18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

84. mál, útvarpslög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Með því frv. til l., sem hér er lagt fram, er verið að gera tilraun til þess að breyta l. sem samþ. voru um útvarpið fyrir aðeins 3 árum. Ég ætla ekki að fara út í að rekja þróun útvarpslöggjafar á Íslandi. Ég vísa aðeins til þess sem sagt var í grg. með frv. til útvarpslaga sem lagt var fyrir Alþ. á 91. löggjafarþingi þess árið 1970 og samþ. var á því þingi árið 1971. Ég vil aðeins taka það fram að lagafrv. þetta, sem samþ. var á 91. löggjafarþinginu, var upphaflega lagt fyrir Alþ. árinu áður, þannig að þegar Alþ. samþ. frv. hafði það haft frv. til athugunar á tveimur þingum. Þannig höfðu alþm. haft meira en nógan tíma til að gera sér ljóst hvað fólst í þeirri stefnubreytingu sem var verið að gera í málefnum útvarpsins með samþykkt þessa frv.

Ég vil einnig taka það fram, að þeir, sem frv. þetta sömdu, voru 3 menn: þeir Andrés Björnsson útvarpsstjóri, þaulreyndur útvarpsmaður, Benedikt Gröndal form. útvarpsráðs um margra ára skeið, einnig þaulreyndur útvarpsmaður, og dr. Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari. Þeir, sem sömdu þau lög sem nú er verið að gera tilraun til breytingar á, voru menn sem töluðu af mikilli reynslu og mikilli þekkingu.

Þá má spyrja hverjar þær aðalbreytingar voru sem samþ. voru með samþykkt frv. til útvarpslaga á 91. löggjafarþinginu árið 1970. Meginbreytingin frá eldri lögunum kemur fram strax í 1. gr. þessa frv. þar sem segir: „Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins.“ Enn fremur er tekið fram í aths. við lagafrv. þetta, þar sem upp eru taldar helstu breytingar

í frv. frá gildandi l., þá er fyrst áhersla lögð á það af flm. frv. að meginbreytingin sé sú að verið sé að gera Ríkisútvarpið að sjálfstæðri stofnun.

Í grg. með þessu frv. er nánar um þetta fjallað. Þar segir svo um 1. gr., með leyfi forseta: „Ríkisútvarpið er skv. þessari gr. gert að sjálfstæðri stofnun í eigu íslenska ríkisins. Það heyrir þó að sjálfsögðu stjórnarfarslega undir menntmrn., eins og fram kemur á viðeigandi stöðum í hinum ýmsu gr. frv. Sú skoðun er mjög útbreidd bæði hér á landi og í öðrum lýðræðisríkjum að áhrifamikil menningarstofnun eins og ríkisútvarp eigi að vera sem sjálfstæðust, en megi ekki mótast af dægurbaráttu um stjórn landsins.“

Síðan er vitnað í útvarpslög ýmissa nálægra landa, svo sem í dönsk útvarpslög, norsk útvarpslög og sænsk útvarpslög, sem öll ganga í þá átt að gera útvarpið að sjálfstæðri stofnun sem sé sem óháðust dægurbaráttu um stjórn landsins. — Þetta er meginbreytingin sem gerð er í l. frá 1971, og þetta er sú meginbreyting sem verið er að reyna að hnekkja nú.

Það gefur auga leið að það kemur til með að ráða miklu um útvarpsreksturinn og sjálfstæði útvarpsins hvernig því er stjórnað og þá fyrst og fremst hvernig því er stjórnað af útvarpsráði sem á að vera yfirstjórn dagskrárgerðar og bera ábyrgð á henni í heild. Um þetta eru nákvæm fyrirmæli í gildandi lögum.

Þá er einnig í grg. með frv. rakin þróun kosninga útvarpsráðs og komist að þeirri niðurstöðu að sá háttur, sem hafður hafi verið á upp á síðkastið, þ.e.a.s. að Alþ. kjósi útvarpsráð, sé sá háttur sem reynslan hafi sýnt að hafi best gefist. En það er einnig tekið skýrt fram í gildandi lögum hvert hlutverk útvarpsráðsins skuli vera. Segir m.a. svo í 3. gr. að útvarpið eigi að miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs svo og við þarfir og óskir minni hl. sem meiri hl. Þá er einnig þess getið sérstaklega í aths. við frv., við þennan líð, hvernig útvarpsráðið eigi að sinna þessari skyldu sinni. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Í 2. málsgr. er svo kveðið á að útvarpsefni skuli miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs þannig að sérstakt tillit sé tekið til tungu og menningararfs hinna dreifðu byggða, ólíkra atvinnuvega og alþýðumenntunar. Miða skal og við þarfir og óskir minni hl. sem meiri hl., og er því fyrir það girt að höfðatöluregla verði ein allsráðandi um efnisval, enda er margt hið besta efni sniðið fyrir takmarkaða hópa landsmanna.“

Þetta segir í aths. við 3. gr. í grg. með frv., svo að það fer ekkert á milli mála hvað Alþ. var að gera þegar það samþ. þessi útvarpslög eftir að hafa athugað frv. um þau á tveimur þingum.

Það hefur komið fram hér nokkur gagnrýni á það að útvarpsráð skuli, eins og tekið hefur verið til orða, ritskoða dagskrárefni. Í mínum huga er hlutverk útvarpsráðs það sama og hlutverk ritstjóra á dagblaði. Útvarpsráð á að sjálfsögðu að velja og hafna. Útvarpsráð á að sjálfsögðu að ritstýra sinni stofnun. Menn geta kallað það ritskoðun ef þeir vilja, en það er meginhlutverk útvarpsráðs að velja og hafna úr dagskrárliðum, gera athugasemdir við það, sem það telur miður fara, og hvetja til þess, sem það vill að betur verði gert. Ég tel rangt að kalla slíkt framferði ritskoðun. Þetta er eðlilegt viðfangsefni útvarpsráðs.

Með því frv. til l., sem hér liggur fyrir til umr., er gerð tilraun til þess að hreyta aftur í sama gamla farið, hverfa aftur til fortíðarinnar, hnýta Ríkisútvarpið enn meir og enn aftur við flokkapólitík hvers tíma eins og hún kemur fram í þingmeirihluta og þingminnihl. Hver er ástæðan fyrir því að á að gera þetta nú? Sumir segja að ástæðan sé sú gagnrýni sem komið hefur fram á núverandi útvarpsráð og störf þess. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson benti á það í ræðu sinni í Ed. um þetta mál að þriggja ára reynsla af einu útvarpsráði væri ekki næg til þess að skera úr um reynslu af því grundvallaratriði sem markað var í útvarpslögunum er sett voru á 91. löggjafarþinginu 2971.

Það hefur yfirleitt reynst svo, að hvernig sem útvarpsráð hefur verið skipað hefur það mátt þola gagnrýni. Menn eru ávallt mannlegir, menn velja og hafna eftir sinum skoðunum. Þannig er um okkur alla, þannig er líka um útvarpsráð, og ég man ekki til þess að ekki hafi verið deilt meira eða minna um úrskurði og um störf útvarpsráðs án tillits til þess hverjir þar hafa setið.

Þá er einnig sagt að minnihlutahópum sé gert of hátt undir höfði í Ríkisútvarpinu. Það er sagt að þar gæti of vinstri sinnaðra sjónarmiða. Ég vit leyfa mér að benda á það, að eftir 3 ára setu þessa útvarpsráðs, sem svo mjög er átalið fyrir að vera að ala landslýðinn upp í of vinstri sinnuðum skoðunum, vann Sjálfstfl. sinn mesta kosningasigur um margra ára bil. Ég er því hræddur um að reynslan af starfi útvarpsráðs að þessu leytinu til sé svolítið öfug við það sem þeir ágætu sjálfstæðismenn halda fram. Ég vil skjóta því að þeim ágætu sjálfstæðismönnum, að vel má vera að ef þeir fá útvarpsráð sem rekur kannske þá stefnu sem þeir heldur kysu, þá kynni svo að fara að það reyndist þeim ekki jafngott veganesti í kosningabaráttuna og núv. útvarpsráð hefur reynst þeim.

Þótt vera kunni að einhver mistök hafi verið gerð af útvarpsráði því, sem nú situr, þá réttlæta þau ekki að gerð sé sú stefnubreyting sem ráð er fyrir gert í frv. því til l. sem hér liggur fyrir. Þau réttlæta það ekki að eftir aðeins 3 ára reynslu af Ríkisútvarpinu sem sjálfstæðari stofnun en það hefur áður verið sé aftur horfið til hins gamla tíma, enda býður mér í grun að stefnubreyting sú, sem hér um ræðir, sé ekki megintilgangurinn með flutningi þessa frv. Ég tel að tilgangurinn sé frekar sá að fá færi á því að skipta um þá einstaklinga, sem nú sitja í útvarpsráði, og setja aðra í staðinn. Stefnubreytingin sé hins vegar notuð sem ástæða til þess að geta gert þetta nokkrum mánuðum eða einu ári fyrr en ella hefði gefist tækifæri til. Ég tel og ég er sannfærður um að núv. hæstv. ríkisstj. eigi lengri setu fyrir höndum en aðeins eitt ár, og ég held að það mundi ekki skaða hana, hvorki varðandi aðstöðu hennar til að koma sínum skoðunum á framfæri né heldur í áliti almennings, þótt hún biði rétts tíma til að skipta um þá menn í útvarpsráði sem hæstv. ríkisstj. líkar ekki við.

Því hefur verið haldið fram að ástæðan til þess, að þetta frv. sé lagt fram nú, sé sú, að útvarpsráð eigi ávallt að vera sem nánust og sem gleggst spegilmynd af Alþ. því sem situr hverju sinni, Þetta er rangt. þetta er ekki tilgangurinn. Tilgangurinn er sá að útvarpsráðið verði spegilmynd af þeirri ríkisstjórnarsamsetningu sem á hverjum tíma er. Lítill flokkur, sem situr í ríkisstj., getur fengið fulltrúa í útvarpsráði skv. þessari tilhögun, þótt hann geti ekki fengið hann ef hann situr í stjórnarandstöðu, vegna þess að þingstyrkur hans er ekki nægilegur. Þá er spurning, fyrst þetta er tilgangurinn, að meiri hl. útvarpsráðs eigi að vera skipaður eins og ríkisstj., er þá ekki rétt að stíga sporið til fulls og láta ríkisstj. hreinlega skipa útvarpsráð án þess að Alþ. komi þar nokkuð nálægt?

Ef það er rétt að útvarpsráð eigi að vera spegilmynd af Alþ., þ.e.a.s. það eigi að skipa útvarpsráð að nýju eftir hverjar kosningar, hvað þá um aðrar n. sem Alþ. kýs? Á ekki sama lögmál að gilda um þær líka? Á hinu háa Alþ. hefur verið dreift bæklingi sem heitir „Stjórnir, nefndir og ráð ríkisins árið 1973“. Í lauslegri samantekt minni kemur í ljós að þar eru alls 34 stjórnir, nefndir og ráð sem Alþ. kýs, 34 með útvarpsráði, 33 fyrir utan útvarpsráð. Ef á að taka upp þann sið að sérhvert nýtt Alþ. eða jafnvel sérhver ný ríkisstj. velji sér sinn meiri hl. í útvarpsráði, á þá ekki sama lögmál að gilda um hinar 33 n. sem eins eru kosnar? Ég vil nefna nokkrar n. í þessu sambandi. Hvað t.d. um stjórnarskrárnefnd, hvað um byggðanefnd, hvað um stjórn Viðlagasjóðs. Eru þetta ekki valdamiklar stofnanir í þjóðfélaginu? Er þá ekki jafnrík ástæða til þess, ef ástæða er til þess að ríkisstjórn hafi meiri hl. í útvarpsráði, að hún hafi líka meiri hl. í þessum þýðingarmiklu stofnunum? Hvað um bankaráð Búnaðarbanka Íslands, sem einnig er kosið af Alþ. til 4 ára? Væri ekki rétt þá líka, til þess að samræmi væri í stefnunni, að breyta l. um Búnaðarbanka Íslands þannig að bankaráðið beri að kjósa af hverju nýju Alþ. eða skipa af hverri nýrri ríkisstjórn? Hvað um húsnæðismálastjórn? Það er þýðingarmikil stofnun, sem hefur mikil áhrif í samfélaginu. Er ekki nauðsynlegt að sama regla gildi um húsnæðismálastjórn og á að gilda um útvarpsráð? Hvað um tryggingaráð? Er ekki nauðsynlegt að gera sams konar breyt. gagnvart því? Hvað um stjórnir eins og stjórn Kísiliðjunnar, stjórn Sementsverksmiðju ríkisins, orkuráð og stjórn Landsvirkjunar? Allar eru stjórnir þessara stofnana kosnar af Alþ. eins og útvarpsráð. Ef ríkisstj. telur nauðsynlegt að tryggja sér ávallt og á öllum tímum hreinan meiri hl. í útvarpsráði, þarf hún þá ekki líka að tryggja sér með sama hætti öruggan meiri hl. í stjórnum þessara stofnana? Hvað um bankaráð Seðlabanka Íslands? Hvað um bankaráð Landsbanka íslands? Hvað um bankaráð Útvegsbanka Íslands? Eiga ekki sömu reglur að gilda hér og um útvarpsráð? Eigum við að fara að taka upp, fyrst við þurfum að taka upp þessa reglu gagnvart útvarpsráði, þá reglu gagnvart öllum meiri háttar stjórnum og stofnunum og ráðum í okkar þjóðfélagi, taka upp bandarísku regluna um að skipta um allt niður í póstmeistara á hverjum stað þegar ný ríkisstj. tekur við?

Ef við gerum þetta, hvernig fer þá fyrir okkur ef svipað ástand er í vændum og var á áratugnum milli 1950 og 1960 þegar ný ríkisstj. kom að völdum annað eða þriðja hvert ár? Slíkar ríkisstj. munu varla komast fram úr því eina verki, að reka menn úr stofnunum og stjórnum og ráða nýja.

Þeir voru margir sem fögnuðu því út af fyrir sig þegar í embætti menntmrh. valdist valinkunnur maður, sem er á sinn hátt í annan stakk búinn en menntmrh. sem verið hafa hér um nokkuð langan aldur. En því miður virðist svo hafa farið að því, sem fyrirrennarar hans hafa gott gert í sambandi við Ríkisútvarpið, þ.e.a.s. að gera það að sjálfstæðri stofnun, eins sjálfstæðri stofnun og slík stofnun á að vera, hefur hann nú því miður látið einhverja menn tala sig til að breyta til verri vegar. Ég vænti þess fastlega að hæstv. menntmrh. endurskoði þá afstöðu sína að knýja fram breyt. á útvarpslöggjöf til þess eins að geta skipt um menn í útvarpsráði nokkrum mánuðum áður en það ætti að gera með eðlilegum hætti. Ég vænti þess fastlega að hæstv. ráðh. endurskoði þá ákvörðun sina, einfaldlega vegna þess að ég veit að fjölmargir þeirra, sem óánægðir eru með störf núv. útvarpsráðs og hafa harðlega gagnrýnt það, eru á öndverðum meiði við menntmrh. um að sú gagnrýni sé næg ástæða til þess að skipta um útvarpsráð fyrr en gildandi lög heimila og gera þar með þá kerfisbreyt. aftur á bak til gamalla viðhorfa sem afnumin var með lögum er sett voru fyrir 3 árum.