18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er staðfesting á brbl. sem sett voru hinn 20. sept. s.l. Þau voru sett vegna þeirrar brýnu nauðsynjar, eins og segir í lögunum, að þá þegar yrðu gerðar ráðstafanir í sjávarútvegi til þess að gengisbreyting sú, sem gerð var 29. ágúst s.l., nægði til þess að tryggja viðunandi rekstrarafkomu sjávarútvegsins og til þess að greiða fyrir ákvörðun nýs fiskverðs frá 1. sept. s.l. að telja.

Sjútvn. hv. d. hefur ekki náð samstöðu í þessu máli. Meiri hl. hefur skilað nál. sem að standa 5 nm., en 2 nm. skila séráliti, að ég hygg sinn í hvoru lagi, og eru þau álit væntanleg innan skamms og unnið er að fjölritun þeirra nál.

N. ræddi þetta frv. á allmörgum fundum sínum og enn fremur voru allmargir fundir haldnir sameiginlegir með báðum n. hv. deilda. Það var gert til þess sérstaklega að flýta fyrir afgreiðslu málsins, því að nm. er ljós hin knýjandi nauðsyn þess að þetta mál verði að lögum hið allra fyrsta vegna þeirra ástæðna, sem ríkja í sjávarútvegi landsins.

Brtt. meiri hl. n. er að finna á þskj. 190 og verður vikið að þeim eftir hendinni í þessari framsögu.

Fyrir frv. þessu gerði hæstv. sjútvrh. ítarlega grein við 1. umr. málsins, sem fór fram hinn 11. nóv. s.l., og í frekari umr. um málið sem á eftir fylgdu. Að frv. í heild verður því eigi vikið í þessari framsögu, heldur einvörðungu þeim greinum og þáttum málsins sem brtt. snerta sérstaklega. Þá verður í því sambandi skýrt tekið fram í hverju það samkomulag, sem n. hefur náð við sjútvrn., er fólgið, svo að ekki leiki vafi á hvernig staðið skuli að framkvæmdinni, og er hér sérstaklega átt við ákvæði 9. gr. frv. Í framsögu þessari eru tekin upp ýmis atriði úr grg. sjútvrn. um þetta mál, án þess að vitnað sé til þess sérstaklega í hvert eitt skipti, enda hefur þá meiri hl. n. gert þau orð að sínum, svo að í einn stað kemur niður.

1. brtt. meiri hl n. er við 4. gr. frv., a-lið. Þar er lagt til að útfluttar afurðir lagmetis skuli undanþegnar gjaldi í Olíusjóð. Stefnan í þessu máli var mörkuð með 1. um breyt. á l. nr. 48 frá 26. maí 1972, um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, sem samþ. voru á Alþ. 8. maí 1974. Segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 2. gr. þeirra laga:

„Lagmetisiðnaðurinn fellur undir skilgreiningar laga um iðnrekstur og greiðir iðnlánasjóðsgjald skv. l. nr. 68/1967 með breyt. nr. 19/1968 og nr. 42/1971. Með því skal lagmetisiðnaðurinn að fullu undanþeginn öllum útflutningsgjöldum af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum og söltuðum grásleppuhrognum, sbr. l. nr. 19/1973, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, l. nr. 55/1973, um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, og l. nr. 80/1971, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Þó skulu gjöld, sbr. l. nr. 19/1973, innheimtast til ársloka 1977 og renna í sérstakan sjóð til eflingar lagmetisiðnaðinum og útflutningi hans, skv. 7. gr. þessara laga.“

Þann sama dag, hinn 8. maí 1974, voru samþ. l. um breyt. á l. nr. 68 frá 10. okt. 1967, um Iðnlánasjóð, til samræmis við það sem segir í fyrrgreindum lögum. Þessi brtt. er því í fullu samræmi við fyrri lagasetningar Alþ., og er þess að vænta að engum ágreiningi valdi. Við þetta má bæta því, að lagmetisiðnaðurinn hefur löngum verið nokkurt olnbogabarn, og enda þótt hann njóti hráefnis sem ætti að skara fram úr því sem lagmetisiðnaður annarra landa nýtur, þá er það samt svo, að honum hefur gengið illa lengst af að ná vopnum sínum og löngum átt mjög erfitt uppdráttar. Líka með tilliti til þess er þessi brtt. gerð, að lagmetisiðnaðurinn er undanþeginn greiðslum í Olíusjóð.

2. brtt. er við 5. gr. frv. Þar er vísað til l. nr. 19/1973, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, 6. tl. 1. málsgr. 2. gr. þeirra L, sem hljóða svo:

„6% gjald af fob-verði greiðist af þorskalýsi, karfalýsi, heilfrystri síld, frystum síldarflökum, frystri loðnu, saltsíld og saltsíldarflökum, söltuðum grásleppuhrognum og öðrum þeim sjávarafurðum, sem eru ekki sérstaklega taldar í þessari grein. Heimilt er að draga frá fob-verðmæti saltsíldar og saltaðra grásleppuhrogna vegna umbúðakostnaðar, 500 kr. fyrir hver 100 kg innihalds“

Hér er lagt til að frádráttur vegna umbúðakostnaðar verði 1300 kr. fyrir hver 100 kg innihalds í stað 500 kr. Til rökstuðnings þessari brtt., sem í leiðinni er einnig rökstuðningur fyrir ákv. til brb., merktu rómverskir II, sem gerð er till. um siðast, undir 4. lið brtt., skal vitnað í bréf síldarútvegsnefndar, dags. 19 nóv. s.l. Það segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Söluverð á hausskorinni og slógdreginni sykursíld af stærðarflokknum 300–500 stk. í tunnu eða 6 stk. á kg áætlum vér í dag U.S dollara (Bandaríkjadollara) 110 fob. á tunnu á 100 kg nettó eða ísl. kr. 13013. Útflutningsgjöld af síld þessari nema í dag samtals 14.1% eða 1764 kr. á tunnu. Svo sem kunnugt er hafa svíar síðustu árin keypt síld í allstórum stíl til söltunar í Danmörku þ. á m. af íslenskum skipum, og velja til þess stærstu síldina þannig að hámarksstykkjatala fari ekki yfir 5 eða 6 stk. á kg. Útflutningsgjöld af síld þeirri, sem íslensku skipin landa í Danmörku, eru reiknuð á 14.1% af 3/4 hlutum hráefnisverðs. Meðalsöluverð íslenskra skipa á ferskri síld í Danmörku á yfirstandandi vertíð eru ísl. kr. 29.21 á kg fyrir tímabilið sem tekið er frá 7. maí til 9. nóv. Til að framleiða eina tunnu af hausskorinni og slógdreginni síld þarf 146 kg af fersksíld. Hafi svíar fengið síldina á framangreindu meðalsöluverði hafa útflutningsgjöldin til þeirra af hverri tunnu numið 451 kr., en þegar flutt er út héðan, eins og áður segir, 1764 kr. Sé gert ráð fyrir að meðalsöluverð til söltunar í Danmörku hafi numið t.d. 40 kr. á kg, sem er mjög vafasamt þó, yrðu öll útflutningsgjöldin á tunnu ekki nema 618 kr. ísl. Með því að leggja margfalt hærri útflutningsgjöld á síld, sem söltuð er hér heima, en síld, sem lögð er á land til söltunar í Danmörku, vinna íslensk stjórnvöld að því að flytja þennan atvinnuveg úr landi og gera hlut íslendinga erfiðari í samkeppninni um markaðinn.“

Þess er að vænta að hv. þm. sjái í hendi sér sanngirni þessarar tillögugerðar n. um breyt. á 5. gr. frv. og tillögugerðar varðandi setningu ákv. til brb., þar sem segir að heimilt skuli að endurgreiða útflutningsgjöld skv. l. nr. 19/1973 af saltsíld og saltsíldarflökum sem framleidd eru á árinu 1974.

Í þriðja lagi gerir meiri hl. n. ítarlegar till. um ákvæði 9. gr. frv. sem fjallar um ráðstöfun gengishagnaðar. Er öllum nm. ljóst að hér er um vandasamt verk að tefla. Í þessum atriðum verður aldrei gert svo að öllum líki. Eftir ítarlegar umr. og athuganir eru niðurstöður meiri hl. n. varðandi innihald og útlistun 9. gr. frv. sem hér segir:

„9. gr. um ráðstöfun gengishagnaðarsjóðs frá og með a-lið orðist eins og hér greinir:

a. Til að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa 600 millj. kr. Sjútvrn. er heimilt að ráðstafa allt að 400 millj. kr. af þessari fjárhæð til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja.

b. Óafturkræft framlag til bátaflotans vegna rekstrarerfiðleika á árinu 1974 til 15. sept. 250 millj. kr.

c. Óafturkræft framlag til skuttogara til að bæta rekstrarafkomu þeirra 230 millj. kr.

d. Til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til greiðslu verðbóta vegna fiskmjöls annars en loðnumjöls, sem framleitt var á tímabilinu 1. jan. til 31. ágúst 1974, enda komi allt fiskmjöl til verðjöfnunar í deild fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsverksmiðja 50 millj. kr.

e. Til að verðbæta lífeyrisgreiðslur aldraðra sem fá greiddan lífeyri úr lífeyrissjóði sjómanna 15 millj. kr.

f. Til orlofshúsa sjómannasamtakanna 11 millj.kr. g. Eftirstöðvar til ráðstöfunar skv.nánari ákvörðun sjútvrn.“ — sem skv. útreikningum nú má gera ráð fyrir að nemi um 75 millj. kr.

Síðan segir: „Sjútvrn. setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar og greiðslutíma framlaga.“

Nauðsynlegt er að kryfja hvern lið þessarar greinar til mergjar og skýra sem best þá tilhögun, sem viðhafa skal í þessu sambandi í framkvæmdinni. 1. málsgr. a-liðar 9. gr. fjallar um að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa. Lagt er til að stofnaður verði sérstakur reikningur fyrir hvert skip hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa sem skulda erlend lán. Þeirri fjárhæð, sem ávísað yrði á hvern reikning, yrði skipt í 3 hluta til að aðstoða viðkomandi útgerðir við að standa í skilum með afborganir og vexti við Fiskveiðasjóð, Ríkisábyrgðasjóð og Byggðasjóð næstu 3 árin. Verði inneign á þessum reikningi þegar viðkomandi útgerð hefur greitt sína árlegu afborgun eða tvær 6 mánaða afborganir skal greiða mismuninn út af reikningnum til útgerðarinnar. Sjútvrn. hefur gert útreikninga á gengistapi einstakra skulda frá 1. jan. til 29. ágúst annars vegar og vegna gengisbreyt. 29. ágúst hins vegar og eru samandregnar niðurstöður þessar í millj. kr. frá 1. jan. til gengisfellingarinnar og síðan frá því að gengisfellingin var gerð, og þá kemur þetta þannig út hvað gengistapið hafði orðið: Fram til gengisfellingar vegna minni skuttogara 568 millj., vegna gengisbreyt. 782 millj. Í öðru lagi vegna stærri skuttogara fram til gengisbreyt. 375 millj., vegna gengisbreyt. 482 millj. kr. hækkun. Í þriðja lagi vegna annarra skipakaupa 195 millj. fram til 29/8, en vegna gengisbreyt. 212 millj. Í fjórða lagi vegna breytinga á skipum 30 millj. fram að gengisbreyt. og 47 millj. vegna hennar. Samtals gengistap fram að gengisfellingu 1 milljarður 168 millj. kr., en vegna gengisbreyt. 1 milljarður 523 millj. kr. Lauslegir útreikningar sýna, að árlegar afborganir af samningsbundnum skuldum erlendis vegna skipakaupa og breytinga muni verða um 1150–1200 millj. kr. næstu 3 árin, miðað við þá samninga, sem gerðir höfðu verið þegar gengisbreyt. var gerð 29. ágúst s.l.

Lagt er til, að 604 millj. kr. verði ráðstafað úr gengishagnaðarsjóði til að bæta gengistapið. Þar af verði 200 millj. kr. greiddar inn á hina sérstöku reikninga hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, en þær 400 millj. kr., sem lagt er til að verði lánaðar til sjávarútvegsins, fari við endurgreiðslu inn á þessa sérstöku reikninga sem áður greinir.

Lagt er til, að við skiptingu fjárhæðar milli einstakra skipa verði miðað við hlutfallstölu hverrar skuldar af heildarskuldinni eins og hún var 29. ágúst s.l. Í þeim tilvikum þegar útgerðir hafa samið um smíði erlendis fyrir 29. ágúst s.l., en ekki greitt að fullu þau 20% kaupverðsins, sem greiða skal á smiðatímanum, skulu gengisbætur vegna þessa hluta kaupverðsins greiddar strax út ef útgerðin hefur nú þegar staðið skil á fjárhæðinni eða hluta hennar, annars um leið og viðkomandi yfirfærsla á sér stað.

Í 2. málsgr. a-liðar 9. gr. er fjallað um að 400 millj. kr. verði lánaðar til sjávarútvegsins til skamms tíma til að bæta lausafjárstöðu hans. Gert er ráð fyrir að við endurgreiðslu renni þessi fjárhæð til Stofnfjársjóðs fiskiskipa og inn á hina sérstöku reikninga þeirra skipa sem erlend lán hvíla á og greint var frá hér að framan. Fram fer könnun á fjárhagsstöðu veiða og vinnslu og liggur ljóst fyrir að fyrirtæki geta ekki vænst fyrrgreindrar fyrirgreiðslu nema þau hafi skilað viðskiptabönkum sínum reikningsuppgjöri sem krafist er vegna könnunarinnar. Nauðsynlegt er að leggja ríka áherslu á, einnig vegna b- og c-liðar þessarar gr., að til þess að viðkomandi aðilar geti vænst fyrirgreiðslu úr gengishagnaðarsjóði er það skilyrði sett að þeir skili reikningsuppgjöri til viðskiptabanka og/eða fullnægjandi skýrslum til Aflatryggingasjóðs.

Í b-lið 3. brtt. á þskj. 190 er fjallað um óafturkræft framlag til bátaflotans vegna rekstrarerfiðleika á árinu 1974, frá ársbyrjun og til 15. sept. s.l., tvö tryggingartímabil, frá 1. jan. til 15. maí og frá 15. maí, sumarvertíðin, til 15. sept. Lagt er til, að 254 millj. kr. af gengishagnaðarsjóði verði ráðstafað nú þegar sem óafturkræfu framlagi til bátaflotans vegna rekstrarerfiðleika sem skapast hafa á þessu ári. Lagt er til, að ákveðnum aðila, t.d. Aflatryggingasjóði, verði falið að annast þessar greiðslur eftir ákvörðun rn. í hverju einstöku tilfelli og geti rn. ákveðið, ef það telur þess þörf, að einstakar greiðslur fari beint til lánardrottna einstakra útgerða. Sjútvrn. vinnur nú að samningu reglna varðandi skiptingu þessarar fjárhæðar og er þar stuðst við upplýsingar frá Aflatryggingarsjóði um einstaka báta á tímabilinu frá 1. jan. til 15. sept. í ár. Úthlutunarreglur fjárhæðarinnar verði þessar: 100 millj. kr. verði skipt eftir úthaldsdögum einvörðungu, og er í þessu atriði gengið alveg sérstaklega til móts við óskir Landssambands ísl. útvegsmanna og aðalfundar þess, sem setti fram eindregna kröfu um að skiptingin á þessum 250 millj. yrði jöfn að því leyti að það yrðu 125 miðað við úthaldsdaga einvörðungu og 125 eftir hinni reglunni sem ég vík nú að, en hún er sú að 150 millj. kr. eða 60% af þessari fjárhæð verði skipt þannig, að tekið verði tillit til úthaldsdaga, áhafnarfjölda, aflamagns og þeirra lágmarkstekna sem skip þarf að hafa til að geta greitt kauptryggingu. Gert er ráð fyrir að fyrir hvern stærðarflokk báta, miðað við hin ýmsu veiðarfæri, verði greidd sem hámark ákveðin hundraðstala af kostnaði á úthaldsdag, þannig að bátar, sem aflað hafa sæmilega eða vel, fái ýmist lægri greiðslur en þeir, sem hafa aflað illa, eða engar. Þetta er eftir seinni aðferðinni. Til jöfnunar til einstakra báta eru bætur Aflatryggingasjóðs dregnar frá útreiknaðri fyrirgreiðslufjárhæð til einstakra skipa. Hluta fyrrgreindra 250 millj. kr. er ætlað að renna til þeirra útgerða og mundi þá í þessu tilfelli takast af báðum þáttum og þá í þeim hlutföllum sem fjárhæðinni allri er skipt í til þeirra útgerða, sem orðið hafa fyrir óhöppum á þessu tímabili, og yrði hvert einstakt tilfelli rannsakað og metið sérstaklega. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að hér mun vera um tiltölulega afar fá tilfelli að tefla, þannig að þetta ríður engan baggamun í sambandi við heildarfjármagnið. Gert er ráð fyrir aðallega að ákvæðin skuli ná til báta niður að 24 smálestum að stærð og miðað sé við 40 lestir sem lágmarksafla á hvoru veiðitímabili um sig. Er þó ákveðið að mela sérstaklega ástæður minni báta allt niður í 12 smálestir og gera þeim einnig skil eftir því sem sanngjarnt verður talið.

Í c-lið 3. brtt. á þskj. 190 er fjallað um óafturkræft framlag til skuttogara til að bæta rekstrarafkomu þeirra. Nú þegar hafa 142 millj. kr. verið fengnar að láni úr gengishagnaðarsjóði frá 1972 til að bæta rekstrarafkomu skuttogara á þessu ári og var við ákvörðun bóta miðað við úthaldsdaga skipanna fyrstu 6 mán. ársins. Lagt er til að tilsvarandi fyrirgreiðsla verði veitt fyrir síðari hluta ársins og yrði þá heildarframlagið um 230 millj. kr. Í dag eru komnir til landsins 17 skuttogarar af stærri gerð, þ.e.a.s. 500 brúttólestir eða meira, og 34 skuttogarar af minni gerð, undir 500 brúttósmálestum. Stærri skuttogarar hafa fengið bætur úr Aflatryggingasjóði en sjóðurinn hefur ekki verið bótaskyldur gagnvart minni skuttogurunum, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Í d-lið 9. gr. er till. um greiðslur til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til greiðslu verðbóta vegna fiskmjöls, annars en loðnumjöls, eins og þar segir.

Miklir rekstrarerfiðleikar hafa skapast á þessu ári hjá fiskmjölsverksmiðjunum vegna vinnslu fiskmjöls, þar sem þessir aðilar eiga ekki aðild að Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og fá þar af leiðandi engar bætur frá honum vegna þess verðfalls sem orðið hefur á þessu ári. Lagt er til. að 50 millj. kr. af gengishagnaðarsjóði verði ráðstafað sem óafturkræfu framlagi til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til greiðslu verðbóta vegna fiskmjöls sem framleitt var á tímabilinu frá 1. jan. til 31 ágúst 1974, enda komi fiskmjöl inn í deild fyrir afurðir síldar og fiskmjölsverksmiðja.

Í c-lið 3. brtt. við 9. gr. frv. er tillaga um að verja 15 millj. kr. til að verðbæta lífeyrisgreiðslur aldraðra sjómanna. Verða þær verðbætur greiddar skv. nánari ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðs sjómanna.

Í f-lið er fjallað um 11 millj. kr. framlag til orlofsheimila sjómannasamtakanna. Lagt er til að sjútvrh. ráðstafi því fé að fengnum till. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands.

Varðandi þessa tvo liði, e- og f- lið, hafði hv. 8. þm. Reykv. (PS) forgöngu um það mál við góðar undirtektir hæstv. sjútvrh. og er báðum mikil sæmd af.

Áætlað er að skv. fyrrgreindum greiðslum, sem ég nú hef rakið, mundu eftirstöðvar gengishagnaðar verða um 75 millj. kr., — ég vil þó leggja áherslu á að allt eru þetta áætlunartölur, — sem ráðstafað yrði skv. till. í g-lið, að því viðbættu að haft verði samráð við formenn sjútvn. beggja deilda Alþ. um ráðstöfunina þegar þar að kemur og nm. þannig gefinn kostur á að fylgjast með málinu.

Síðan er í till., eins og 9. gr. kemur til með að hljóða, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að rn. kveði nánar á um framkvæmd 9. gr. með reglugerð.

Áður hefur verið vikið að nýju ákv. til brb., þar sem lagt er til að heimilt sé að endurgreiða útflutningsgjald af saltsíld og saltsíldarflökum sem framleidd eru á árinu 1974. Ekki eru tök á að taka dýpra í árinni nú, en málefni síldarútflutnings verða væntanlega tekin til frekari athugunar svo fljótt sem kostur er. Fyrir því er aðeins gert ráð fyrir heimild til endurgreiðslu á þessu vegna framleiðslunnar á árinu 1974 því að ekki vannst nægur tími til þess að athuga þetta mál eins og þörf virðist vera á.

Ég vil svo aðeins að lokum geta þess, að sá framkvæmdarammi, sér í lagi við 9. gr. frv., sem ég hef hér skýrt, er sá sem samkomulag hefur náðst um milli meiri hl. sjútvn. hv. d. og sjútvrn.