að láta ganga fram fyrir jólahlé. Till. mun koma til iðnn. Nd., þar sem bæði ég og hv. 3. þm. Reykv. eigum sæti, og höfum við þá tækifæri til að taka hana til meðferðar og gerum að sjálfsögðu það sem við teljum heppilegast fyrir málefnið þegar þar að kemur.