18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

84. mál, útvarpslög

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég skildi niðurlagið á ræðu hæstv. menntmrh. svo, að hann mundi ekki leggja á það ofurkapp að þetta mál yrði afgr. af menntmn. þessarar hv. d. fyrir jólaleyfi, vegna þess að hann óskaði eftir góðri samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mála á þessum lokadögum. En það er alkunn staðreynd að ekki er hægt að tryggja hér þau vinnubrögð sem þarf að hafa til að koma fram málum nema um slíka samvinnu sé að ræða. Um það getur ekki tekist nein samstaða að afgreiða þetta mál fyrir jól, þannig að ég lít svo á að hæstv. ráðh. hafi með orðum sinum hér fallist á það, ef frv. færi til n., þá muni hann ekki hafa neitt við það að athuga að n. beiti venjulegum þinglegum vinnubrögðum við afgreiðslu málsins, leiti umsagnar hjá þeim aðilum, sem vert kann að vera að leita umsagnar hjá o.s.frv.

Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh., því að vinnubrögðin í Ed. voru vægast sagt mjög óeðlileg. Þá var haldinn fundur gegn andmælum nm. sem ekki áttu þess kost að mæta. Því var neitað að senda málið til umsagnar hjá nokkrum aðila og það var afgr. frá n. þegar í stað. Þetta var til marks um mjög óeðlilega misbeitingu á valdi sem ég tel að hæstv. ráðh. eigi að forðast að beita, og ég tel það ánægjuefni að hæstv. menntmrh. virðist ekki ætla að beita sömu aðferðum hér í hv. Nd. Þetta veldur því að ég get nú stytt mál mitt allmikið frá því sem ég hafði fyrirhugað ef reynt hefði verið að troða þessu máli í gegn á óeðlilegan hátt, eins og ástæða var til að óttast. Það gefst þá tækifæri til að ræða þetta mál ítarlegar og betur að loknu jólaleyfi.

Ég átti sæti hér á Alþ. þegar útvarpslög voru sett árið 1971, og ég átti sæti í menntmn. þessarar hv. þd., þannig að ég tók þátt í störfum að þessu máli. N. starfaði ákaflega mikið að því. Hún ræddi það mjög mikið og leitaði umsagnar hvarvetna og hún lagði sem sé í það ákaflega mikla vinnu að reyna að skipa þessu máli eins vel og unnt væri. Ég get tekið undir með hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni um það atriði sem hér er deilt um, hvernig skipa eigi kosningu útvarpsráðs, að það var síður en svo að það færi hér í gegn þegjandi eða það væri ekki vakin athygli á því að þetta kynni að vera álitamál. Hv. þm. las upp úr ræðu sem þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, flutti um haustið. En málið hafði komið fyrir þingið þar á undan til kynningar og þar hafði hæstv. þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, einnig flutt ræðu, og hann gerði þá nákvæmlega það sama. Hann vakti alveg sérstaka athygli á þessu vandamáli. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa kafla úr þeirri ræðu, sem Gylfi Þ. Gíslason, hv. þm., flutti 17. mars 1970. Hann sagði þar.

„Þá eru gerðar nokkrar breyt. varðandi kjör útvarpsráðs. Eftir sem áður á það að vera kjörið til 4 ára. Í því eiga sæti 7 menn kjörnir af Alþ. eins og nú á sér stað. Skv. gildandi l. er hverju nýkjörnu Alþ. ætlað að kjósa útvarpsráð.Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að útvarpsráð sé kosið til 4 ára og sitji út 4 ára tímabilið. jafnvel þó að kosningar eigi sér stað á starfstíma útvarpsráðsins og þær kosningar hafi haft í för með sér breyttan pólitískan meiri hl. á Alþ.

Ríkisstj. taldi rétt að flytja frv. eins og n. gekk frá því þ. á m. að hafa þetta ákvæði í frv. eins og n. hafði óskað eftir að það væri. En ég vil vekja athygli hv. alþm. og þá sérstaklega þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, væntanlega hv. menntmn., á þessu ákvæði. Hér er í raun og veru um að ræða eina ákvæðið sem ég persónulega hef ekki gert upp endanlega afstöðu mína til. Mér sýnist margt benda til þess að æskilegt geti verið að halda því skipulagi sem er varðandi þetta efni, þó að ég skilji hins vegar vel það sjónarmið sem fyrir nm. hefur vakað með brtt. sinni, en það er að koma sem mestri festu á varðandi störf útvarpsráðs. Hins vegar er því ekki að leyna, að það eru líka veigamikil rök sem liggja til þeirrar skipunar sem nú er á um þetta efni, að nýkjörinn meiri hl. á Alþ. skuli eiga kost á því að kjósa stjórn jafnveigamikillar stofnunar og Ríkisútvarpið er. Það gæti haft í för með sér óþægindi fyrir báða aðila, bæði fyrir yfirstjórn Ríkisútvarpsins, þ.e.a.s. fyrir stjórn dagskrár þess, útvarpsráðið annars vegar og fyrir nýja ríkisstjórn hins vegar, ef ólíkur pólitískur meiri hl. stendur að baki hvorri stofnuninni um sig. Sérstaklega vildi ég benda á að það getur verið óþægilegt fyrir formann útvarpsráðs, sem skipaður hefur verið af menntmrh. sem kann að vera kominn frá völdum, ef hann á að halda sæti sínu eftir að nýr menntmrh. er kominn til valda sem tilheyrir öðrum pólitískum meiri hl. á Alþ. heldur en sá sem áður var skipaður.

Ég geri mér algerlega ljósa kosti og galla hvors kerfisins um sig og skal á þessu stigi ekki láta í ljós endanlega skoðun mína á þessu atriði. Ég veit að um þetta getur mönnum sýnst sitt hvað og fer ágreiningur áreiðanlega ekki eftir skipun manna í flokka, heldur mótast af öðrum ástæðum. En ég vil beina því til hv. n. að hún ræði þetta atriði sérstaklega og er fyrir mitt leyti fús til viðræðna við n. um þetta atriði eins og raunar frv. allt, ef n. kynni að óska eftir því.“

Þetta voru orð Gylfa Þ. Gíslasonar vorið 1970, og hann endurtók þetta þegar hann fylgdi málinu úr hlaði um haustið. Það fór því ekki fram hjá einum einasta hv. þm. að þarna var álitamál sem menn þurftu að taka afstöðu til. Þegar við ræddum um frv. í menntmn. ræddum við að sjálfsögðu gaumgæfilega um þetta atriði, og allir í menntmn. voru sammála um að þetta væri rétt stefna, vegna þess að hún var í samræmi við þá meginstefnu, sem kom fram í frv., að gera útvarpið sjálfstæðari stofnun en það hafði verið. Það var þá meginbreytingin með útvarpslögunum að gera útvarpið sem sjálfstæðasta og óháðasta stofnun, óháða sviptivindumstjórnmálanna,stofnun sem gæti tekið ákvarðanir sínar án þess að vera bundin af flokkspólitískum fyrirmælum. Þegar við ræddum þetta í n. kom meira að segja upp þar sú hugmynd, að það væri ástæða til þess að auka þessa óháðu skipan útvarpsráðs með því að fjölga í því. Það kom fram sú hugmynd í n. að í útvarpsráð ættu að vera 15 menn, en ekki 7, og við vorum að mig minnir í meiri hl. í n. sjálfri sem töldum þetta skynsamlega skipan. Ástæðan fyrir þessu var sú að með því að hafa fleiri menn í ráðinu var talið að hægt væri að láta fjölbreytilegri sjónarmið koma þar fram, fulltrúa fleiri skoðanahópa, að þar mættust fleiri viðhorf en ella og mismunandi sjónarmið. N. taldi sem sé, að það ætti að halda enn þá lengra á þeirri braut að gera útvarpsráð óháð heldur en n. sem frv. samdi og var afstaða hennar þó ákaflega skýr. Þetta atriði var hins vegar fellt hér á hinu háa Alþingi.

Það komu fram margar brtt. við frv. um ýmis atriði og ein veigamestu ágreiningsatriðin voru þetta, hvort útvarpsráðsmenn ættu að vera 7 eða 15, og svo hins vegar ýmis fyrirkomulagsatriði í sambandi við innheimtu afnotagjalda. Þetta voru stærstu deilumálin. En það kom ekki fram hjá einum einasta þm. sú skoðun að breyta ætti till. n. um að útvarpsráð skyldi kosið til 4 ára. Ekki einn einasti þm. kom með þá till. Ekki einn einasti þm. annar en hæstv. menntmrh., sem vakti athygli á vandamálinu, orðaði það í ræðu hér. Og núv. hæstv. menntmrh., sem þá var hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, sem ég veit að er ákaflega glöggur maður og fylgist vandlega með öllu sem gerist, greiddi atkv. með því við 3. umr. hér í Nd. Alþ. að útvarpsráð skyldi kosið til 4 ára. Hann greiddi atkv. með því við allar umr. málsins.

Ég tel nú að hæstv. ráðh. þurfi að gera dálítið ítarlegri grein fyrir skoðanaskiptum sinum en hann hefur gert. Hafi hann í raun og veru skipt um skoðun hvað þetta atriði snertir, þá hlýtur það að stafa af einhverju sem hann telur að hafi gerst eftir að þessi lög tóku gildi. Hann hlýtur að telja að eitthvað hafi gerst á þessum 3 árum sem sanni að þessi ákvörðun, sem við tókum 1971, hafi verið röng. En það hefur hæstv. menntmrh. alls ekki gert. Hann hefur ekki gert minnstu tilraun til þess. Hann hefur þvert á móti farið fögrum orðum um útvarpsráðsmenn í umr. í Ed. (Gripið fram í.) Jú, hann talaði um að þeir hefðu unnið ágætt verk og hefðu sýnt góðan vilja og hann mæti það mikils sem þeir hefðu gert. Hann hefur ekki fært nein rök að því að þessi skipan hafi gefist illa, ekki nokkur rök, og þess vegna held ég að það sé alveg einsætt að hæstv. ráðh. er ekki að segja hug sinn allan þegar hann stendur hér í ræðustól á Alþ. og færir að þessu almenn rök sem hann orðaði ekki 1971, heldur samþ. allt aðra stefnu.

Ég vil óska eftir því að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því, hvað hann telur að hafi gerst á þessum 3 árum sem sé sönnun fyrir því að einróma ákvörðun Alþ. um þetta 1971 hafi verið röng, að hann færi fyrir því málefnaleg rök því að það, sem hann sagði, var almenns eðlis. Það gat hann sagt 1971 og það hefði hann sagt ef hann hefði verið þeirrar skoðunar þá.

Auðvitað vita allir hv. þm. að það er annað sem er þarna á bak við. Það er þarna á bak við það ofstæki sem við höfum orðið mjög varir við í skrifum um Ríkisútvarpið á undanförnum 3 árum og einkanlega hefur komið fram í Morgunblaðinu. Ég hef fylgst með þessum skrifum þessi 3 ár og ég hef veitt því athygli að það er eitt sem gengur í gegnum þau eins og rauður þráður. Það er krafan um ritskoðun. Morgunblaðið hefur ekki talað um að flokkum eða sjónarmiðum væri mismunað í útvarpi, í hljóðvarpi eða sjónvarpi. Það hefur hins vegar kvartað undan því að tilteknar skoðanir fengju að koma þar fram. Það er það, sem hefur verið inntakið í allri þessari gagnrýni, krafa um að útvarpið væri ritskoðað, að það væri komið í veg fyrir að vissar skoðanir og vissir einstaklingar fengju að koma þar fram. Sumar þessar greinar hafa raunar verið þannig að þær hefðu allt eins getað birst í Pravda, kröfur um að þarna megi ekki koma fram neinar aðrar skoðanir en þær sem valdhöfum eru velþóknanlegar hverju sinni. Það er undanhald fyrir þessari afstöðu, þessari ofstækisfullu afstöðu, sem veldur þessu frv. hæstv. menntmrh. Einmitt þess vegna er þetta frv. miklu alvarlegra mál en það álitamál sem hæstv. ráðh. var að tala um hér áðan. Þetta er ákaflega alvarlegt mál, vegna þess að við íslendingar höfum af því orðið æðilanga reynslu að verstu og ofstækisfyllstu ríkisstjórnir á Íslandi eru samstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. Það er eins og þessir stóru flokkar, sem hafa margvíslega hópa innan sinna vébanda, laði fram verstu og öfgafyllstu öflin hvor hjá öðrum. Og það, sem heldur þessum flokkum oft saman þó nokkurn tíma er slíkt ofstæki. Það er að hafa völdin og að beita völdunum þannig að klekkja á andstæðingum sínum og leyfa þeim ekki að njóta almennra réttinda í þjóðfélaginu á borð við þá sem völdin hafa. Þetta einkenndi strax þessa ríkisstj. þegar hún tók við völdum.

Ég held að fyrsta till., sem kom frá ríkisstj., hafi verið brtt. frá hæstv. iðnrh. við frv. sem hér lá fyrir um verðjöfnun á raforku. Allt í einn er flutt brtt. um að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins skuli lögð niður, rekin. Nú er það svo að þessi stjórn Rafmagnsveitna ríkisins er skipuð skv. lögum til 4 ára. Meðan ég gegndi störfum iðnrh. var þar um að ræða stjórn sem hafði verið skipuð af fyrirrennara mínum í starfi. Ég leit ekki á þetta sem neina pólitíska stjórn. Þetta voru menn sem ég átti mjög auðvelt með að vinna með og vann með þeim á alveg eðlilegan hátt. Svo kom það í minn hlut á síðasta sumri að skipa nýja stjórn. Ráðh. hefur vald til að skipa tvo menn og Samband ísl. rafvirkja þann þriðja. Ég gerði þetta og leit ekki á að ég væri að skipa þar neina pólitíska stjórn heldur var það gert út frá algerlega faglegum sjónarmiðum. En einhvern veginn líkaði hæstv. núv. iðnrh. ekki að þurfa að vinna með stjórn sem hafði verið skipuð af mér, og af því er lögð fram till. um það á þingi að þessi stjórn skuli lögð niður. Þegar ég gerði aths. við þetta og benti á, hvers konar vinnubrögð væri hér um að ræða, breytti hæstv. iðnrh. um afstöðu, breytti till. sinni þannig að bæta tveimur mönnum inn í stjórnina til þess, eins og hann sagði, að geta komið í hana tveimur sjálfstæðismönnum.

Þetta er nákvæmlega sama fyrirbæri og nú er að gerast í sambandi við útvarpsráð. Það er þessi árátta að vilja beita valdi, að þola ekki þá, sem séu annarrar skoðunar, í þjóðfélaginu, að vilja beita valdi og hrinda mönnum brott ef þeir hafa einhverjar skoðanir sem eru vanþóknanlegar í augum þessara manna. Þessi viðhorf þekkjum við úr Sjálfstfl., og við vitum að þar er öfgaarmur sem er ákaflega hávær og mótar einkanlega skrif Morgunblaðsins. Sem betur fer á þetta engan veginn við um Sjálfstfl. sem slíkan, þaðan af síður kjósendur hans, en þessi öfgaarmur er ákaflega sterkur í flokknum og hann fær oft tækifæri til þess að stjórna, kannske þvert gegn vilja ýmissa betri manna í flokknum.

En það hefur raunar gerst annað sem ég hygg að hafi áhrif á hæstv. menntmrh. Annar sá sem kjörinn var í útvarpsráð af hálfu Framsfl., Ólafur Ragnar Grímsson prófessor, hefur, eftir að hann var kjörinn í útvarpsráð, breytt um flokk. Hann gekk í annan flokk og var í framboði fyrir þann flokk, meira að segja í sama kjördæmi og hæstv. menntmrh., og ég hygg að það sé þetta sem veldur því að hæstv. menntmrh. getur ekki unað því að þessi maður sitji áfram í ráðinu. Nú tel ég þetta líka vera afar lágkúrulega afstöðu. Ég vil minna hæstv. menntmrh. á það að skv. stjórnarskránni er honum tryggður sá réttur að fylgja samvisku sinni og skoðunum hvað sem kjósendur hans segja. Þó að þessi hæstv. ráðh. breytti flokkslegri afstöðu sinni og gengi í einhvern annan flokk, t.d. þann flokk sem hann vinnur með núna, þá eru engin rök fyrir því að hann ætti að víkja af þingi, síður en svo. Það er tryggt að hann á sæti hér á alþingi, vegna þess að það er talinn siðferðilegur réttur hans að framfylgja eigin skoðunum. Ég held að hæstv. menntmrh. ætti að geta skilið að aðrir menn, einnig utan Alþ., eiga að geta haft sama siðferðilega rétt, og hann eigi ekki að láta afstöðu sína til starfa manna í stofnunum mótast af því hvort þeir eru í flokki hans eða hafa gengið úr honum. Mér finnst það vera ákaflega lítilmótleg afstaða og satt að segja er hún ákaflega ólík því sem ég hef átt að venjast af þessum hæstv. ráðh. Mér finnst þetta vera ákaflega ólíkt honum, En það eru ekki neinar aðrar hvatir sem þarna geta legið á bak við, eins og ég rakti í upphafi.

Hæstv. ráðh. var að tala áðan um að það væri tómt mál að tala um að ætla að útiloka áhrif stjórnmála í stofnun eins og útvarpsráði. Auðvitað er tómt mál að tala um það. Stjórnmál ná til allra þátta þjóðlífsins. Það er ekki til neinn ópólitískur maður. Það er ekki þar með sagt að allir menn séu í stjórnmálaflokkum eða þeir kæri sig um að vera það. En viðhorf manna til tilverunnar, það er pólitík. Og það liggur í hlutarins eðli, að þeir menn, sem í útvarpsráði eru, hafa pólitíska afstöðu. Það er ekki þar með sagt að hún sé flokkspólitísk. Og ætlunin með lögum um útvarpsráð var einmitt sú að koma í veg fyrir að ráðið starfaði sem einhver framlenging á stjórnmálaflokkunum. Það var það sem menn vildu ekki una lengur. Menn þekktu orðið slíkt tímabil í æðilangan tíma, þegar útvarpsráðsmenn voru kallaðir varðhundar flokkanna. Það var sem betur fer að slakna á því viðhorfi, einmitt þegar þetta frv. um útvarpsráð var flutt. Það er alveg rétt sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson gat um. Á þessu var að verða breyt., ekki síst fyrir tilstilli hv. þm. Benedikts Gröndals. Slík þróun hafði verið að gerast þar á undan, og þessi löggjöf um útvarpið var beint áframhald á henni. Andrúmsloftið var þannig að alþm. allir og þ. á m. hæstv. núv. menntmrh. greiddu atkv. með þessu vegna þess að þeir vildu þetta aukna sjálfstæði. Það fór ekki fram hjá neinum að þetta gat gengið á misvíxl við skipan Alþ. hverju sinni meira að segja svo mikið að það gat hist þannig á að allt að því heilt kjörtímabil væri um að ræða útvarpsráð, sem hefði verið kosið af öðrum meiri hluta en færi með stjórn í landinu. Þetta vissu allir þm., hver og einn einasti. En menn ákváðu þetta samt. Ég vil vara ákaflega mikið við því að menn fari þarna að taka upp afturhaldsstefnu. Víð höfum reynslu af slíkri stefnu og ég held hún sé öllum til óþurftar. Og ég held að það yrði okkar þjóðfélagi til mikils ófarnaðar ef Sjálfstfl. og Framsfl. ætluðu að fara að byggja upp einhverja slíka ofstækisstefnu í samstarfi sínu.

Ég vil segja hæstv. menntmrh. það, að við þm. skröfum oft saman hér í hliðarsölum og erum þá stundum hreinskilnari hver við annan en við erum þegar við stöndum hér í ræðustól. Ég hef talað við æðimarga þm., bæði úr Sjálfstfl. og Framsfl., um þetta frv., og ég er alveg sannfærður um það eftir þessar viðræður við þm. að meiri hl. alþm. er á móti þessari breyt. Ég er alveg sannfærður um það að meiri hl. alþm. er í hjarta sínu á móti þessari breyt. Vandinn er bara sá að þeir, sem eru viðsýnni og hófsamari, bæði í Framsfl. og í Sjálfstfl., láta ofstækisöflin ráða ferðinni. Þeir beygja af, þeir láta undan. Ef menn gætu greitt hér atkv. á frjálslegan hátt án flokksfyrirmæla, þá er ég viss um að þetta frv. yrði fellt. Ég held að þessi öfl, bæði í Framsfl. og Sjálfstfl., þessi hófsamari öfl eigi að vara síg á því að láta ekki undan ofstækisviðbrögðum af þessu tagi, því að ef menn byrja að láta undan á þessu sviði getur eftirleikurinn orðið óvandari.

Ég ætla nú ekki að lengja þessa ræðu mína af ástæðum sem ég gat um áðan. Þetta mál kemur hér til umr. eftir jólaleyfi, og þá vona ég að menn hafi íhugað ráð sitt betur en menn gerðu með hinni annarlegu afgreiðslu í Ed., og raunar held ég að það yrði mildilegast fyrir hæstv. menntmrh. — og ég vil gjarnan að um hann sé farið mildum höndum — að málið verði látið sofna svefninum langa í menntmn. Nd.