18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

72. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um Háskóla Íslands var lagt fyrir hv. Ed. og hefur hlotið afgreiðslu þar. Í frv. eru aðeins tvö atriði, sem máli skipta. Annars vegar er till. um breyt. á stjórn Háskólans, þannig að heimilt verði að ráða að skólanum aðstoðarmann rektors. Störf rektors og háskólaritara eru ákaflega margþætt og vissulega mjög erfið, einkum á vissum árstímum, t.d. þegar stúdentar eru að innritast. Ætlunin er sú, að þessi nýi starfsmaður Háskólans taki við hluta af þessum störfum og létti einkum störf rektors, þannig að hann geti betur en ella sinnt yfirstjórn Háskólans. Þetta er annað meginatriðið. Hitt atriði frv. er það að taka inn í l. um Háskóla Íslands almenna heimild til þess að stofna námsbrautir við Háskólann. Þetta hefur áður verið gert, þ.e. þessi skipan tekin upp við Háskólann, t.d. þegar þjóðfélagsfræðideildin var stofnuð, en þá þurfti að gera það með sérstökum lögum. Þykir eðlilegt að hafa þessa heimild í háskólalögunum sjálfum. Jafnframt er þess að geta, að heimildin er bundin þeim skilyrðum, að Alþ. hafi samþ. fjárveitingar til slíkra aðgerða hverju sinni.

Þetta frv. var afgr. ágreiningslaust í Ed., og ég vil vænta þess að það fái einnig skjóta fyrir greiðslu og fyrst og fremst jákvæða hér í þessari hv. d. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.