18.12.1974
Efri deild: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka iðnn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls og frsm. nefndarinnar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. beindi til mín fsp., en hv. frsm. hefur í rauninni tekið af mér ómakið að svara. Þó vil ég aðeins bæta nokkru við.

Í Nd. var bætt inn í frv. því ákvæði í 2. málsgr. 2. gr. sem hv. 5. þm. Norðurl. e. gerði að umtalsefni, að gerðar skuli ráðstafanir er að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og að dómi sérfræðinga teljast nauðsynlegar til að draga úr hugsanlegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki umhverfisins. Var alger samstaða um að bæta þessu ákvæði inn í frv. til að undirstrika það sjónarmið að fullt tillit bæri að taka til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Nú spurði hv. þm. hvers konar sérfræðingar það væru sem hugsað væri að leita til. Iðnn. Nd., sem gerði till. um þetta ákvæði, ræddi það ekki sérstaklega hvaða sérfræðingar kæmu til greina. En ég vil út af þessari fsp. taka fram, að að sjálfsögðu getur Náttúruverndarráð kvatt til þá sérfræðinga sem það vill, en auk þess sá aðili sem á að sjá um virkjunina, þ.e.a.s. Rafmagnsveitur ríkisins, og í samráði við bæði iðrn. og heimamenn ekki síst velja þá sérfræðinga sem æskilegastir þættu. Ég geri ráð fyrir að þar kæmu til greina líffræðingar, umhverfis eða mengunarsérfræðingar, og hvers konar sérfræðingar yrðu þarna til kallaðir sem ástæða þætti til. Í því sambandi má geta þess, að undanfarið hafa farið fram mjög nákvæmar rannsóknir af hálfu vísindamanna á Mývatni, umhverfi þess og vernd, og hafa þeir sérfræðingar skilað mjög ítarlegum og merkum grg. um það mál. Hvort leitað yrði til þeirra hinna sömu eða annarra get ég að sjálfsögðu ekki sagt á þessu stigi.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi hér einn tiltekinn mann, Einar Val umhverfisverkfræðing, og gerði að umtalsefni að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins hefði leyst hann frá störfum. Nú hefur Baldur Johnsen forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins opinberlega gert grein fyrir hversu því máli er varið. Hann segir að Einar Valur hafi verið á árssamningi til reynslu frá 1. jan. 1974 til 1. jan. 1975, — samningi sem fellur sjálfkrafa úr gildi um næstu áramót. Baldur Johnsen bætir því við að á þessu ári hafi Einar Valur verið fjarverandi við framhaldsnám í London og víðar frá febrúarbyrjun til 10. sept. eða nærri 71/2 mánuð. Hann gerir ráð fyrir að sama mundi verða næsta ár eða næstu árin, og þrátt fyrir dugnað hans og kunnáttu, eins og forstöðumaðurinn kemst að orði, hafi ekki þótt rétt að endurráða hann. Hér er því nokkuð málum blandað. Það er ekki verið að segja manni upp starfi, heldur ákveðið af þeim ástæðum, sem Baldur Johnsen hefur greint frá, að framlengja ekki þennan samning.

Varðandi fsp. eða aths. 6. þm. Norðurl. e. um rennsli í Bessastaðaá, þá hefur því verið svarað af hv. frsm. En eins og komið hefur fram í umr. byggist þessi virkjun fyrst og fremst á tvennu: Annars vegar hinni miklu fallhæð, 500–600 m, og auk þess á góðum skilyrðum fyrir uppistöðulón eða vatnsmiðlun í vötnum þar uppi á heiðinni. Hins vegar byggist virkjunin ekki fyrst og fremst á rennslinu í sjálfri Bessastaðaá, sem er mjög misjafnt eins og réttilega hefur verið tekið hér fram. Gert er ráð fyrir að þarna verði gert uppistöðulón sem nægi virkjuninni í a.m.k. 4-5 mánuði þó að ekkert nýtt vatn komi í lónið. Hins vegar er einmitt ætlunin að framkvæma nokkru ítarlegri rannsóknir á vatnsrennslinu. Ég tók fram í framsöguræðu, þegar ég lagði málið fyrir hv. Nd., að ekki þætti rétt að slá því föstu nú endilega að ráðist yrði í þessa virkjun, heldur yrðu lögin í heimildarformi. Um þetta efni féllu svo orð í þessari framsöguræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er talið af þeim, sem kunnugastir eru þessum málum, og er þar bæði um að ræða sérfræðinga, sem hafa undirbúið þetta mál, og enn fremur fulltrúa Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, að rannsóknir bendi til þess að þessi virkjun sé fjárhagslega hagkvæm, hins vegar þurfi ítarlegri vatnsmælingar og athuganir á vatnsrennsli áður en endanleg ákvörðunartaka ætti sér stað. Það er vegna þessa álits þeirra, sem kunnugastir eru, sem frv. gerir ekki ráð fyrir því að það sé endanlega ákveðið að ráðast í þessa virkjun, heldur heimilt. Hins vegar eru yfirgnæfandi líkur til þess að úr þessu mannvirki geti orðið. Þær athuganir, sem þegar hafa farið fram, veita sterkar líkur til þess.“

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál nú og vænti þess að ég hafi svarað fsp. hv. þm.