18.12.1974
Efri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Á fundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi í haust lýsti ég þegar yfir ánægju minni yfir þessari virkjun. Ég fagnaði frumkvæði heimamanna og góðum vinnubrögðum þess starfsmanns Rafmagnsveitna ríkisins sem þetta mál flutti þar sérstaklega og skilaði skýrslu sem var hin aðgengilegasta og hverjum leikmanni ljós.

Orkuskortur á Austurlandi hefur verið ógnvekjandi. Það skal ekki rakið hér því að það hefur verið gert mjög rækilega. Þar mun til bráðabirgða reynt að leysa brýnasta vanda, og skal það þakkað, sem þar hefur verið gert og er verið að vinna.

Austfirðingar bundu miklar vonir víð Lagarfossvirkjunina. Hún mun þegar hafa komið á dagskrá snemma á fimmta áratug þessarar aldar, en því miður skorti nægan stórhug á sjötta áratugnum þegar ákvörðun var tekin um aðra virkjun, sem um var kveðið svo að sönnu, þegar ákveðinn austfirðingur var beðinn að yrkja vísu ef hann ætti að fá að fara í ræðustól:

Vísu kann ekki að yrkja eftir pöntun framan úr salnum.

Það er eins og vera að virkja vatn sem ekki er til í dalnum.

Síðan Grímsárvirkjun varð staðreynd hefur því miður ekkert raunhæft gerst í orkumálum Austurlands, m.a. vegna þess að nær allar framkvæmdir í orkumálum þessa lands hafa verið hér á Suðurlandi, nánar tiltekið í nágrenni aðalþéttbýlisins, og margt kann að vera til réttlætingar því. Lagarfossvirkjunin var okkar draumavirkjun, og illa hefðum við trúað því að hún leysti þó ekki meiri vanda en hún gerir þegar hún kemst í notkun. Því ber að fagna að því leyti til, að aðalorsökin er fólgin í auknum umsvifum á Austurlandi. Þar er aukin húshitun á ferðinni og þar með fylgir aukinn gjaldeyrissparnaður í kjölfarið. En ýmislegt hefur farið á annan veg einnig, m.a. vegna þess að ekki virðist svo sem nógu vel hafi verið í upphafi staðið að undirbúningi hvað snertir bæði hið verkfræðilega og þó alveg sérstaklega umhverfisleg verndarsjónarmið víð undirbúning þessarar virkjunar. Hvað sem því líður, þá kemst Lagarfossvirkjun í gagnið á næsta ári. Henni fögnum við sem mikilsverðum áfanga og ýmsa reynslu höfum'við af því hlotið, sem hollt er að hyggja að varðandi þær virkjanir sem við hljótum að stefna að, — reynslu sem vonandi kemur okkur til góða einnig varðandi þessa umræddu virkjun sem hér er á dagskrá.

Ég fagna viðbrögðum hæstv. ráðh. við óskum austfirðinga. Þau ber að meta að verðleikum. Ég hlýt líka að vísa á bug þeirri gagnrýni, sem fram kom í Nd. hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni, og tek það skýrt fram, eins og áður hefur eflaust verið gert í Nd., að þar talar þessi hv. þm. á engan hátt fyrir hönd austfirðinga, nema þá einhvers örlítils hóps, sem ég reyndar, sem betur fer, þekki ekki til. Ég hlýddi ekki náið á þær umr., en ég kannast svo vel við hans stórvirkjana- og stóriðjuhjal, að ég þykist vita inntakið, og ég vona að hæstv. ráðh. og veit reyndar að hann ljái slíku annarlegu tali ekki eyra, allra síst þeim hrakspám sem þar hafa án efa verið uppi hafðar varðandi þessa virkjun. — En þetta er kannske útúrdúr sem ekki á við hér, þar sem hv. þm. á hér ekki þess kost að ræða þetta mál frekar, en hann gerði það mjög rösklega í gær að ég heyrði.

Ég fagnaði alveg sérstaklega virkjun sem þessari einmitt af því að hér er um sjálfsagða virkjun að ræða án allra beinna tengsla eða órjúfanlega við þær aðrar virkjanir eða virkjunarmöguleika sem hafa verið ræddir á þessum slóðum, og á ég þar alveg sérstaklega við virkjun þá, sem á Austurlandi hefur hlotið fyrirfram nafnið LSD, fyrir „langstærsti draumurinn“, en gæti allt eins haft aðra táknræna merkingu fyrir byggð á Fljótsdalshéraði sem hér skal ekki nánar út í farið.

Hvað sem öllum rannsóknum liður á þessum öðrum möguleikum á þessu svæði, þá hlýt ég að treysta því framar öðru að þáttur umhverfisverndunar, landverndar, byggðaverndunar verði framar öðru látinn ráða í öllum þeim áformum og ákvörðunum sem þar kunna að verða teknar í framtíðinni. Meðalvirkjun á þessu svæði væri vissulega ákjósanleg og eðlileg ef í ljós kæmi að henni fylgdu engir þeir annmarkar sem yllu spjöllum á þeirri blómlegu byggð sem þróast hefur og er víða í uppgangi meðfram bökkum Lagarins og Lagarfljóts. Ég óska eftir að rannsóknir í framtíðinni beinist fyrst og fremst að slíkri virkjun og veit að hæstv. ráðh. hefur á því áhuga. Í ljósi jákvæðra niðurstaðna þar um á öllum þýðingarmeiri sviðum ætti svo að taka ákvörðun á nánu samráði og samstarfi við austfirðinga sjálfa, á líkan hátt og gert hefur verið um Bessastaðaárvirkjun.

Rétt er það að þar sem svo stutt er síðan þetta mál komst á dagskrá fyrir alvöru, menn uppgötvuðu þennan möguleika sem lausn á raforkumálum Austurlands í alvöru, þá hafa menn haft uppi nokkurn fyrirvara um þessa virkjun hvað varðar vatnsmiðlun og þá hættu sem hugsanlegu vatnsleysi þarna væri samfara. Af máli sérfræðinga, og veit ég þó að það er ekki allt heilagur sannleikur sem þaðan kemur, og rökum hygg ég að óþarft sé að hafa hér af miklar áhyggjur, og trúi ég a.m.k. ekki að meginrökin í þeirra máli standist ekki dóm reynslunnar. Þetta á að vísu eftir að koma betur í ljós þegar fullnaðarrannsóknir hafa farið fram, og vissulega mega engin Grímsárævintýri eða Lagarfossvandkvæði endurtaka sig á enn nýjan leik.

Ég ætla ekki að tefja þessar umr. með löngu máli, því að vissulega hef ég á því áhuga að mál þetta nái fram að ganga, ekki einvörðungu hér í þinginu, heldur ekki síður framkvæmdin sjálf. Hæstv. ráðh. er mætavel kunnugt um áhuga austfirðinga á málinu, eins og hann gat um í sinni framsöguræðu, og þá sér í lagi áhuga þeirra á því að framkvæmdum verði hraðað sem mest og að því stefnt að virkjunin komi sem fyrst í gagnið. Hæstv. ráðh. er einnig mætavel kunnugt um þær svimháu tölur sem sparast munu í gjaldeyri og kostnaði við hvert það ár sem vinnst í þessu efni. Þar er um hundruð millj. að ræða með núgildandi verðlagi. Einnig gerir hæstv. ráðh. sér það mætavel ljóst, það sýnir hann með þessu frv., að öryggi íbúanna á Austurlandi í orkumálum verður ekki tryggt fyrr en virkjunin fer af stað. Ég vil því mega trúa því, að þar verði flýtt svo sem verða má framkvæmdum öllum, og mér þykja öll viðbrögð hæstv. ráðh. til þessa benda í þá átt og vona að þannig verði að málinu staðið áfram.

Ég endurtek það, sem ég sagði á fundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi á liðnu hausti, að þessum áfanga í orkumálum Austurlands fagnaði ég alveg sérstaklega af því að hann væri í þeirra þágu einna. Inn í hann blandaðist engan veg sú hvimleiða mengun hugfarsins, að virkjun og stóriðja, og þá auðvitað erlend stóriðja, ættu að fara saman. Þetta veit ég að er t.d. deiluefni, a.m.k. milli mín og hv. 3. þm. Austf., en ég vona að það sé ekki deiluefni milli okkar hæstv. ráðh. Ég veit, að virkjunaráform framtíðarinnar á Austurlandi eru í þeirri hættu að mengast um of af slíku hugarfari. Ég veit um eftirgrennslanir Norsk Hydro á mínum heimastað um álbræðslu þar inni í þröngum firði, og ég óttast, að ef þeim list sá staður girnilegastur fyrir gróðaáform sín og hervirki, þá muni öðruvísi verða unnið að virkjunarmálum á Austurlandi en ég kýs að gert sé. Stóriðja að vissu marki er ekkert bannorð hjá mér, ef tryggt er, að við íslendingar séum þar hinn ráðandi aðili í öllu, og tryggt er, ekki á pappír, heldur í reynd, að gróðri og mannlífi stafi þar af engin mengunarhætta. En hjá því mun vægast sagt torvelt að komast, ekki hvað síst hvað gróðurinn snertir, inni í þröngum og oft lognkyrrum firði. Ég segi þetta hér af því að ég ber í dag nokkurn ugg í brjósti vegna þessa fyrirtækis, sem í gráðugu tillitsleysi allra auðfyrirtækja læðir nú klóm sínum nær og nær minni heimabyggð. Virkjunarmál Austurlands munu e.t.v. í framtíðinni standa þar í órofa samhengi og fleira kann þá einnig eftir að fara.

Það eitt veit ég: að sjálfráðu gæti það eitt hrakið mig þaðan að heiman að slík álbræðsla auðfélags risi við bæjardyrnar hjá mér, svo sannfærður er ég um bölvun hennar frekar en blessun þá sem sumir sjá þar í fólgna, í einu saman ímynduðum ágóða auðsins. En nóg um það. Það er fagnaðarefni dagsins í dag að virkjum í þágu austfirðinga er hér á dagskrá, að við treystum því og trúum að hæstv. ráðh. haldi fram sem hingað til af fullri framkvæmdadjörfung og virkjunin megi sem fyrst færa varma og birtu til okkar austfirðinga og stuðla þannig að frekari framvindu mála í sóknarátt þar eystra.