18.12.1974
Efri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins til að tryggja, að hv. 7. landsk. þm. fái nú sofið í ró og næði, upplýsa að það hafa ekki minnstu samningar verið gerðir við Norsk Hydro um neina stóriðju hér á landi. Fulltrúar þess fyrirtækis hafa komið hingað og viljað fá að kynna sér möguleika, og það hefur verið við þá rætt, þeim hefur verið skýrt frá aðstæðum, en þeim hefur ekki á nokkurn máta verið gefið undir fótinn með stóriðju á Austfjörðum né annars staðar. Þeir spurðu m.a. að því, hvort þeim væri ekki frjálst að kynna sér aðstæður og skoða landið, og það var þeim að sjálfsögðu. Ég veit að þeir hafa í því sambandi komið til Austfjarða og kynnt sér virkjunaráform sem þar hafa verið uppi, enda hefur það verið hverjum manni opið. En ég vil leggja áherslu á það, að engir samningar eru í gangi við Norsk Hydro um slík mál. Þetta eru eingöngu allra fyrstu umr. og á byrjunarstigi eins og ég hef lýst þeim. Ég vil jafnframt staðfesta það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að Norsk Hydro er að meiri hl. eign norska ríkisins. Norsk Hydro var stofnað fyrir síðustu heimsstyrjöld. Þá áttu þjóðverjar þar ráðandi hlut, en norska ríkið tók þann hlut til sín eftir heimsstyrjöldina. Norska ríkið er ráðandi hluthafi í Norsk Hydro.

Fyrst ég er staðinn upp vil ég lýsa ánægju minni með þetta fram komna frv. eins og aðrir hafa gert hér. Þetta er ákaflega athyglisverð lítil virkjun. Hún er e.t.v. að vísu nokkuð stór af litlum virkjunum að vera. því veldur að þarna er fyrir framan mikil fallhæð, óvenjumikil fallhæð, og möguleiki til þess að koma upp forðabúri fyrir vatn, sem tryggir þessa virkjun betur en flestar litlar virkjanir. Flestar litlar virkjanir eru haldnar þeim annmarka að það er of kostnaðarsamt að koma upp miðlun, en í þessu tilfelli er það unnt og þarna fæst því orka á mjög viðráðanlegu verði, 1.40 kr. kwst., sem er ekki almennt frá slíkum virkjunum. Mér sýnist sjálfsagt að þessari framkvæmd verði hraðað.