12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

297. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka iðnrh. fyrir svar hans. En mér fannst miður að hann skyldi aðeins lesa helminginn af fsp. minni í upphafi svars síns. Síðari helmingurinn er að mínum dómi aðalatriði málsins, hvenær virkjunin getur tekið til starfa. Við því fékkst ekkert ákveðið svar hjá hæstv. iðnrh. ég tel hins vegar nauðsynlegt að það sé knúið á um að ríkisstj. tjái hv. þingheimi, en þó sérstaklega íbúum Austurlands, hver sé stefna hennar í þessu máli, hvaða ár hefur verið sett sem markmið. Þótt það sé gott og blessað að leggja fram frv. til l. er þó höfuðatriðið hvenær þessi virkjun getur útrýmt þeim alvarlega orkuskorti sem nú er í landshlutanum. Það er gersamlega óviðunandi fyrir austfirðinga að þurfa að búa við það, hugsanlega í 6–7 ár í viðbót, að á hverju ári sé yfirvofandi stöðvun atvinnufyrirtækja og þar með atvinnu í heilum byggðarlögum vegna orkuskorts og það fólk, sérstaklega ungt fólk, sem vill hefja búsetu í landshlutanum, geti ekki gengið að því sem vísu að það geti fengið rafmagn til þess að hita upp hús sín. Ég harma það þess vegna að iðnrh. skyldi ekki taka af skarið með það, eins og Samtök sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi gerðu í þeirri ályktun, sem hann vitnaði hér til, hvenær virkjunin ætti að taka til starfa.

Bessastaðaárvirkjun er af þeirri stærðargráðu að hún mun samkv. skýrslum sérfræðinga fullnægja þörfum Austurlands jafnvel allt fram til næstu aldamóta með samtengingum við aðrar virkjanir og er þar bæði átt við orku til húshitunar og orku til starfrækslu fyrirtækja. Ég vona að hæstv. iðnrh. sýni áfram þann dugnað, sem hann hefur sýnt til þessa með því að framkvæma fyrri helminginn af ályktun austfirðinga í þessum málum, og taki einnig á næstunni undir seinni helminginn, þ.e.a.s. loforð um það að stefnt skuli að því að virkjunin taki til starfa árið 1978.