12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

297. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það er vonandi kunnugt öllum þingheimi að Austurland hefur um langa hríð búið við margs konar erfiðleika vegna orkuskorts. Á undanförnum árum hefur orðið að grípa til neyðarráðstafana til þess að forða því að framleiðsla í landshlutanum stöðvist á ýmsum svæðum vegna skorts á orku. Enn fremur blasir nú við að hugsanlegt sé að dregið verði úr byggingarframkvæmdum einstaklinga og fyrirtækja vegna fyrirsjáanlegs orkuskorts. Það er því ljóst að orkuöflun er eitt brýnasta hagsmunamál austfirðinga, enda hefur það komið fram hjá Samtökum sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi að þau telja höfuðverkefni sitt og ríkisvaldsins á næstu ánum að tryggja það að í landshlutanum sé fyrir hendi nægileg raforka, sem í senn tryggi starfrækslu þeirra atvinnufyrirtækja sem nú þegar eru í landshlutanum og skapi grundvöll fyrir ítrekaðri atvinnuuppbyggingu og geri einstaklingum kleift að hita hús sín á ódýran hátt.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi samþykkti nú í haust að skora á iðnrn. og Alþ. að sett yrðu lög um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal á komandi þingi og undirbúningur og framkvæmd við virkjunina séu við það miðuð að hún taki til starfa árið 1978. Jafnframt segir í samþykkt aðalfundarins, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundurinn skorar á iðnrn. að nú þegar verði gerð 10 ára áætlun, sem endurskoðist árlega, um orkuvinnslu- og orkudreifingarmál á Austurlandi, sem sé grundvallaratriði áætlunarinnar sé 100% rafhitun húsnæðis á Austurlandi.“

Til þess að fylgja eftir þessari stefnu lagði ég fram í upphafi þessa þings fsp. til iðnrh. um hvort ríkisstj. hefði tekið ákvörðun um að leggja fram á yfirstandandi þingi frv. til l. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal sem sé við það miðuð að virkjunin taki til starfa 1978. Í gær lagði hæstv. iðnrh. fram fyrir hönd ríkisstj. frv. um þetta efni og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir þau greinilega snöru handtök sem hann hefur haft á því að leggja fyrir Alþ. frv. um þetta efni. Hins vegar ber að harma það að hvorki í frv. né í grg. kemur fram nein áætlun um hvenær þessi virkjun taki til starfa. Þótt það sé vissulega þakkarvert að hefja þetta mál með því að leggja fram frv., þá hefði verið æskilegra að þingheimur og þó sérstaklega Samtök sveitarfélaga á Austurlandi og austfirðingar allir fengju að vita hvenær ríkisstj. stefndi að því að virkjunin gæti tekið til starfa.

Það liggur nú þegar fyrir, að í vetur getur orðið mjög alvarlegur orkuskortur á Austurlandi, orkuskortur sem getur leitt til þess að atvinnufyrirtæki þurfi að stöðvast, orkuskortur sem getur leitt til þess að þeir einstaklingar, sem verið hafa að koma sér upp húsnæði í sumar og hafa reiknað þar með rafhitun, geti ekki fengið nægilega orku til þess að halda húsum sínum heitum. Ég vona að hæstv. iðnrh. sé kunnugt um þessi alvarlegu orkuvandamál þessa landshluta, vandamál sem verða ekki leyst að neinu verulegu marki fyrr en Bessastaðaárvirkjun hefur tekið til starfa. Ég vil þess vegna óska þess við hæstv. ráðh. að hann upplýsi hér á eftir hvenær, á hvaða ári, reiknað er með að þessi virkjun taki til starfa.