18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

84. mál, útvarpslög

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum reis hér á landi upp sterk hreyfing gegn hinu svokallaða flokksræði í landinu. Sú hreyfing átti sér mikil ítök meðal yngra fólks og náði reyndar mjög langt inn í raðir stjórnmálaflokkanna sjálfra. Þeir fundu að þeir gátu einangrast og rofnað úr tengslum við almenningsálitið og þjóðarvilja, nema þeir kæmu að einhverju leyti á móts við ný viðhorf og breyttar hugmyndir um stjórnmálaafskipti. Æ fleira fólk og þá einkum yngra fólk er óflokksbundið og þetta fólk gerir þá kröfu til opinberrar stjórnsýslu og stjórnkerfisins yfirleitt að allir fái þar réttláta og eðlilega afgreiðslu erinda sinna án tillits til stjórnmálaskoðana. Ungt fólk hafnaði þeirri ríkjandi reglu að stofnunum og stöðum væri misbeitt af pólitískri þjónkun.

Innan stjórnmálaflokkanna var reynt að mæta þessum viðhorfum með því að taka upp prófkjör og virða rétt minni hluta hópa í kosningum innan flokkanna og taka til greina ýmsar aðrar hugmyndir sem drógu úr miðstjórnarvaldi og alræði fámennrar flokksstjórnar. Út á við gerðu flokkarnir sér jafnframt far um að haga sér í samræmi við tíðarandann og létu að því leyti a.m.k. í orði kveðnu undan almenningsálitinu. Í þessu sambandi er vert að minna á, að til þess að draga úr áhrifum stjórnmálaflokkanna vildu margir ganga svo langt að fela öðrum en Alþ. rétt til að kjósa eða tilnefna menn í opinber ráð og n. Þessum sjónarmiðum hefur þó verið hafnað af flestum, enda ekki gott að sjá að frekari trygging sé fyrir lýðræðislegum og réttlátum vinnubrögðum enda þótt skipunar- eða ráðningarvald færist í hendur embættismanna eða starfsmanna viðkomandi stofnana.

Þrátt fyrir allt hefur Alþ. og alþm. aðhald frá þjóðinni og frá umbjóðendum sínum. Þess vegna er sú regla almennt viðurkennd í þessu máli, sem hér er á dagskrá sem öðrum hliðstæðum að Alþ. kjósi menn í ráð og nefndir. Ég held að um þetta sé nokkuð gott samkomulag þó að ekki væri af öðru en því að enginn getur bent á öruggara eða æskilegra form í staðinn til þess að gæta lýðræðisins. En þá hafa menn jafnframt í huga eð Alþ. og flokkarnir geta auðvitað valið menn til slíkra trúnaðarstarfa í fullri vitund og vilja um að þeir störfuðu sjálfstæðara og létu ekki pólitískar skoðanir ráða gerðum sínum og ákvörðunum.

Breytingar í þessa átt, að draga úr beinum og nánum áhrifum flokkanna, þjóna tvennum tilgangi. Stjórnir einstakra stofnana og ráða verða minna tortryggilegar í augum þeirra einstaklinga sem þangað þurfa að sækja. Í öðru lagi losaði það flokkana við þau óþörfu og óæskilegu afskipti og ákvarðanir sem þeir og aðrir eru farnir að telja sér trú um að þeir einir geti tekið. Almenningur hefur verið alinn upp í þeirri trú og stjórnmálamenn hafa ýtt undir það álit að enginn geti sótt um bankalán og húsnæðismálalán eða opinbera fyrirgreiðslu yfirleitt nema með liðstyrk stjórnmálamanna. Slíkur hugsunarháttur er bæði pólitískt og siðferðilega rangur og alþm., og aðrir þeir sem við stjórnmál fást eiga að sameinast í því að uppræta þennan hugsunarhátt.

Eitt afsprengi þeirrar hreyfingar, sem ég hef gert að umtalsefni og ég held að hafi verið forsendan fyrir lögunum 1971, var breytingin sem gerð var á útvarpslögum. Röksemdirnar fyrir breytingunum 1971 voru, eins og hér hefur verið rakið, einmitt þær að útvarpið skyldi gert sjálfstæðara, óháðara stjórnmálaflokkunum og létt væri af þessari stofnun oki, ef svo má að orði komast, flokksræðis og pólitískrar þjónkunar. Það var ekki gert og verður ekki gert með því að afnema að Alþ. kjósi útvarpsráð, heldur með því að miða kosninguna við annan tíma en almennar þingkosningar, og var þá ætlunin að rjúfa með því tengslin milli þessara tvennu kosninga. Ég fyrir mitt leyti man eftir þessum umr. og þessari lagabreytingu og var hlynntur henni og er enn efnislega hlynntur þeirri viðleitni sem þarna var á ferðinni.

Í þessu sambandi gera menn mikið veður út af tímasetningu kosninganna, og hæstv. menntmrh. er núið því um nasir að hann hafi breytt um skoðun af því að hann er nú að gera till. um aðra tilhögun á tíma þessara kosninga. Mér finnst það atriði, tími kosninganna til útvarpsráðs, ekki skipta neinu verulegu máli og auðvitað var hann ekkert aðalatriði í þeim lagabreyt. sem gerðar voru 1971. Aðalatriðið í þeim breyt. var nefnilega þetta, sem ég hef reynt að leiða rök að, sá skilningur og sá vilji að útvarpsráð yrði sjálfstæðara og óháðara sviptivindum stjórnmálanna, eins og hér var tekið til orða áðan.

Það var ástæða til að ætla að því hugarfari, sem lá að baki þessarar lagabreyt., yrði fylgt eftir og að það fengi aukinn byr vegna þess að einn flokkurinn, sem átti aðild að fráfarandi ríkisstj., Samtök frjálslyndra og vinstri manna, gekk til kosninga og gekk til stjórnarsamstarfs undir því aðalkjörorði að berjast gegn flokkspólitískri misbeitingu í þjóðfélaginu. Það runnu því sannarlega tvær grímur á fjölmarga þegar sá flokkur hóf valdaferil sinn á ,síðasta kjörtímabili með því að leggja hér fram frv. sem gekk í þveröfuga átt. Og það er broslegt að heyra fulltrúa þessa flokks og fulltrúa núv. stjórnarandstöðu, sem áttu aðild að þáv. stjórn, tala með siðgæðissvip á andlitinu um að hér sé um siðleysi að ræða þegar þetta frv. er lagt fram, vegna þeirrar staðreyndar að eitt þeirra fyrsta verk var að leggja fram frv. um breyt. á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Það frv. fól það eitt í sér að breyta skipan stjórnar þeirrar stofnunar. Það hafði engan annan tilgang. Því var lýst yfir af þáv. ráðh. að þetta væri tilgangur frv. Og það er minnisstætt fyrir þá sem þá voru á þingi að það var einmitt á sama tíma, rétt fyrir jólin eða rétt fyrir þinghlé, sem það mál var keyrt í gegn af ofurkappi, og þáv. stjórnarandstaða var neydd til þess að halda uppi málþófi til þess að benda á þessa staðreynd. Þetta frv. var frægt fyrir það að þáv. félmrh. var að koma sinum pólitísku „þuklurum“ að, í Húsnæðismálastofnun ríkisins, og var auðvitað ekkert annað en pólitískt siðleysi.

Ég held að það sé hollt að rifja þetta upp vegna þess málflutnings og þeirra umr., sem hér hafa faríð fram, og vegna þeirrar tilraunar núv. stjórnarandstöðu að sverta þetta mál og hefja sig sjálfa upp til skýjanna í ljósi pólitísks siðgæðis. — Þær umr., sem áttu sér stað um lagabreyt. á Húsnæðismálastofnun ríkisins, opinberuðu og undirstrikuðu að það væru réttmætar ásakanir þáv. stjórnarandstöðu að með því frv. var verið að ýta undir flokksræði. Því miður var verið að ýta undir flokksræði og ganga þvert gegn yfirlýstri stefnu a.m.k. eins stjórnarflokksins þáv. og gegn þeirri stefnu sem ég fyrir mitt leyti var hlynntur og held að hafi verið vilji Alþ., að reyna að minnka áhrif flokkanna í hinum ýmsu stofnunum í þjóðfélaginu.

Ég held því miður að sá hávaði, sem orðinn er út af þessu máli nú, og það málþóf, sem hótað er að hafa í frammi hér, stafi ekki af vilja núv. stjórnandstöðu til þess að gæta pólitísks siðgæðis, heldur þvert á móti til þess að vernda pólitísk áhrif sin á þessum vettvangi.

Þrátt fyrir þessa slæmu reynslu gerðu menn sér jákvæðar vonir hvað snertir útvarpið og útvarpsráð. Í útvarpsráð höfðu valist árið 1971 að meiri hl. til ungir og menntaðir menn sem höfðu nýjar hugmyndir og vorn, þegar þeir voru kjörnir í útvarpsráð, málsvarar þeirrar hreyfingar sem áður er um getið og vildi veita flokksræði og valdi flokkanna víðnám. Það var ástæða til að halda að þeir yrðu sjálfum sér samkvæmir og fylgdu fram þeirri stefnu sem mörkuð var með lagabreytingunni 1971. Forusta þeirra í útvarpsráði var prófsteinn á réttmæti þessara sjónarmiða og að því leyti báru þeir ábyrgð, ekki gagnvart flokkum eða stjórnmálaskoðunum, heldur gagnvart þeim eindregna vilja alls þorra manna að opinberar stofnanir eins og útvarpið væru hafnar yfir flokkadrætti, pólitíska hlutdrægni og ívilnun til handa einstaklingum með hliðsjón af stjórnmálaskoðunum þeirra. Ég er þeirrar skoðunar að það útvarpsráð, sem nú situr hafi margt vel gert. Það hefur gert heiðarlega tilrann til að breyta dagskránni og gert hana að mörgu leyti lífrænni og þróttmeiri. Hvort það er beinlínis verk þessa útvarpsráðs eða eðlileg afleiðing tíðarandans, það læt ég liggja milli hluta, en staðreyndin er sú að útvarpið hefur farið frjálslega með efnið og bryddað upp á nýjungum, og það er virðingarvert.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli og ég hef mjög velt þeim fyrir mér, og ég skal játa að ég var lengi að taka afstöðu til þess hvort rétt væri að breyta útvarpsráði nú eða ekki. Ég tel mig ekki í hópi öfgamanna eða ofstækismanna í í Sjálfstfl. Ég held reyndar að slíkir menn séu ekki til í þeim flokki, en ég tel mig ekki í hópi neinna öfgamanna né neinna ofstækismanna. Samt er ég stuðningsmaður þessa frv. Ég mótmæli því að þetta frv. feli í sér ofstækisstefnu eða afturhaldsstefnu, og ég vil leyfa mér að útskýra það með nokkrum orðum.

Það er sagt að núv. útvarpsráð hafi rekið einhverja frjálslyndisstefnu og þetta sé stórkostlegt útvarpsráð af því það sé svo frjálslynt. En það að vera frjálslegur í efnisvali og efnismeðferð er ekki það sama og vera málefnalega frjálslyndur, og það að vera vinstri sinnaður í útvarpspólitík er ekki að vera frjálslyndur í hugsun. Á þessu getur verið reginmunur. Frjálslyndi hef ég alltaf skilið svo að það feli í sér umburðarlyndi og viðsýni. En það verður því miður ekki sagt um meiri hl. útvarpsráðs að það búi yfir þeim eiginleikum. Það er mitt mat og það er reyndar mat fjölmargra, að afskiptasemi og fordómar þessa meiri hl. gagnvart vissum skoðunum hafi verið með ólíkindum og yfirlæti þess og valdbeiting er með endemum. Ég vil ekki nefna útvarpsráðsmenn ofstækismenn, enda þótt að slík orð séu notuð um aðra í þessum umr. Ég frábýð mér yfirleitt að nota svo stór orð, og ég held satt að segja að það séu afar fáir íslendingar sem séu ofstækismenn. En meiri hl. þessa útvarpsráðs hefur því miður verið fullur af fordómum og sýnt af sér hlutdrægni í starfi. Ég held að menn eigi ekki að vera með neina tæpitungu í þessu máli. Meiri hl. útvarpsráðs hefur misnotað aðstöðu sína bæði leynt og ljóst. Hann hefur misnotað aðstöðu sína með því markvisst að troða inn á hlustendur og áhorfendur efni sem hann hefur haft pólitíska velþóknun á. Ráðið hefur ekki gætt jafnvægis í efnisvali og það hefur gefið starfsmönnum áminningar vegna fréttaefnis og fréttaskýringa sem því hefur ekki líkað af pólitískum ástæðum. Allt þetta eru staðreyndir. Það hefur lagt blessun sína yfir pólitískan áróður í ólíklegustu þáttum, og það hefur storkað svo hlutleysiskennd almennings að hvorki almenningur né starfsmenn útvarpsins hafa getað við það unað. Það þarf t.d. meira en lítið til að sá friðsemdarmaður sem útvarpsstjóri er kalli meiri hl. útvarpsráðs umhverfisvandamál, eins og hann hefur gert í opinberum yfirlýsingum. Og það þarf meira en lítið til þegar starfsmenn þessarar sömu stofnunar hafa séð sig tilknúna að neita að mæta á fundum í mjög langan tíma hjá útvarpsráði.

Nú vil ég taka fram að ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að pólitískt efni sé flutt í útvarpi og að þar komi fram ólík sjónarmið. Útvarpið á að vera opið fyrir öllum sjónarmiðum, jafnvel pólitískum áróðri í ólíklegustu þáttum. En það verður að gæta jafnréttis og jafnvægis í því að slík sjónarmið heyrist, ekki þannig að það vegi mjög svo einhliða á einn veg. Þetta er kjarni málsins.

Það er deilt um hvort útvarpsráð eigi að vera pólitískt eða ekki pólitískt. Ef útvarpsráð er pólitískt og menn vilja hafa það pólitískt, þá þarf enginn að hneykslast á því hér á Alþ. þó að fram sé borið frv. sem hér er á dagskrá. Það er ekkert óeðlilegt að nýr meiri hl. og ný ríkisstj. vilji koma þeim mönnum frá, sem vinna gegn henni, eða koma sínum mönnum að hjá viðkomandi stofnunum ef stofnunin er pólitísk og viðurkennd sem slík. Ef við hins vegar föllumst á hin rökin sem ég aðhyllist, að útvarpsráð og útvarpið eigi að vera sem mest ópólitískt og þá á ég við flokkspólitískt, að það sé sem minnst í tengslum við flokkana, þá á það auðvitað ekki að misbeita áhrifum sinum, þ.e.a.s. meiri hl. útvarpsráðs eða flokkarnir eiga ekki að misbeita áhrifum sinum og aðstöðu sinni þannig að það misbjóði réttlætiskennd og hlutleysiskennd almennings. Það er mitt mat að núv. útvargsráð, og þá á ég við meiri hl. útvarpsráðs, hafi gert þetta.

Ég held að þetta sé mergurinn málsins, og við eigum ekkert að vera að fara í kringum hann. Meiri hl. útvarpsráðs hefur ekki staðist það próf sem fyrir hann var lagt. Það hefur ekki starfað í anda þeirrar lagasetningar sem gerð var 1971, og því miður hefur meiri hl. þessa útvarpsráðs spillt fyrir þeirri hreyfingu sem þá var uppi, þeirri hreyfingu sem vildi gera útvarpið sjálfstæðara og óháðara flokksræðinu og pólitískri misbeitingu. Þessa sögu verður að segja eins og hún er. Það hefur engum manni dottið í hug að breyta skipan útvarpsráðs frekar en öðrum stjórnum opinberra stofnana fyrr en lög segja til um, nema af því að útvarpsráð sjálft hefur kallað á þessa breytingu.

Þessi lagabreyt. er að mínu áliti gerð til að eyða þeirri misnotkun sem í útvarpsráði hefur viðgengist, en ekki til að leyfa öðrum mönnum eða öðrum flokkum að beita slíkri misnotkun. Ég styð þessa lagabreytingu vegna þess að ég tel hana gerða til þess að útiloka slíka misbeitingu. Ég vil ekki að útilokaðar séu einhverjar skoðanir eða þar fari fram ritskoðun. Ég vil ekki að mönnum eða málefnum sé mismunað. Ég vil ekki að afturhald, öfgar haldi innreið sína í útvarpið. Þessi breyting er að mínu viti gerð til þess að hrinda fram þeirri stefnu sem Alþ. aðhyllist. Og þessi lagabreyting stuðlar vonandi að því að menn skilji að útvarpsráð verður aðhafa til að bera þroska og frjálslyndi til að láta öll sjónarmið koma fram og líta ekki á sig sem pólitíska varðhunda.

Útvarpið á að upplýsa, en ekki að innræta, og það á að kynna skoðanir, en ekki boða þær. Ég legg því ekki mest upp úr þeim rökstuðningi, sem fram hefur komið hér í framsögu og umr. um þetta mál, að útvarpsráð eigi að vera skipað í réttu hlutfalli við hlutföllín á þingi, að það eigi endilega að vera spegilmynd af flokksstyrkleik á Alþ. Minn rökstuðningur er sá að það eigi að vera stefna Alþ. að gera útvarpið óháðara, frjálslynt og viðsýnt. Og Alþ. á að sameinast um að hefja útvarpið upp yfir flokkadrætti og þar sé gætt jafnvægis og jafnréttis. Þeir menn, sem meiri hl. skipa núna, hafa ekki reynst þess megnugir að fylgja þessari stefnu fram og því þarf að setja nýja. Og þá kemur mér ekkert við hvort þeir heita framsóknarmenn, sjálfstæðismenn eða alþýðubandalagsmenn, svo framarlega sem þeir eru sammála mér í þessari hugsun. Af þessum ástæðum styð ég þetta frv.