18.12.1974
Efri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Efni þessa frv. er það, að ríkisstj. sé heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa og reka vatnsaflsstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu með allt að 32 mw. afli.

Á s.l. hausti, um miðjan sept., hélt Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi aðalfund sinn að Eiðum. Aðalumræðuefni fundarins voru orkumálin á Austurlandi. Þar fluttu yfirverkfræðingur áætlunardeildar Rafmagnsveitna ríkisins ítarlegt erindi um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Málið var rætt ítarlega og var gerð um það samþykkt á þessu þingi að skora á iðnrn. og Alþ. að setja lög um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal á komandi þingi. Í samræmi við þessar óskir er frv. flutt.

Frv. gerir ráð fyrir að reist verði vatnsvirkjun við Bessastaðaá í Fljótsdal. Þar er fallhæð mjög mikil og hagstæð, 500–600 m. Hins vegar er áin ekki vatnmikil, a.m.k. verulegan hluta ársins, en hins vegar miklir möguleikar fyrir miðlun þar uppi á heiðinni, eins og greinir nánar í grg.

Þetta mál hefur verið allrækilega rannsakað og undirbúið. Hins vegar er ekki öllum undirbúningsathugunum lokið. Sérstaklega þarf nokkru nánari rannsókn á vatnsrennsli. Hins vegar benda allar þær rannsóknir, sem fram hafa farið til þessa, til að þessi virkjun sé mjög álitleg, og því verður að telja yfirgnæfandi líkur til þess að rétt þyki í hana að ráðast. En vegna þess að nokkrar rannsóknir eru þar enn ógerðar er ákveðið í þessu frv., að það sé heimild til handa ríkisstj., en ekki endanlega lögfest.

Gert er ráð fyrir því, að ef þetta frv. verður samþykkt og allur undirbúningur getur haldið áfram með fullum hraða, þá geti virkjunin tekið til starfa eftir 4–5 ár.

Ég skal ekki ræða hér um orkumál Austfjarða almennt eða ástandið þar nú, en vil mælast til þess að frv. fái greiða göngu í gegnum þessa hv. d., en á það er lögð áhersla að það geti orðið lögfest fyrir jól.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. og vil beina þeim tilmælum til hennar að hún taki málið skjótlega til meðferðar og það fái jákvæðar undirtektir hér eins og í Nd., en iðnn. Nd. mælti einróma með frv. og það var samþ. þar með shlj. atkv.