18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég er lítið vanur hér í sölum hv. Alþ. og þaðan af minna vanur því að taka þátt í umr. hér. Ég hef reynt að setja mig inn í þau störf, sem hér eru unnin, og reynt að fylgjast með þeim umr., sem hér hafa átt sér stað. Ég er búinn að vera hér núna í rúma viku og líkast til áður í eitthvað rúmlega mánuð. Skoðun mín á starfi Alþ. er eftir þessa veru mína sú, að hér sé ekki um þriðja leikhúsið í borginni að ræða, heldur sé hér verið að vinna að ákveðnum málum, hér sé ekkert sjónarspil, heldur fari hér fram málefnalegar umræður og hér séu ákvarðanir teknar og afstaða tekin til mála, þegar mál hafa verið metin og skoðuð. Ég var því meira en lítið hissa á föstudagskvöld eða seinni hluta föstudags, þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. stendur hér upp í hv. d. og heldur ræðu sem mér finnst stinga mjög í stúf við þann anda sem ég hef kynnst hér. Mér hefur virst og tel það hafa verið ætlun hæstv. forseta að reyna að koma til fullnaðarafgreiðslu ýmsum málum, sumum jafnvel tengdum fjárlögum, áður en þm. fengju jólafrí. Meira að segja, ég held að það hafi komið hér í d. til umr. mál í dag, sem nauðsynlega þurfti að komast frá hv. d., og er nú kannske verið að trufla það með framhaldsumræðum vegna ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég held að flestir ráðh. óski eftir því, að ákveðin mál, sem þeirra rn. eru með, komist í gegnum hv. d. og hv. Alþ. áður en þm. taka jólafrí. Ég hef talið sjálfsagt að greiða hér atkv. með afbrigðum, jafnvel í málum sem ég hef haft frekar takmarkaðan áhuga á, aðeins til þess að torvelda ekki störf þingsins. Stundum hef ég þurft að greiða atkv. hér til þess að væri hægt að afgr. mál þegar hv. stjórnarþm. hafa ekki verið í salnum.

Ég var því undrandi, eins og ég sagði áðan, á að hlusta á ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. hér í d. á föstudag. Hv. þm., sem ég hélt að væri einn af stuðningsmönnnum hæstv. ríkisstj. og væri ritstjóri aðalmálgagns ríkisstj., tók sig til og býður upp á að koma í ræðumannaleik, koma af stað málþófi um allt annað mál en var á dagskrá. Hann byrjar hér að tala um málmblendiverksmiðju, sem hann átti að vita um og hefur sjálfsagt vitað u-m að kæmi hér til umr. á hv. Alþ. síðar í vetur og jafnvel að menn létu sér detta í hug að jafnvel yrðu umr. um það hér fyrir jól. Jafnframt þessu, að reyna að tefja fyrir framgangi nauðsynlegra mála fyrir þinginu og þá um leið ríkisstj., greip hv. þm. tækifærið og réðst á fjarverandi þm., Jónas Árnason, og jafnframt á Magnús Kjartansson, sem hafði ekki aðstöðu til að svara fyrir sig í þessu máli þar sem hann hafði þegar fullnotað tíma sinn í dagskrármálinu. Auk þessa taldi hv. 4. þm. Norðurl. v. sig þurfa að lesa úr viðtali, sem Jónas Árnason átti við Þjóðviljann um málmblendiverksmiðjumálið, og sleit þar ákveðinn kafla úr samhengi. Ég tel mig skyldan til að bæta um og koma því til skila hér í hv. d., sem Jónas var raunverulega að skýra frá í nefndu viðtali, og vænti ég þess að hæstv. forseti meini mér ekki að lesa viðtalið allt síðar í ræðu minni.

Þeir Magnús Kjartansson og Jónas Árnason munu sjálfsagt svara fyrir sig þótt síðar verði, þó að þeir komi því ekki að undir þessum dagskrárlið. Ég tel þó rétt að fara nokkrum orðum um hið mikla deilumál þeirra félaga minna, Magnúsar og Jónasar.

Á kosningafundum í vor og í einkaviðtölum, sérstaklega í suðurhluta Vesturlandskjördæmis, ræddi Jónas málmblendiverksmiðjumálið mikið. Hann lagði fram svipuð rök og komu fram í Þjóðviljaviðtalinu. Andstæðingar okkar beindu þeim skeytum þá að okkur, að Magnús Kjartansson væri meðmæltur málinu. Við töldum það rétt vera að því marki að hann vildi kanna málið, engar lokaákvarðanir væru teknar. Við bentum á að ein af meginhættunum í þessu máli væri sú, að svo gæti farið að Magnús Kjartansson yrði ekki iðnrh. að kosningum loknum, í þeirri ríkisstj., sem yrði þá mynduð, aðalhættan væri sú að Framsókn og Sjálfstfl. mundu mynda ríkisstj. eftir kosningar og þá hefðum við ekki Magnús Kjartansson sem iðnrh. til að tryggja að málið yrði fullkannað. Ég var aldrei í neinum vafa um það að ekkert yrði úr þessari verksmiðjubyggingu, ef vinstri stjórnin sæti áfram. Þessu held ég að fleiri hafi gert sér grein fyrir. Skv. orkuöflunaráætlunum vinstri stjórnarinnar til húsahitunar og olíusparnaðar var sú hugmynd brostin að selja svo mikið rafmagn til verksmiðjunnar sem hún hefði þurft.

En það eru ekki skoðanir Magnúsar Kjartanssonar eða Jónasar Árnasonar á málmblendiverksmiðjunni, sem koma það miklu róti á hug 4. þm. Norðurl. v. að hann telur sig þurfa að hnýta í þá, þegar þeir eiga ekki tök á að svara fyrir sig, og í leiðinni að tefja fyrir framgangi þeirra mála, sem sú ríkisstj., sem hann væntanlega styður, þarf að fá afgreidd, heldur er það illska hans yfir því að nú er ekki alveg eins auðvelt og áður að gera smánarsamninga á borð við samninginn við ÍSAL við erlend stóriðjufyrirtæki. Hv. þm. er sár yfir því, að Magnús Kjartansson sannaði það með undirbúningsviðræðum sínum við Union Carbide að hægt var að semja við erlend stórfyrirtæki og tryggja meirihlutaeign íslendinga í fyrirtækjum í sameign við slíka aðila. Þm. er einnig sár yfir því, að Magnús Kjartansson skyldaði ÍSAL til að láta setja upp hreinsitæki í álverinu í Straumsvik með reglugerð um mengunarvarnir, sem jafnframt nær til allra annarra fyrirtækja og ætti, ef þeirri reglugerð er fylgt, að fyrirbyggja að mengunarvaldandi verksmiðjur verði byggðar. Þm. er einnig sár yfir því að Magnús Kjartansson tók upp viðræður við svissneska auðhringinn, sem á álverksmiðjuna í Straumsvík, til að freista þess að bæta kjör okkar íslendinga í viðskiptum við þann auðhring.

Svona má lengi telja, en sérstaklega mun þm. vera sár yfir því að Magnús Kjartansson leysti þann hnút, sem viðreisnarstjórnin skildi eftir sig í sambandi við Laxárvirkjun, og undirbjó raunhæfar framkvæmdir til lausnar raforkumálum norðlendinga til frambúðar með lagningu byggðalínu. Þm. er aftur á móti kátur yfir því að núv. iðnrh. hefur tafið framkvæmdirnar við lagningu byggðalínu næstum þann tíma, sem hann hefur setið í ráðherrastól. Sú kátína þm. byggist á því að hann ætlar að kenna Magnúsi Kjartanssyni og okkur Alþb.-mönnum um þá töf, og er það í samræmi við málefnaflutning hans hér á föstudag og reyndar oftast.

Svo sem ég nefndi áðan las hv. þm. í gær kafla úr viðkall við Jónas Árnason, er birtist í Þjóðviljanum viðvíkjandi málmblendiverksmiðjumálinu. Kafli þessi var tekinn úr samhengi meginmáls viðtalsins og mun ég nú lesa viðtalið, sem því miður er allt of stutt. Eins og ég sagði áðan, tel ég skyldu mína að koma efni þessa viðtals til skila hér í hv. d., eftir að hv. 4. þm. Norðurl. v. las úr því kafla og notaði það til árása á Jónas, sem er fjarverandi. Hefst þá lesturinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er þá fyrst til að taka, að fyrir alþingiskosningarnar í vor fannst mörgum afstaða Alþb. til áforma um málmblendiverksmiðju næsta óljós. Ég leit svo á að á flokksráðsfundinum 1973 hefði komið í ljós andstaða gegn verksmiðjubyggingunni í félagi við Union Carbide. Við frambjóðendur Alþb. í Vesturl. beittum okkur því einarðlega gegn verksmiðjunni í kosningabaráttunni og var afstaða okkar öllum ljós. Aðrir flokkar voru verksmiðjunni meðmæltir eða tóku ekki afstöðu, eins og t.d. Samtökin.

Það fór nú svo að framboðsfundir í nærsveitum Grundartanga og þó sér í lagi á Akranesi snerust að miklu leyti um verksmiðjuáformin. Maður heyrði þær hrakspár frá ólíklegustu aðilum að þessi andstaða okkar Alþb.-manna mundi valda flokknum miklum skakkaföllum í kjördæminu og jafnvel fylgishruni. Þetta andrúmsloft varð til þess á Akranesfundinum að magna svo upp frambjóðendur Frams.- og Alþfl. og þá sérstaklega Daníel Ágústínusson og Benedikt Gröndal, að þeir eggjuðu kjósendur lögeggjan að refsa nú G-listanum fyrir andstöðu hans við málmblendiverksmiðjuna með því að kolfella Jónas Árnason.

Eins og kunnugt er varð niðurstaðan hins vegar sú að G-listinn stórbætti fylgi sitt. Eftir það, sem á undan gekk, verða þessi úrslit ekki túlkuð á annan veg en stórsigur fyrir andófsmenn þessa verksmiðjubrölts. Á þeim tíma, sem liðinn er frá kosningum, hef ég rætt þetta mál mikið við fólk í nærsveitum Grundartanga og viðar um Borgarfjarðarhérað. Það hefur ekki verið spurt álits af stjórnvöldum fram til þessa. þótt komið sé að því að leggja samninginn við Union Carbide fyrir Alþ. Ég get hins vegar fullyrt að andstæðingar þessarar verksmiðju þar um slóðir eru miklu fleiri en formælendur hennar.“

Þjóðviljinn spyr: „Það hefur ekki farið á milli mála, Jónas, að þú ert svarinn andstæðingur verksmiðjunnar, en á hvaða grundvelli byggir þú andstöðu þína? Hvers vegna ert þú á móti þessu máli, sem óumdeilanlega virðist þó geta verið töluvert atvinnuöryggismál fyrir Vesturlandskjördæmi?“

Svar Jónasar: „Það er af mörgum ástæðum, sem eru af félagslegum, umhverfisverndarlegum, byggðarlegum og siðferðilegum toga spunnar, svo að maður skelli fram öllum tískuorðum á einu bretti. Union Carbide á sér einn óþokkalegastan feril allra auðhringa að því er varðar mengun og mannréttindi. Ég hef í höndum skýrslu sem sannar að í heimalandi þessa auðhrings, Bandaríkjunum, hefur hann neytt allra bragða til að sniðganga gildandi lög um mengunarvarnir, og enginn auðhringur er eins illa þokkaður hjá því fólki sem berst gegn mengun og fyrir náttúruvernd.

Ég hef líka í höndunum skýrslu sem sannar að enginn auðhringur er eins illa þokkaður og Union Carbide hjá hinum nýfrjálsu ríkjum Afríku, enda heyrir maður fulltrúa þeirra nefna Union Crarbide í ræðum sínum vestra á þingi Sameinuðu þjóðanna þegar þeir ræða harkalega meðferð á svörtu fólki. Í Rhodesíu og Suður-Afríku eru umsvif þessa auðhrings mjög mikil og hvítir verkamenn, sem vinna við fyrirtæki hans þar, fá allt að því 10 sinnum hærri laun en svartir. Meðferð auðhringsins á svörtu fólki er öll eftir þessu. Hann hefur aðstoðað fasistastjórnina í Rhodesíu dyggilega við að rjúfa það viðskiptabann sem Sameinuðu þjóðirnar og þ. á m. Bandaríkin samþykktu að setja á hana. Yfirleitt má segja að þessi auðhringur sé sérstakur ástmögur fasistastjórnanna í Rhodesíu og Suður-Afríku.

Þótt ekki komi til aðrar ástæður en þessar, mundi ég beita mér gegn samningum um málmblendiverksmiðjuna. Union Carbide er vægast sagt ekki nógu göfugur félagsskapur fyrir þjóð eins og okkur íslendinga.

Enn ein siðferðileg mótbára mín er sú að Grundartangaverksmiðjan á að framleiða forrosilleon. Efni þetta er til margs nytsamlegt, en fyrst og fremst er það notað til að herða stál og það þarf hart stál í vopn. Efni þetta er því ein af helstu nauðsynjum vopnaframleiðenda. Hlutverk okkar íslendinga í sveltandi heimi á að vera að framleiða matvæli, en ekki að efla og auka áhrifamátt drápstækja.

Þetta hef ég sagt áður og oftar en einu sinni, en ég vil gjarnan bæta einu atriði við til viðbótar. Auðhringurinn Union Carbide er veldi, sem er ekki háð neinum landfræðilegum takmörkunum. Starfsmenn fyrirtækisins eru sagðir 1/3 fleiri en starfandi einstaklingar á Íslandi og þar af vinnur helmingurinn í nær 200 verksmiðjum auðhringsins utan Bandaríkjanna í öllum heimshlutum. Einn ríkasti þátturinn í utanríkisstefnu bandaríkjastjórnar á eftirstríðsárunum hefur verið að láta halda opnum dyrum fyrir hinu fjölþjóðlega flármálavaldi, sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Þessi stefna hefur verið studd af hervaldi ef þurfa hefur þótt, og alkunnug eru hin nánu tengsl hers og iðnaðar í Bandaríkjunum. Vegna þessarar samtvinnunar herstjórnar og auðhrings hafa þeir síðast nefndu notað bandarísku leyniþjónustuna CIA sem sinn einkaspæjara og raunar orðið uppvísir að stuðningi við fasistískt valdarán í ýmsum löndum, eins og nærtækast er í Chile.

Ég óttast að bygging ferro-silicon-verksmiðju á Íslandi í samvinnu við bandarískan auðhring muni auka á vilja bandarískra hernaðaryfirvalda til þess að herða enn það tak sem þau hafa í þessu landi. Fylgismenn hersetunnar munu fá eitt tilefnið í viðbót til að berja sér á brjóst og segja að hernaðarmikilvægi okkar hafi aukist og við séum ómissandi fyrir varnarkerfi NATO og Bandaríkjanna, að maður tali svo ekki um hætturnar sem svona mikilvæg verksmiðja hefði í för með sér. Ætli að hernaðarsérfræðingar komist ekki að þeirri niðurstöðu að Grundartangi verði forgangsskotmark í kjarnorkustríði eins og sá sænski sagði að Keflavíkurherstöðin yrði ef til slíkra tíðinda drægi?

Ef við víkjum að umhverfisverndarhlið málsins hefur fátt eitt komið fram um það mál. nema sérfræðingar UC telja sig geta haldið rykmengun í lágmarki, en ekkert hefur verið rætt um hugsanlega jarðvegs- og sjávarmengun og fenolsull í svona verksmiðjum. Mér virðist það lítil trygging gegn mengunarhættu þó að sérfræðingar Union Carbide ræði við Baldur Johnsen forstöðumann Heilbrigðiseftirlitsins einhvern tiltekinn dag í sept. s.l. hér heima eða þá að Baldur Johnsen skreppi vestur til Bandaríkianna til að ræða við þessa sömu sérfræðinga eins og nú um daginn. Mér finnst sem sé auðhringurinn Union Carbide ekki rétti aðilinn til að skrifa upp á siðferðisvottorð í þessum efnum. Hér verður að koma til kasta óvilhallra aðila með sérfræðiþekkingu, sem bæði er hægt að kaupa hérlendis og erlendis. Hingað til hefur verið horft í kostnað við þetta, þótt fyrirmæli séu um það, að svona skuli staðið að málum, í reglugerð sem sett var í tíð vinstri stjórnarinnar. Það dregur ekki úr grunsemdum þegar maður kemst að því að auðhringurinn tregðast við að afhenda nauðsynlegar upplýsingar. Má í því sambandi nefna að nú, þegar til stendur að afgreiða frv. um málmblendiverksmiðjuna fyrir jól, hefur Union Carbide ekki enn afhent rekstraráætlanir eða teikningar af verksmiðjunni. Ekkert liggur því fyrir um, hvaða aðferðir af ýmsum, sem til greina koma, verða notaðar við framleiðsluna, og því er erfitt fyrir umhverfissérfræðinga að meta mengunarhættuna.

Í þeim skýrslum, sem gerðar hafa verið um viðræður við forustumenn Union Carbide, er nær eingöngu reifuð hin hagkvæma hlið málsins, eins og það er kallað. Það er verið að segja okkur hvað það sé góður bisness fyrir íslendinga, en ekkert um hvaða félagsleg og mengunarleg áhrif verksmiðjurekstur af þessu tagi hefur á byggðir Vesturlands. Hvaða röskun hefur verksmiðjan í hefðbundnum atvinnurekstri o.s.frv.? Um það er ekki orð að finna. Það er svo efni í annað viðtal, hve herfilega vondur þessi góði bisness er. Það er alger grundvallarforsenda þess, að almenningur geti tekið afstöðu til verksmiðjurekstrar af þessari gerð, að stjórnvöld reifi allar hliðar málsins og kynni opinberlega. Á það hefur svo sannarlega skort í þessu tilviki til þessa, en með skynsamlegri umhugsun og skírskotun til reynslu mývetninga af Kísiliðjunni geta menn náttúrlega myndað sér skoðanir í þessu máli og hafa gert.“

Þá spyr Þjóðviljinn að lokum: „Nú hefur þér orðið tíðrætt um þina afstöðu til Union Carbide og málmblendiverksmiðjunnar, og forsendur andófs þíns eru þeir vestlendingar, sem snúist hafa gegn verksmiðjunni, andstæðingar hennar af sömu ástæðu og með sama þunga.“

Því svarar Jónas: „Þau margendurteknu vinnubrögð stjórnvalda í stjórnmálum að taka ákvarðanir án minnsta samráðs við almenning eða í andstöðu við vilja hans hafa því miður haft sín áhrif. Það er komin siðferðisþreyta í sumt fólk, sem lýsir sér helst í því að menn yppta öxlum og segja: „Er ekki hvort sem er búið að ákveða þetta?“ Ég held þó síður en svo að of seint sé að stöðva þessa verksmiðju. Menn eru andsnúnir verksmiðjubyggingunni af mörgum ástæðum. Á byggingartímanum mun hún draga mikið vinnuafl og ómissandi frá sjósókn okkar og fiskiðnaði. Mönnum finnst frekar að það ætti að byggja upp ýmis konar smáiðnað í kjördæminu, sem betur félli inn í núverandi atvinnuhætti og væri fyrst og fremst tengdur landbúnaði og fiskveiðum. Bændur hafa ekki verið spurðir hvort þeir vilji láta land undir þessa stóriðju og það sem henni fylgir o.s.frv.

Að öllu samanlögðu treysti ég a.m.k. á það, að nauðsynlegt baráttuþrek og samstaða fyrirfinnist viðar en hjá þingeysku m bændum. En jafnvel þótt þeir, sem landinu ráða, fari sínu fram, tel ég það skyldu okkar að berjast og berjast og halda áfram að berjast og leggja þar með fram okkar skerf til þess að því siðferðilega undanhaldi, sem því miður hefur um of einkennt þessa þjóð að undanförnu, verði snúið upp í sókn.“

Ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að lesa þetta viðtal á annatíma hér í hv. d. Það er nú svo, að það er ekki á hverjum degi að hv. 4. þm. Norðurl. v. þurfi að sitja undir því, að úrklippingar hans úr ritum og ræðum fáist leiðréttar og birtar í réttu samhengi við meginmál á þeim sama vettvangi og hann birtir þær.

Að lokum þetta: Ég gat þess í upphafi máls míns að af þeim litlu kynnum, sem ég hef haft af störfum Alþ., fyllti ég ekki flokk þeirra manna, sem gera lítið úr þeim störfum sem unnin eru hér. Ég verð þó að segja það, að þetta álit mitt varð fyrir allmiklum hnekki á föstudag, er ég hlýddi á ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., bæði vegna þess að hann notaði ræðutíma sinn til árása á tvo hv. þm., sem áttu þess ekki kost að svara fyrir sig, og svo vegna hins, að hann virtist vera að undirbúa það að koma hér af stað málþófi um mál óskylt því, er á dagskrá var, í því augnamiði einu að tefja störf Alþ. á annatíma. Ef þm. óskar þess að koma hér af stað málþófi til þess að stríða hæstv. ríkisstj., er alls ekki ólíklegt að stjórnarandstaðan væri til í að taka þátt í slíku, og verið gæti að einhver hefði áhuga á því að slá met hv. þm. Sverris Hermannssonar um tímalengd um stöðu hér í ræðustólnum. Ef svo fer, þá vita hv. þm. hver er hvatamaður og leikstjóri þeirrar leiksýningar er hér færi þá fram. Það er hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, 4. þm. Norðurl. v, og ég vil beina því til hæstv. forseta, að ef þm. fær þessum vilja sínum framgengt, þá verði Alþ. flutt niður á leiksvið Þjóðleikhússins til þess að sem flestir, fleiri en þeir sem rúmast hér á pöllum, geti fengið að sjá hvernig þ n. stjórnar þá stærsta leikhúsi borgarinnar.