18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Guðlaugur Gíslason:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið lengur til meðferðar hjá hv. sjútvn. en æskilegt hefði verið. Stafar það ekki af því að efnislegur ágreiningur hafi verið um málið, þar sem meiri hl. n. var alveg sammála um nauðsyn þeirra ráðstafana sem frv. gerir ráð fyrir til aðstoðar við sjávarútveginn, bátaflotann, togarana og fiskvinnsluna. Einnig var meiri hl. n. sammála um þær brtt., sem fluttar eru á þskj. 190, að því er varðar lagmetisiðnað, útflutningsgjald af saltsíld, framlögum til lífeyris- og byggingarsjóða sjómannasamtakanna o.fl. Hins vegar voru skiptar skoðanir um framkvæmd einstakra líða í brtt. meiri hl. n. og þá sérstaklega eftir hvaða reglum hið óafturkræfa 250 millj. kr. framlag til bátaflotans yrði greitt. Landsamband ísl. útvegsmanna hafði á fundi sínum, sem haldinn var á Akureyri dagana 27.–29. f.m., gert um þetta ályktun sem samþ. var samhljóða, en ályktun Landsambandsins hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur LÍÚ 1974 samþykkir í tilefni af ummælum sjútvrh. á fundinum um greiðslu bóta til bátaútvegsins að upphæð 250 millj. kr., að bæturnar verði að helmingi miðaðar við úthald og að helmingi við aflabrest.“

Ég og reyndar fleiri úr sjútvn. Alþ. höfum haldið fast við það á fundum n., að taka bæri verulegt tillit til óska heildarsamtaka útgerðarmanna hvað þetta atriði snertir. Okkur er alveg ljóst að hér er um mjög flókið og vandasamt mál að ræða og sennilega útilokað að finna lausn eða setja reglur sem allir aðilar gætu orðið sammála um. En við höldum því fram, að telja verði að samtök útgerðarinnar þekki allar aðstæður betur en nokkur annar aðili og tillaga þeirra sé líklegust til að komast sem næst því marki sem flestir viðkomandi aðilar gætu sætt sig við. En um þetta voru skiptar skoðanir í n., og fór nokkur tími í að jafna þann ágreining. Það endaði þó með því, eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., að tekið var að verulegu leyti tillit til tillagna LÍÚ, þar sem nú er lagt til að 100 millj. af 250 millj. kr. framlagi til bátaflotans verði greiddar miðað við úthaldsdaga, en afgangurinn, 150 millj., skiptist eftir reglum miðað við aflamagn. Einnig urðu í n. nokkrar umr. um, hvort veita ætti þær 600 millj. kr. skv. a-lið brtt. meiri hl. n. sem óafturkræft framlag eða sem lán með veði í víðkomandi skipum og þá vaxta- og afborganalaust um tiltekið árabil. Því er ekki að neita, að þetta er mjög mikið álitamál, þar sem liggur ljóst fyrir að vegna gengislækkunar verður um verulega verðmætaaukningu að ræða hjá eigendum umræddra skipa, auk þess sem byggingarkostnaður skipa hefur af öðrum ástæðum hækkað verulega síðan flest þau skip, sem hér eiga hlut að máli, voru byggð. En um þetta var engin ályktun gerð af meiri hl. sjútvn.

Ég mun nú, hæstv. forseti, ekki ræða efnislega meira um frv. að svo stöddu. Hins vegar tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að málefni sjávarútvegsins séu rædd í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir, bæði veiðarnar sjálfar og fjárhagsafkoma og fjárhagsaðstaða þeirra skipa sem veiðarnar stunda.

Í viðtali, sem hæstv. sjútvrh. átti við Morgunblaðið 14. þ. m., greinir hann frá því, að heildarafli á Íslandsmiðum, þ.e.a.s. afli, sem fenginn er bæði innan og utan 50 míIna markanna, hafi minnkað úr 820 þús. tonnum í 678 þús. tonn árið 1973 eða um rösklega 140 þús. tonn. Stafar þetta að nokkru leyti af minnkandi afla erlendra skipa eftir útfærslu landhelginnar, en þó enn frekar af minnkandi afla íslendinga þrátt fyrir stóraukna sókn með tilkomu hinna nýju togara sem keyptir hafa verið til landsins á undanförnum árum. Afli bátaflotans minnkaði á þessu árabili, þ.e. frá árinu 1970 til 1973, um rúmlega 100 þús. tonn, en aukinn afli togaraflotans náði hvergi nærri að bæta það upp, þar sem heildaraflinn var árið 1973 um 76 þús. tonnum lægri en hann var árið 1970. Verður ekki annað sagt en hér sé um mjög uggvænlega þróun að ræða og kannske enn uggvænlegri ef tekið er tillit þeirra aðferða sem nú er beitt við veiðarnar. Á ég þar við hina stórauknu sókn skuttogaranna, sem í allt of ríkum mæli byggja afkomu sína á smáfiskveiðum, sérstaklega hinir smærri togarar.

Í Morgunblaðinu s.l. sunnudag birtust svör allmargra aðila við spurningum blaðsins þess efnis, hvort smáfiskadráp íslendinga hafi aukist. Svörin voru mjög misjöfn sem vænta mátti og fóru sjáanlega nokkuð eftir því hvaða aðstöðu hver og einn var í, sem svaraði blaðinu þessari ákveðnu spurningu. Svar eins aðila vakti þó sérstaklega athygli mína, en það var svar Guðmundar Í. Guðmundssonar skipstjóra á Ljósafelli, en það er togskip af minni gerð skuttogaranna, en hann segir m.a. orðrétt, eftir því sem blaðið greinir frá, með leyfi forseta:

„T.d. núna í gærkvöld (þriðjudagskvöld 26. nóv.) voru yfir 30 bretar úti af Langanesinu. Ég tók þarna þrjú höl, og get ekki sagt að það hafi verið hægt að hirða neitt af því. Þetta var bara rusl. Við vorum þarna þrír íslendingar, Ljósafellið, Barði og Hólmatindur, og við fórum. Bretarnir og tveir færeyingar voru eftir, svo að þeir telja sig líklega geta nýtt þetta rusl. Þeir voru þarna vítt og breitt frá ? 6 mílum út í 33 mílur út af Langanesi.“

Svo sannarlega ætti þetta stutta viðtal við þennan skipstjóra að opna hv. alþm. sýn inn í það sem nú er að gerast á miðunum kringum Ísland, jafnframt innan sem utan 50 mílna markanna. Þetta svæði, sem hér um ræðir, svæðið út af Norðausturlandi, er af öllum sérfróðum mönnum, bæði innlendum og erlendum, talið vera helstu uppeldisstöðvar ungfisks hér við land. Þegar íslensk fiskiskip reyna veiðarnar þarna fá þau svo mikið rusl, þ.e.a.s. svo smáan fisk, að menn neyðast til þess að hætta veiðum, vegna þess að fiskurinn er neðan við þau stærðarmörk sem leyfilegt er að landa til vinnslu. En bretar og aðrir erlendir aðilar geta í fullum rétti skv. samningum við íslensk stjórnvöld stundað þarna vægðarlaust smáfiskadráp þann tíma sem svæðið er þeim opið. Samningarnir við breta heimila þeim veiðar á þessu svæði um 4 mánaða tímabil norðan Langaness og 8 mánaða tímabil út af Langanesi og sunnan þess. Þegar bretar eru búnir að fylla skip sín, kannske með 150 tonnum af þessum smáfiski, sem íslenskir skipstjórnarmenn kalla rusl. er óhætt að fimm- til tifalda þá tölu ef bera á hana saman við tonnafjölda fullþroska eða fullvaxins fisks, ef gengið er út frá sömu fiskatölu. Þetta merkir að hver 150 tonna farmur sem bretar veiða af slíkum smáfiski samsvarar 750–1500 tonnum af fullþroska fiski. Það er því vægast sagt mjög villandi þegar verið er að tala um að bretar t.d. veiði aðeins um 140 þús. tonn hér við land eftir að samningarnir voru gerðir við þá.

Þetta dæmi, sem ég hef hér nefnt, ætti að færa okkur heim sanninn um tvennt eða öllu frekar um þrennt: Í fyrsta lagi, að það er algjört glapræði af íslendingum að alfriða ekki þetta umrædda svæði fyrir Norðausturlandi fyrir öllum togveiðum allt árið, bæði fyrir íslenskum og erlendum veiðiskipum. Í öðru lagi, að það er alveg lífsnauðsyn fyrir íslendinga að losna bæði við breta og aðrar erlendar þjóðir, sem gerður hefur verið tímabundinn samningur við um veiðar innan 50 mílna markanna, strax þann sama dag og samningarnir renna út. Ég leyfi mér einnig að benda á í þessu sambandi að þetta er vissulega mjög ákveðinn rökstuðningur fyrir því að hraða beri svo sem unnt er útfærslu fiskveiðimarkanna í 200 sjómílur, eins og þegar hefur verið ákveðið af stjórnvöldum. Ef það tekst ekki eru fiskstofnarnir við landið sjáanlega í mun meiri hættu að verða gjöreyddir en við hingað til höfum gert okkur ljóst.

En það dugir ekki eingöngu að skamma breta og aðra útlendinga sem nú stunda veiðar hér við land. Við verðum einnig að gera okkur fulla grein fyrir að á okkur sjálfum hvílir sú skylda að gæta hófs í þessum efnum og taka tillit til ábendinga fiskifræðinga sem sannarlega hafa aðvarað okkur í þessu sambandi. Ég vil leyfa mér að vitna til viðtals sem fréttamaður útvarpsins átti hinn 22. f. m. við Jakob Jakobsson fiskifræðing varðandi smáfiskveiðar íslendinga. Ég vil aðeins láta nægja að vitna í niðurlag þessa viðtals, því að viðtalið í stórum dráttum var hirt í Morgunblaðinu skömmu siðar, en í niðurlaginu spyr fréttamaður útvarpsins í sambandi við smáfiskveiðar íslendinga þennan fiskifræðing, hvort það sé hættuleg stefna, sem víð höfum tekið upp, að hans mati. Jakob Jakobsson svaraði til: „Hún er bæði hættuleg og fáránleg að því leyti, að við nýtum ekki stofninn á skynsamlegan hátt.“ Og hann endar með þessum orðum: „Ef við ætlum að lífa á fiski, þá verðum við að sjálfsögðu að vernda uppeldisstöðvarnar. Það er algjört lágmark.“

Þetta var niðurlag í viðtali fréttamanns Ríkisútvarpsins við þennan fiskifræðing sem okkur öllum er mjög kunnur. Nú er það vitað, að hinir smærri skuttogarar, sem veiða fyrir Norður, Norðaustur- og að nokkru leyti fyrir Austurlandi, byggja afkomu sína að allverulegu leyti á smáfiskveiðum, og horfast verður í augu við þetta vandamál og ráða fram úr því á þann hátt, að ekki verði með neinum sanni sagt að um ofveiði á smáfiski sé að ræða eða rányrkju.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til ráðstöfunar á áætluðum gengishagnaði vegna gengisbreytingarinnar í lok ágústmánaðar s.l. og er hér samtals um að ræða upphæð sem nemur um 1150 millj. kr. Af þessari upphæð eru 600 millj. til að mæta hækkun erlendra lána sem hvíla á fiskiskipaflotanum, og munu um 500 millj. af þeirri upphæð vera vegna togaranna, en um 100 millj. vegna bátaflotans. 250 millj. er óafturkræft framlag til bátaflotans og 230 millj. til togaraflotans. Gefur þetta nokkra hugmynd um þá fjárhagslegu aðstöðu, sem sjávarútvegurinn er í. Mætti segja, að þetta væri kannske ekki svo alvarlegt ef hér væri um frambúðarráðstafanir að ræða fyrir þennan atvinnuveg. En svo er því miður ekki. Hlýtur þá að vakna sú spurning: Hvernig fer um þennan atvinnuveg ef ekki breytist til batnaðar frá því sem nú er? Er í þessu sambandi kannske uggvænlegust aðstaða hinna nýju skuttogara, sem keyptir hafa verið til landsins. Þeir fá í sinn hlut skv. frv. um 730 millj. kr., og verður ekki annað séð en að rekstur þeirra sé kominn í hreinan vítahring sem að sjálfsögðu verður með einhverju móti að brjótast út úr, því að útilokað er að til langframa verði hægt að reka þessi skip með þeim rekstrarhalla, sem nú virðist vera hjá þeim. Þannig verða þeir ekki reknir áfram með eðlilegum hætti, ef ekki raknar úr frá því sem nú er.

Ég skal, herra forseti, ekki tefja með lengri umr. um þetta mál, þótt vissulega væri bæði nauðsynlegt og mjög þarft að Alþ. tæki til mjög rækilegrar umr. þá aðstöðu, sem íslenskur sjávarútvegur er í nú í dag, og þá að sjálfsögðu jafnhliða hvað helst væri þar til úrbóta.