18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur glöggt í ljós hér á Alþ. síðustu þingdagana virðist talsvert mikill óróleiki ríkja meðal þm. stjórnarliðsins. Það er ekki aðeins að þeir deili nokkuð fast á sína eigin flokksmenn í ráðherrasætum, eins og gerðist hér í d. í gærkvöld, heldur virðist einnig vera ákaflega erfitt fyrir hæstv. ráðh. að fá þm. stjórnarliðsins til þess að fylgja sér í þeim málum sem þeir leggja áherslu á. Það hefur m.a. glöggt komið í ljós í sambandi við afgreiðslu og meðferð á frv. því sem hér er til umr., frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegi o.s.frv. Hér er um að ræða 4. mál þessarar hv. d. sem fyrst er að koma til 2. umr. hér í dag. Ástæðan fyrir þessum drætti er ekki sú, að við stjórnarandstæðingar höfum tafið málið í meðförum n., enda hafa, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson tók fram, aðeins verið haldnir fjórir fundir í sjútvn. Nd. um þetta mál. Ástæðan er sú, að svo mikið ósamkomulag hefur verið í stjórnarliðinu um þetta mál, að þeir stjórnarsinnar hafa þurft að halda með sér fjölmarga fundi til þess að reyna að jafna þennan ágreining sinn. Þar hefur oft verið hart deilt og jafnvel skellt hurðum. Hefur þó loks tekist að fá þá stjórnarliða til þess að fallast á að standa með hæstv. sjútvrh. að afgreiðslu þessa máls. Seinna mátti það vart vera ef átti að ljúka afgreiðslu þess fyrir jólafrí.

Hins vegar hefur staðið á upplýsingum til okkar stjórnarandstæðinga sem myndum minni hl. sjútvn. Nd. Til dæmis að nefna fengum við ekki fyrr en í gær og svo raunar ekki fyrr en kl. 8 í morgun að vita nákvæmlega um þær breytingar sem stjórnarliðar hygðust gera á þessu máli. Okkur var síðan ætlaður tími frá því að fundi í sjútvn. lauk í morgun á tíunda tímanum og fram undir hádegi að ljúka við að ganga frá nál. okkar, og brtt., eftir að hafa aðeins nokkrum klukkustundum áður fengið að heyra hvernig stjórnarliðar ætluðu sér að afgr. þetta mál. Mér er ljóst að brýna nauðsyn ber til þess að frv. um þessi mál verði samþ. hér á Alþ. áður en þingið fer í jólafrí. Það hefur dregist úr hófi fram að vinna að þessu máli. Það er ekki sök stjórnarandstöðunnar. Ástæðan er sú, að það hefur verið ágreiningur í hópi stjórnarliða, mjög mikill ágreiningur sem erfitt hefur verið að jafna. Þeir hafa sjálfsagt fengið á tilsettum tíma þær upplýsingar sem við fengum ekki fyrr en í morgun, en sem sagt, drátturinn á afgreiðslu er ekki okkar sök, hann er af þeirra völdum.

Eins og tekið er fram í nál. okkar hv. þm. Garðars Sigurðssonar, sem skipum minni hl. sjútvn., er í þessu frv. um tvíþætt markmið að ræða. Annars vegar fjallar frv. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna afkomuerfiðleika og hins vegar fjallar frv. um ráðstöfun gengishagnaðar. Ég ætla að fara fyrst nokkrum orðum um fyrra atriðið, þ.e.a.s. ráðstafanir í sjávarútvegi vegna afkomuerfiðleika. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er rétt og satt, sem tekið hefur verið fram m.a. af núv. stjórnarflokkum, að sjávarútvegurinn átti við mikla erfiðleika að etja á s.l. ári og á enn. En ekki varð til að bæta úr skák, a.m.k. ekki hjá skuttogaraflotanum, sú gengisfelling sem gerð var af hæstv. ríkisstj. nú í sumar. Eins og fram hefur hér komið varð þessi gengisfelling til þess að mynda gengistap hjá sjávarútveginum, þ.e.a.s. hjá bátaflotanum og togurum, upp á 11/2 milljarð kr. eftir því sem fram kemur í grg. sem sjútvrn. hefur sent okkur nm. Fyrstu ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum urðu síður en svo til þess að bæta hag sjávarútvegsins. Þær voru til þess fallnar að rýra hann enn meir en verið hafði. Síðan var lagt fram það frv., sem hér er til umr., eða raunar áður sett brbl. sem óskað er eftir staðfestingu á, þar sem vandinn er leystur með þeim hætti að færa til gríðarlega fjármuni innan þessarar einu atvinnugreinar, færa til gríðarmikla fjármuni frá launþegunum í þessum atvinnurekstri og yfir til fyrirtækjanna. Það er eina lausnin sem hæstv. ríkisstj. sér, enda lausn í anda hennar að taka það sem vantar frá launþegunum og færa það yfir til atvinnufyrirtækjanna. Þetta er lausn hægri stjórnar, þetta er lausn þeirrar stjórnar sem nú situr við völd í landinu.

Ef víð vikjum að einstökum gr. í þessu frv., þá berum við fyrst niður í 1. gr., þar sem segir svo, að Verðlagsráð sjávarútvegsins skuli eins skjótt og við verður komið o.s.frv. ákveða nýtt lágmarksverð á öllum tegundum sjávarafla, og ákveðið, að þess skuli gætt að hækkun almenns fiskverðs verði að meðaltali ekki meiri en 11% frá því verði sem í gildi var þegar þessi brbl. voru sett. Þegar þessum brbl, er fleygt fram standa mál þannig, að í Verðlagsráði sjávarútvegsins er verið að reyna að semja í frjálsum samningum aðila um hækkun á fiskverði. Þá hafði engin hækkun fiskverðs fengist fram frá áramótunum þar áður, þ.e.a.s. sjómenn voru þá eina launastéttin í landinu, sem engar hækkanir hafði fengið á sínum launum til samræmis við launahækkanir annarra launastétta. Áður en útséð er um það, hvort þessir frjálsu samningar geti tekist, áður en nokkur vísbending er komin fram um það, að þeir muni ekki geta tekist, þá grípur ríkisstj. inn í málið með því að setja brbl. sem fyrirskipa hvernig málíð skuli leyst.

Ég sagði við 1. umr. í þessari hv. d. að hér væri verið að gefa hættulegt fordæmi. Ég sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem ríkisstj. hefði gripið inn í störf Verðlagsráðs, á meðan Verðlagsráð var að fjalla um fiskverðshækkun, og sett brbl. þess eðlis að taka það vald, sem Verðlagsráði er falið, úr höndum þess. Hér er um hættulegt fordæmi að ræða. Hér er um það fordæmi að ræða, að aðilar vinnumarkaðarins geta búist við því af núv. hæstv. ríkisstj., að þegar þeir eru að fjalla um sín samningamál í frjálsum kjarasamningum, þá grípi hún inn í í miðjum klíðum að nauðsynja- og þarfalausu, skelli á brbl. sem fyrirskipi að svona skuli samið, sem fyrirskipi að frjáls samningsréttur skuli af verkalýðsfélögunum tekinn.

Ég lýsti því við 1, umr. þessa máls, hver afstaða sjómannasamtakanna væri til þessara aðgerða, og ég ætla ekki að endurtaka það hér að öðru leyti en því, að ég ætla að minna á að sjómannasamtökin, bæði einstök félög og landssamtök þeirra, hafa harðlega mótmælt þessu gerræði hægri stjórnarinnar. En það eru ekki þeir einir sem hafa mótmælt. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur einnig mótmælt þessum afskiptum. Það segir svo í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi mótmælir stjórn samtakanna lögbindingu fiskverðs. Fiskverð hefur aðeins einu sinni áður verið ákveðið með lögum, þ.e. fyrr á þessu ári, þegar fiskverð var framlengt óbreytt frá 1. júní. Einnig bendir stjórn samtakanna á að eftir 8 mánaða óbreytt fiskverð nægir 11% hámarkshækkun engan veginn til þess að skapa útgerðinni viðunandi rekstrargrundvöll.“

Hæstv. sjútvrh. sagði við 1. umr. hér á Alþ., að hann gleddist yfir því að það væru allir óánægðir með þessar ráðstafanir hans. Það var markmiðið að gera alla óánægða. Það var markmiðið að gera sjómannasamtökin óánægð. Það tókst. Það var markmiðið að gera Landssamband ísl. útvegsmanna óánægt, það tókst líka. Þannig var tilgangi hæstv. ráðh. að fullu náð.

Í 2. gr. og 3. gr. er lagt til að staðfest verði sú ráðstöfun hæstv. ráðh. sem fram kom í brbl., að hlutur, sem tekinn er af óskiptum afla og ráðstafað er í þágu útvegsins, skuli hækka verulega. Með þessu móti er enn höggvið í sama knérunninn, enn ráðist að samningum sjómannastéttarinnar, launakjörum sjómanna og lífsafkomu. Hæstv. ráðh. hefur haldið því fram, að með þessu móti hafi ekki verið haggað við frjálsum samningum sjómannastéttarinnar. Það má rétt vera. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. vikið sér undan að svara spurningum um það, hvort hana teldi að þetta ákvæði væri ekki til þess fallið að rýra kjör sjómannastéttarinnar. Það er verið að afla tekna í Stofnfjársjóð fiskiskipa, sem á að koma atvinnurekendum í útgerðinni til góða. Þær tekjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Þær tekjur hljóta einhvers staðar að koma, til einhverra eru þær sóttar. Og hvert eru þær sóttar? Þær eru sóttar til launþeganna í útveginum, til sjómannanna. Það eru þeir sem eru látnir borga.

Hæstv. núv. sjútvrh. tilheyrir flokki sem segist virða eignarrétt manna umfram flest annað. Hér er um það að ræða, að það er verið að taka réttmæta eign með brbl. af sjómönnum. Hvað er þeim fengið í staðinn? Ekki nokkur skapaður hlutur, ekki neitt. Þarna er raunverulega um eignarnám að ræða án bóta. Þetta kemur fram hjá flokki, sem þykist og segist vera helsti stuðningsmaður eignarréttarins í landinu. Það væri kannske ekki óeðlilegt að sjómenn, sem verða þarna að borga stórfé til fiskiskipaflotans, til útvegsmanna, til fjárfestingarsjóða útvegsmanna, gætu í staðinn gert tilkall til þess að fá einhvern eignarrétt á móti yfir þeim skipum, sem ætlast er til að njóti góðs af þeirra framlagi.

Í 4. gr. er enn höggvið í sama knérunn. Þar er rætt um hvernig eigi að standa undir hinum miklu olíuverðshækkunum sem orðið hafa undanfarið. Og hverjir eru látnir borga? Hver er aðstoðin við útveginn, sem verður að taka á sig mjög auknar greiðslubyrgðar? Hún er engin. Utanaðkomandi aðstoð til útvegsins er engin. Þar er aðeins millifært fé frá einni hendi yfir til annarrar, og það sem meira er, samkv. þessum reglum, sem settar eru í 4. gr., er ætlast til þess að sjómennirnir sjálfir taki ákveðinn hluta af þessum greiðslum yfir á sig, vegna þess að ef ákvæði 4. gr. hefðu ekki verið sett, hefði verið möguleiki til þess að hækka fiskverðið, þess hefðu sjómenn notið, þ.e.a.s. þegar sá möguleiki er af þeim tekinn, þá er beinlínis verið að skerða þeirra hlut, verið að skylda þá til þess að standa undir verðhækkun til Olíusjóðs fiskiskipa.

Ég tók það fram við 1. umr. þessa máls, að ég teldi mjög varasamt, eins og nú væri komið málum, að hafa hærra útflutningsgjald á útfluttum saltfiski og skreið en af öðrum sjávarafurðum. Ég lýsti því þá yfir, að ég viðurkenndi það vissulega, enda væri það rétt, að þessar tvær vinnslugreinar hefðu skilað og sýnt betri afkomu en aðrar vinnslugreinar sjávarútvegsins. Ég vitnaði til frétta sem borist hafa nýlega, þar sem sagt er eftir könnun, sem gerð hefur verið þar um, að horfurnar í sölumálum þessara tveggja vinnslugreina séu nú mjög slæmar. Sérstök nefnd manna fór til Suður-Ameríku til þess að kanna sölumál þessara greina. Þar kom í ljós að verðfall hafði þegar orðið á þessum afurðum. Ýmsir helstu keppinautar okkar, eins og norðmenn, voru farnir að undirbjóða hver annan, þannig að markaður okkar þar var í hættu. Ég taldi þetta hættulega þróun, sem væri að gerast, og varaði við því að þetta yrði látið haldast óbreytt, b-liðurinn í 4. gr. Hæstv. sjútvrh. svaraði mér þá á þá leið, að þetta væri til vitnis um, hversu lítið ég væri heima í málefnum sjávarútvegsins.

Okkur í sjútvn. Nd. barst umsögn frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, þar sem einmitt er tekin sams konar afstaða og varað við sömu þróun og ég gerði í ræðu minni við 1. umr. þessa máls. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á fundi stjórnar SÍF í gær var samþ. einróma að mótmæla eindregið ákvæðum brbl. frá 20. sept. 1974 um sérstök útflutningsgjöld, þar sem fisksaltendum er gert að greiða 1.5% hærra gjald af saltfiski en greitt er af öðrum sjávarafurðum að undantekinni skreið. Þó að framleiðsla saltfisks sé um stundarsakir hagstæðari en frysting, er augljóst að sækja mun í sama horf með saltfisk eins og aðrar sjávarafurðir. Það er því óeðlilegt að leggja hærra útflutningsgjald á þessa vöru en aðrar sjávarafurðir.“ — (Gripið fram í.) Það var ekki bara ég sem við 1. umr. þessa máls var að flagga með einhverjar staðreyndir úr lausu lofti gripnar til þess að koma upp um ókunnugleika minn í málefnum útvegsins. Það sýndi sig, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda var á sömu skoðun og ég um það, að þarna væru varasamar aðgerðir á ferðinni. (Gripið fram í.)

Ég tek það fram, eins og kemur fram í nál. og brtt. okkar minnihlutamanna, að við leggjum til að 1., 2., 3., og 4. gr. falli niður. Ég vil koma þeirri ábendingu á framfæri við meiri hl., að takist honum að koma í veg fyrir að þessar brtt. okkar verði samþ., þá held ég að væri rétt fyrir hann að setja viðbótarákvæði í b-lið 4. gr. þess efnis eða eitthvað á þá lund, að ef í ljós komi að söluhorfur varðandi saltfisk og skreið fari versnandi eða verðlag lækkandi, þá fái sjútvrn. heimild til þess að lækka útflutningsgjaldið af fob.- verði útflutts saltfisks og skreiðar niður í 4%. Þessa heimild tel ég að þeir meirihlutamenn ættu að taka til athugunar og ræða þá væntanlega við hæstv. sjútvrh. um hvort ekki væri rétt að setja það inn í frv.

Þetta eru þær fjórar gr. frv., sem aðallega lúta að því að færa til tekjur frá launþegunum í atvinnuveginum og yfir til atvinnurekenda. Það er dálitið skemmtilegt til þess að vita, að hv. frsm. meiri hl. sjútvn., hv. þm. Sverrir Hermannsson, var valinn til þess á sjómannadegi í vor að halda ræðu. Ræða þessi var birt í Morgunblaðinu skömmu siðar og gerð góð og rækileg skil. Þá var birt góð mynd af hv. þm. og fimm dálka fyrirsögn, svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Rekstrargrundvöllur togara verður ekki bættur með því að rýra kjör sjómanna,“ segir Sverrir Hermannsson á sjómannadaginn.

Ég ætla að leyfa mér að vitna áfram í þessa ágætu ræðu hv. frsm. meiri hl., þar sem hann ræðir þetta mál nokkuð nánar. Eftir að hann hefur fjallað um slæma afkomu í sjávarútvegi, þá segir hann svo, með leyfi forseta:

„Nú er svo komið, að heldur við algjörri stöðvun þessara mikilvægu atvinnutækja, og öll er afkoma sjávarútvegs og iðnaðar hans í bráðri hættu. Úrbætur þola enga bið. Hvað er þá til ráða, spyrja menn, fyrst svo er komið fyrir afkomu sjávarútvegsins sem raun ber vitni um? Svarið er: Gerbreytt stefna í ríkisfjármálunum og efnahagsmálum öllum, og mun þá útvegurinn í landinu rétta hlut sinn á auga lifandi bragði.“

Ekki var nú mikill vandinn í vor. Síðan heldur hv. þm. áfram og segir:

„Þær raddir hafa heyrst, að ill afkoma skuttogaraútgerðarinnar til dæmis stafi af of góðum kjörum skipverja. Ég vara við slíkum hugsunarhætti. Rekstrargrundvöllur togaraútgerðarinnar verður ekki fundinn með því að rýra kjör sjómanna. Spurningin er aðeins sú, hvort kjör skipverjanna séu í dag nógu góð, svo að óhætt sé að reikna með því að þau geti haldist litið breytt. Önnur afstaða í leit að rekstrargrundvelli er ósanngjörn og mundi enda leiða til ófarnaðar, og þannig hygg ég að hátti til um allar greinar útgerðar.“

Þetta var falleg og þekkileg ræða hjá hv. frsm. meiri hl. sjútvn., sem nú leggur til að Alþ. staðfesti brbl. frá hæstv. sjútvrh. sem hafa það að megininntaki að rýra mjög verulega kjör sjómanna. Eitthvað hefur orðið þess valdandi að hv. þm. hefur snúist hugur frá því í vor. Ég skal ekki fullyrða um hvað það hefur verið, en hans samvisku vegna vil ég mega vona að hann hafi verið í hópi þeirra þm. stjórnarliða sem skelltu nokkrum sinnum hurðum á meðan þeir stjórnarþm. voru að ræða þessi mál í sinum hópi og gátu ekki náð samstöðu eða samkomulagi.

Um 5. gr. í frv. þessu höfum við í minni hl. n. engar sérstakar aths. að gera né heldur varðandi þá viðbótartill. eða brtt., sem meiri hl. n. gerir varðandi þessa gr. Við höfum heldur engar aths. að gera varðandi 6., 7. og 8. gr., nema hvað ég vil láta það koma fram, að við teljum í sambandi við 6. gr. að tímabært sé og full ástæða til þess að taka vátryggingamál fiskiskipanna til sérstakrar endurskoðunar, og mun ég ekki fjalla frekar um það mál að þessu sinni.

Hitt meginatriði þessa frv. felst í 9. gr. um ráðstöfun gengishagnaðarins. Gengishagnaðurinn er áætlaður vera 1650 millj. kr., þar af koma til úthlutunar samkv. þessari gr. um 1250 millj. kr. Það var ekki fyrr en eftir nokkurn eftirrekstur, sem við minnihlutamenn í sjútvn. fengum að sjá till. um hvernig þessum gengishagnaði skyldi skipt, og það var ekki fyrr en í morgun kl. 8 sem við vissum endanlega hvernig meiri hl. hefði hugsað sér að breyta upphaflegum hugmyndum sjútvrn. Við höfðum því ekki mikinn tíma til þess að taka afstöðu til þessarar brtt., en flytjum þó sjálfir brtt. á þskj. 194 varðandi 9. gr. Í a-lið 9. gr. gerir meiri hl. sjútvn. þá till., að hún orðist svo: „Til þess að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa 600 millj. kr. Sjútvrn. er heimilt að ráðstafa allt að 400 millj. kr. af þessari fjárveitingu til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til þess að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja.“

Það er ekki ágreiningur um upphæðina varðandi þennan a-lið. Í okkar till er lagt til, að hér verði varið af gengishagnaðarsjóðnum 600 millj. kr. Hins vegar teljum við mjög óeðlilegt og varhugavert, að sjútvrn. fái heimild til þess að ráðstafa 2/3 hlutum þessarar fjárhæðar, án þess að fram sé tekið í lögum hvernig á að nota þá heimild og eftir hvaða reglum á að fara. Það er mín skoðun, að ekki sé æskilegt að pólitískir aðilar eins og ráðh. sjái um úthlutun á fjármagni eins og hér um ræðir. Það er æskilegra fyrir þá og það er æskilegra fyrir alla aðila, að þetta verk sé í höndum opinberrar stofnunar, sem eðlilegt er og sjálfsagt að hafi það mál með höndum. Einmitt þess vegna gerum við till. um það í minni hl. n., að ekki sjútvrh., heldur Fiskveiðasjóði verði heimilt að ráðstafa — ekki 400 millj. kr. af þessum 600 millj., heldur 300 millj., skv. reglugerð, er Fiskveiðasjóður sjálfur setur en ráðh. staðfestir. Okkur finnst þetta vera eðlilegur framgangsmáti. Okkur finnst þetta vera eðlilegt greiðslufyrirkomulag. Ég held, að það sé ekki æskilegt, hvorki út frá sjónarmiði hæstv. sjútvrh. né út frá sjónarmiði þeirra sem þessarar fyrirgreiðslu eiga að njóta, að hér sé um pólitíska úthlutun að ræða, eins og alltaf hlýtur að verða ef pólitískur ráðh. á að hafa yfirumsjón með úthlutuninni án þess að honum séu settar í lögum nokkrar sérstakar reglur um það, hvernig með skuli fara.

Sumir hv. þm. hafa kallað þær 400 millj. kr., sem brtt. meiri hl. n. fjalla um að ráðh. fái til ráðstöfunar, jólagjöf þingsins til hæstv. sjútvrh. Ég er ansi hræddur um að sú jólagjöf geti reynst honum harla þung í skauti, þegar að því kemur að hann þarf að fara að framkvæma úthlutunina og farið verður að sækja að honum úr ýmsum áttum og þó sérstaklega úr einni átt um það, hvernig eigi að ráðstafa þessu fé. Það er eðlilegra og sjálfsagðara að Fiskveiðasjóður hafi þessar lánveitingar með höndum, — það er eðlilegra og sjálfsagðara að hann hafi það heldur en pólitískur ráðh.

Um b-lið í brtt. meiri hl. n. segir svo, að óafturkræft framlag til bátaflotans vegna rekstrarörðugleika á árinu 1974 fram til 15. sept. eigi að vera 250 millj. kr. Það er ekki heldur ágreiningur milli meiri hl. í n. og minni hl. um upphæð þessa framlags. Við viljum einfaldlega ganga hreint til verks og kalla óafturkræft framlag styrk. Hér er um styrk að ræða og þetta skal heita styrkur, við skulum ekki vera að fela það, hvorki fyrir sjálfum okkur né öðrum. Hins vegar viljum við, að það verði bundið í lögum, hvernig þessari styrkupphæð eigi að verða skipt. Við teljum, að þegar Alþ. fjallar um svo stór framlög sem hér um ræðir, þá eigi það í lögum að lýsa yfir vilja sinum um það, hvernig með skuli fara. Þess vegna leggjum víð til. að það verði bundið í lögum að styrkupphæðinni verði skipt þannig, að 40% hennar verði ráðstafað einvörðungu með tilliti til mannúthaldsdaga og 60% miðað við reglur er Aflatryggingasjóður setur. Ég tel að hér sé um að ræða reglur, sem sjútvrn. muni ætla að fara eftir í raun og Landssamband ísl. útvegsmanna geti að sínu leyti samþ. Hins vegar tel ég nauðsynlegt og við í minni hl. n., að þarna liggi ekki aðeins fyrir yfirlýsing ráðh. um hans vilja og hans ætlan, heldur sé Alþ. skylt að binda þetta í lög, eins og við gerum till. um. Einnig tökum við það sérstaklega fram í till. okkar um hvernig b-liður skuli orðast, að við viljum að allir fiskibátar án tillits til stærðar skuli hljóta styrk samkv. ákvæðum þessa stafliðs, það séu ekki útilokaðir smærri bátarnir, sem eins og fram hefur komið eru mjög viða um land ríkasti þátturinn í sjósókn, útgerð og skila hvað mestum afla. Það eru margir smáir staðir úti um landið, sem byggja fyrst og fremst á útgerð smárra báta, undir 20 tonna, og mér finnst það fyrir neðan allar hellur, ef á að ganga fram hjá þessum bátum varðandi ráðstöfun gengishagnaðar eða láta þá sæta öðrum reglum en aðra. Einnig tökum við það sérstaklega fram í b-lið, minnihlutamenn, sem stöndum að flutningi brtt. á þskj. 194, að við viljum að kaupgreiðslur til sjómanna hafi forgang, þegar kemur að því að borga út styrk til bátaflotans, eins og þar er gerð till. um.

Það þarf að sjálfsögðu ekki að fara mörgum orðum um þessa kröfu okkar, hún er sjálfsögð. Kaupgreiðslur til manna eiga að hafa forgang undir öllum kringumstæðum hvar sem er, og þegar ríkissjóður eða Alþ. réttara sagt er að staðfesta lög um hvernig ráðstafa skuli gengishagnaði til styrks við útgerð og útgerðarmenn, þá finnst mér og okkur að Alþ. eigi að taka það skýrt fram, að fyrst eigi þessir styrkir að ganga til þess að greiða mönnunum sitt kaup sem þeir kunna að eiga ógreitt. Þá fyrst má fara að gera upp við banka og aðrar lánastofnanir, þegar mannskapurinn hefur fengið sitt.

Í e-lið er ekki um efnislegan mismun að ræða á till. okkar minni hl. n. og till. meiri hl. n. Það er aðeins sagt í okkar till. skýrt og skorinort að styrkurinn til skuttogaranna, sem verði 230 millj. kr., miðist við fjölda úthaldsdaga.

Hvað varðar d-liðinn í brtt. meiri hl. n. á þskj. 190 um greiðslur að upphæð 50 millj. kr. til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til greiðslu verðbóta vegna fiskmjöls annars en loðnumjöls er það að segja, að við í minni hl. n. teljum með öllu ástæðulaust að út í þetta sé farið. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fiskmjölsframleiðendur hafa sýnt eða geta sýnt mjög góða afkomu til þessa árs. Þeir hafa ekki barist í bökkum fram á þetta árið a.m.k. eins og margir aðrir aðilar í útgerð og fiskvinnslu. Það er ekki fyrr en fyrst nú á þessu ári, sem þeir þurfa að taka á sig verulegan skell. Okkur finnst því eðlilegt að ætlast til þess, að þeir hafi haldið einhverju eftir til magra ársins sem þeir fengu á hinum mörgu feitu, svo að ekki sé farið að verja hluta af gengishagnaði til þess að verðbæta þeim tímabundið áfall. Það má vel vera, að það sé rétt að taka fiskmjölið inn í Verðjöfnunarsjóð til verðbóta. En hefði ekki mátt gera það fyrr? Hvers vegna kom ekki krafa eða ósk fram um það á meðan atvinnuvegurinn stóð sig vel. Það er fyrst núna, þegar fer að halla undir fæti fyrir honum, þegar hann má eiga von á peningum, sem hann óskar eftir að fá aðild að sjóðnum. Hann vildi ekki greiða í sjóðinn meðan hann hafði aðstöðu til þess, en hins vegar tekur hann því með þökkum að honum sé greitt úr sjóðnum þegar hann fer að hafa rétt til þess.

Við leggjum sem sagt til, að þessi líður, d-liður í brtt. á þskj. 190 falli hreinlega niður. Og þá komum við að síðustu stafliðunum, e, f og g, sem fá þá stafaheitin d, e, f.

Það var sagt áðan að það hefði verið mikið afrek unnið þegar tekist hefði að fá til orlofshúsa sjómannasamtaka 11 millj. kr. og til að verðbæta lífeyrisgreiðslur aldraðra 15 millj. kr. Hér var um geysilega mikið afrek að ræða af hv. þm. Pétri Sigurðssyni og ekki minna afrek af hæstv. ráðh. að segja já. Ekki skal ég draga úr því, að það er sjálfsagt töluvert mikið afrek af hverjum sem er að fá ríkisstj. eins og þá sem nú situr að völdum á Íslandi til þess að fallast á að verja einhverju fé til þess að bæta sjómönnum upp þann tekjumissi, sem þeir hafa orðið fyrir. Það er talsvert afrek að fá það fram og fyrir það ber að þakka hv. þm. Pétri Sigurðssyni, enda kom þetta afrek öðrum hv. þm., Sverri Hermannssyni, mjög á óvart og taldi hann sérstaka ástæðu til þess að gleðjast í jólaönnunum yfir því, enda þekkir hann sjálfsagt best til hvers má vænta af núv. ríkisstj. og hvers ekki. Hins vegar gefur það auga leið, að 26 millj. kr. af 1650 millj. kr. gengishagnaði vegna gengisfellingar, 26 millj. af því til sjómanna er ekki stórfé.

Það má með réttu segja, að sjómenn eigi tilkall, eigi kröfu til þess að fá með einum eða öðrum hætti til sin hluta þessa gengishagnaðarsjóðs, vegna þess að í raun réttri eiga þeir hluta af honum. Það hefur verið sagt, m.a. á fundum í sjútvn., að það mætti halda því fram að sjómennirnir ættu eða gætu gert tilkall til 1/8 hluta af gengishagnaðarsjóðnum, sem er verulega miklu meiri fjárhæð en þeir hafa fengið með afrekum þeirra hv. þm. Péturs Sigurðssonar og hæstv. sjútvrh. Við teljum rétt í minni hl. sjútvn. að ganga nokkru lengra til móts við sjómannasamtökin en núv. ríkisstj. vill gera. Við leggjum til, að lífeyrissjóðir sjómanna fái 80 millj. kr. m.a. til að verðbæta lífeyrisgreiðslur til aldraðra sjómanna og ekkna skv. reglum er stjórnir sjóðanna setja. Hér er um að ræða fleiri en einn sjóð, vegna þess að sjómenn viða um land eru í blönduðum sjóðum og auðvitað eiga þeir að fá uppbætur eins og aðrir, eða réttara sagt aldraðir sjómenn og ekkjur, sem skv. þessum staflið eiga að fá bætur, eiga að njóta þess hvort heldur þau eru í blönduðum lífeyrissjóðum eða ekki.

Auk þess leggjum við til í e-lið, að 20 millj. kr. verði ráðstafað til sjómannasamtakanna til byggingar orlofshúsa og vegna annarra félagsmála eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna. Hér er um 100 millj. kr. að ræða af gengishagnaði sem nemur 1650 millj. Er það ofætlun Alþ. að leyfa sjómönnunum að njóta 100 millj. kr. af 1650 millj. sem til ráðstöfunar eru? Þetta er mun minni upphæð en þeir eiga rétt og kröfu á að fá. Þetta er að vísu talsvert meiri upphæð en nemur afreki hv. þm. Péturs Sigurðssonar og hæstv. ráðh., en þetta er mun minni upphæð en við í stjórnarandstöðunni hefðum óskað og vonast eftir að geta fengið fram. En það, sem fyrir okkur vakir, er að reyna að fá þá ríkisstj., sem telur það afrek að afhenda sjómönnum 26 millj. kr. af 1650 millj., til þess að samþykkja nokkra hækkun þar á.

Að lokum leggjum við til að f-liður 9. gr. orðist svo:

„Eftirstöðvunum af gengishagnaðarsjóðnum verði ráðstafað með sérstökum lögum af Alþ. síðar, er nákvæmari upplýsingar liggja fyrir um stöðu sjávarútvegs og fiskvinnslu.“

Þeir meirihlutamenn leggja hins vegar til, að liðurinn orðist þannig, að þessar eftirstöðvar verði til ráðstöfunar skv. nánari ákvörðun sjútvrn. Sem sagt þeir leggja til í 1. staflið 9. gr., að hæstv. sjútvrh. verði afhentar í jólagjöf 400 millj. kr. til útbýtingar, og þeir leggja til í síðasta staflið þessarar gr., að honum verði afhent eitthvað á annað hundrað millj. kr. til útbýtingar sem nýársgjöf, þannig að vel er nú séð fyrir gjöfunum í 9. gr. Jafnóeðlilegt eins og okkur finnst að hæstv. sjútvrh. ráðstafi upp á eindæmi 400 millj. kr. til lánveitinga í sjávarútvegi, jafnóeðlilegt finnst okkur að hann ráðstafi upp á eindæmi þeim eftirstöðvum sem kunna að verða af gengishagnaðarsjóðnum. Það er rétt og satt, sem tekið hefur verið fram hér, að til þess að geta ráðstafað þessum eftirstöðvum verður í fyrsta lagi að sjá hverjar þær muni verða, það er talið að þær muni örugglega verða einhverjar, og í öðru lagi verða að fást nákvæmari upplýsingar um stöðu sjávarútvegs og fiskvinnslu en tiltækar eru í dag. Hins vegar er algjör óþarfi af Alþ., þó að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir, að afhenda sjútvrh. öll völd um það, hvernig með skuli farið. Alþ. getur ráðstafað þessu sjálft þegar upplýsingar liggja fyrir. Við erum hér til að ráðstafa fjármunum eins og þessum, og við eigum að gera það. Okkur ber hrein skylda til þess. Það er ekki æskilegt, eins og ég tók fram áðan, að pólitískir aðilar eins og ráðh. séu of mikið með puttana í lánveitingum og úthlutunum fjármuna út um hvippinn og hvappinn. Til þess eru aðrar stofnanir, sem vinna slík verk hér í þjóðfélaginu, miklu færari og miklu eðlilegra að til þeirra sé leitað í því sambandi.