18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

84. mál, útvarpslög

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég furða mig á því að hér skuli ungir þm. standa upp og hræðast það mest að nú skuli eiga að breyta einhverju, hér skuli hugsanlega þurfa að kjósa í eitthvað og hér skuli hugsanlega koma til greina að nýir menn komi til skjalanna. Ég satt að segja skil ekki svona hugsunarhátt, enda e.t.v. ekki búinn að vera á þingi nægilega lengi til þess að skilja eðli og tilgang bitlinga, né skilja eðli og tilgang þess að sitja í ráðum og stjórnum til þess að útdeila peningum, dagskráratriðum o.s.frv. Ég vona að ég verði aldrei það lengi á þingi að ég tileinki mér þann hugsunarhátt að það megi aldrei breyta neinu, aldrei hreyfa við neinu, það sé eitthvað óttalegt eða glæpsamlegt.

Út af því, sem hv. 8. landsk. þm. sagði áðan, að það hlyti að vera skelfilegt fyrir Sjálfstfl. að missa núv. útvarpsráð vegna hins glæsilega kosningasigurs s.l. sumar, sem hann vildi þakka m.a. umræddu útvarpsráði, þ.e. óvinsældum þess, þá vil ég aðeins segja þetta: Það er alls ekki hugsun okkar, sem erum stuðningsmenn þess máls sem hér er til umr., að vera að gera þessa breyt. vegna Sjálfstfl., nema síður sé. Við erum að gera þetta vegna fólksins í landinu og vegna þess að við höfum sannfæringu fyrir því, að með því að gera það séum við að gera rétt, eins og ég mun koma að hér á eftir.

Ég vil segja það við hv. 5. landsk., Kjartan Ólafsson, að það er enginn glæpur að vilja breyta um kosningafyrirkomulag á útvarpsráði. Og það er alveg ástæðulaust fyrir Alþb.- menn að tala með ofsa í þessu máli þó að við nokkrir sjálfstæðisþm. leyfum okkur að halda því fram að það eigi að kjósa að nýju í útvarpsráð skv. því lagafrv. sem hér liggur fyrir. En ég vil vita hann, hv. þm., fyrir að ráðast að manni utan Alþ. með svigurmælum og dylgjum fyrir starfa hans hérlendis. Þar réðst hv. þm. á mann sem hefur enga möguleika til þess að bera hönd fyrir höfuð sér hér á hv. Alþ., bæði gagnvart umr. hér og því sem skráð er í bækur Alþ. Ég spurði eldri þm. að því áðan hvort slíkt tíðkaðist yfirleitt í sölum Alþ., og hann sagði: Nei, þetta er ámælisvert. Hv. þm. getur notað Þjóðviljann til þessarar iðju, svo sem hann hefur gert hingað til.

Hv. 5. landsk. sagði að núv. útvarpsráð hefði verið lýðræðislegra og betra að því leyti, að það hefði hleypt öllum að, það hefði enginn verið útilokaður að koma fram í útvarpi eða sjónvarpi vegna gerða þessa útvarpsráðs. Þetta er ekki rétt, og ég vil segja við hv. þm. að þetta útvarpsráð hefur ekki verið frábrugðið öðrum útvarpsráðum í því efni að útiloka eða torvelda að menn gætu komið fram, hvort sem væri í hljóðvarpi eða sjónvarpi. Það er nefnilega hægt að gera með ýmsum hætti. Menn geta óskað eftir því t.d. að koma í „Daginn og veginn“, en fá aldrei svar við því. Þeir geta talað við starfsmenn útvarpsins, sem eiga að fjalla um dagskrána, og fengið það svar: Jú, ég er búinn að greina frá nafninu, þú ert kominn á listann, en útvarpsráð hefur ekki tekið afstöðu eða útvarpsráð hefur raðað listanum þannig upp að viðkomandi kemur raunverulega ekki til greina. — Þetta hefur verið gert af núv. útvarpsráði og mun hafa verið gert af fyrri útvarpsráðum. (Gripið fram í: Nokkur dæmi?) Ég get nefnt hv. alþm. dæmi, en tel það óþarft á þessu stigi, hann veit að það sem ég segi er rétt. En ég er sammála hv. þm. í því, að það á að koma í veg fyrir slíka valdbeitingu, hvort sem útvarpsráð er kosið skv. núgildandi l. eða skv. þeirri lagabreyt. sem hér er til umr. Ég er sammála honum einnig í því, og tek undir það, að auðvitað á útvarpsráð ekki að vinna þannig að minnihlutahópar séu útilokaðir eða einstaklingar með skoðanir, sem eru kannske andstæðar meiri hl., fái. þar ekki fram að koma. Undir það tek ég. En ég verð að segja það, að því miður hefur það útvarpsráð, sem var kjörið til þess að vera sjálfstætt og óháð, gjörsamlega brugðist sínu hlutverki og þeim vonum sem bundnar voru við það fyrirkomulag sem upp var tekið 1971.

Út af því sem hv. 5. landsk. sagði um 1. des. og dagskrána, sem stúdentar voru með, og þeirri yfirlýsingu hans, að hann hefði ekki verið ánægður með þessa dagskrá, þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því að Kjartan Ólafsson, 5. landsk., er nú einn af ritstjórum Þjóðviljans. Ég minnist þess að það kvað við annan tón í leiðara Þjóðviljans eftir þennan atburð, þegar Þjóðviljinn var að setja ofan í við Morgunblaðið fyrir það að Morgunblaðið skyldi hafa mótmælt eða gert aths. við það ofstæki sem kom fram hjá stúdentum umræddan dag, þannig að ekki fara alveg saman leiðaraskrif Þjóðviljans um þennan atburð og ummæli hv. þm. áðan.

Því miður er hv. 3. þm. Reykv. farinn af fundi. Það hefði verið ærin ástæða til að mæla nokkur orð til þess ágæta manns, því hann lagði út af orðunum ofstæki. Hann talaði einnig um að ef Alþ. leyfði sér að samþ. það lagafrv., sem hér er til umr., fyrir jól, þá skyldi honum að mæta og öðrum sem hann taldi síg hafa ráð yfir. Ég mun ekki eyða orðum á þennan ágæta þm., þar sem hann hefur horfið úr þingsal og úr húsinu, en ég vil aðeins segja þetta: Það er þýðingarlaust fyrir hann eða aðra hv. þm. að vísa til þess að allir alþm. hafi greitt núgildandi fyrirkomulagi um kosningu útvarpsráðs atkv. sitt árið 1971. Mig gildir það einu þótt þeir hafi allir greitt þessu atkv. Ég leyfi mér að hafa aðra skoðun og halda henni fram án þess að flokka það undir glæpsamlegt athæfi. Samviska mín bíður mér það, vegna þess að núv. fyrirkomulag hefur reynst illa og undir núv. útvarpsráði hefur útvarpið og sjónvarpið verið misnotað herfilega. Í gegnum þessa fjölmiðla hefur verið traðkað á tilfinningum og siðgæðisvitund meginþorra þjóðarinnar. Ég vísa til þess sem átti sér stað 1. des. Ég vísa til þess þegar barnatíminn var notaður til þess að kasta aur að ákveðinni stétt manna. Og það er hægt að vísa á fleiri dæmi því til sönnunar sem ég hef sagt. Niðurstaða mín er sú, að útvarpsráð hefur ekki staðið i stöðu sinni, og það má birta í Þjóðviljanum. Það flokkast ekki undir neitt skelfilegt að þora að hafa afstöðu og segja mönnum, ef þörf krefur, að þeir hafi ekki staðið sig. Og það er ekki endilega gott að segja hér, eins og hv. 5. landsk. sagði áðan: Það hefur enginn verið rekinn frá útvarpi eða sjónvarpi. Það getur stundum verið nauðsynlegt að víkja mönnum úr starfi. Það á við um fyrirtæki, stofnanir og yfirleitt alla starfsemi. Ef einhver stendur ekki í stöðu sinni, þá á hann að víkja. Það flokkast ekkí undir það að menn séu að gera eitthvað óeðlilegt, þeir eru að gera skyldu sina. Þetta þekkjum við sem höfum unnið úti í atvinnulífinu á mörgum vinnustöðum, þar sem við höfum orðið að standa og falla með okkar eigin verkum. Fyrir okkur er það ekkert skelfilegt að þurfa að skipta um starf eða hverfa úr stöðu.

Ég vil aðeins segja það, að því miður hefur núv. útvarpsráð stuðlað að ofstæki og örvað ofstæki og ég vil segja unnið gegn borgaralegu siðgæði, sem er eitur í beinum Þjóðviljamanna, gegn manneskjulegum viðhorfum, gegn íslenskri menningu og íslenskri erfð. Hafa hv. þm. gleymt 1. des. s.l. — ég spyr? Fór velþóknun Þjóðviljans, blaðs hv. 5. landsk. og 3. þm. Reykv., á þeirri svívirðu, sem þjóðinni var gerð í gegnum Ríkisútvarpið, e.t.v. fram hjá hv. alþm.? En það sem skiptir máli er þetta: Þjóðin tók eftir ofstækinu, og við, sem lesum Þjóðviljann, sáum hversu þóknanlega Ríkisútvarpið var notað þann dag í andíslenskum áróðri. Ég vil þó segja 5. landsk. þm. það til málsbóta, að hann lýsti yfir að hann persónulega hefði ekki verið ánægður með daginn.

Ég get því miður ekki talað þau orð til 3. þm. Reykv., er ég hefði viljað, vegna fjarveru hans, en hann notaði sinn kansellistíl, þann valdsmannstón, dulbúnar hótanir o.s.frv. sem hv. þm. hlýddu á fyrr í kvöld, svo að ég læt það liggja á milli hluta sem ég hefði viljað segja um það sem hann sagði hér í kvöld. En eitt get ég þó ekki komist hjá að segja varðandi það atriði þegar hv. 3. þm. Reykv. var að víkja að því að menn yrðu að þola aðra. Þessi hv. þm. er því miður þekktur fyrir allt annað en að sýna öðrum umburðarlyndi. Það nægir að vísa í ræður hans á hæstv. Alþ. og skrif hans í Þjóðviljanum á undangengnum árum. Hins vegar viðurkenndi hv. þm. að það væri ekki hægt að útiloka pólitíska afstöðu manna eða skoðanir í útvarpsráði. Það er auðvitað rétt. Ég er sammála honum í því að það eigi ekki að nota útvarpsráð þannig að þeir menn, sem skipa útvarpsráð, séu eins og pólitískir varðhundar flokkanna. Það er laukrétt, og ég tek undir það. Hins vegar verð ég að segja það, að bæði hann og aðrir hv. þm., sem kunna að vera á móti því sem við segjum hér í þessu máli og öðrum, skulu láta af dulbúnum hótunum og tala um að ef ekki verði látið að vilja þeirra, eins og t. d. varðandi það mál sem hér um ræðir, að ef þetta mál fái afgreiðslu fyrir jól, þá skuli eftirleikurinn verða óvandur. Nei, góðir þm., svona karlar og svona vinnubrögð eru úrelt og bíta ekki alla. Hótanir duga ekki á það fólk sem hefur þurft að taka þátt í harðri baráttu utan þingsala. Það getur vel verið að slíkar hótanir dugi vel í skilmingaleik æfðra atvinnustjórnmálamanna, en þær duga ekki á okkur hina.

Út af ummælum hv. 8. landsk. um kosningar í ráð, stjórnir og n. hins opinbera vil ég segja þetta: Það er skoðun mín að það eigi að kjósa í öll slík ráð, allar slíkar stjórnir og allar slíkar n. eftir hverjar alþingiskosningar. Það er ekkert óttalegt við það að mínu mati. Það á ekki að vera neitt óttalegt eða skelfilegt að skipta um menn ef meiri hl. breytist á Alþ. og jafnvel þó að hann breytist ekki. Þessi ótti við breyt., þessi ótti við að kjósa, þó að væri tvisvar, þrisvar á fjórum árum, er nefnilega rótgróin afleiðing þess illa kerfis sem við raunverulega búum við, þessa margslungna og vel ofna kerfis allra flokka. Það er enginn flokkur þar undanskilinn.

Ég vil síðan varpa fram þeirri spurningu til hv. þm. sem eru á móti því lagafrv. sem hér er til umr.: Var það raunverulega tilgangurinn með lagabreytingunni 1971 að kjósa útvarpsráð sem skyldi hafa alræðisvald í 4 ár óháð öllu sem í kringum það skeði? Mér finnst það furðulegt þegar haft er í huga hversu áhrifamiklir þessir fjölmiðlar eru, útvarpið og sjónvarpið. Ég trúi því ekki að menn hafi ætlast til þess.

Mér finnst að mörgu leyti að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu þegar verið er að tala gegn því frv. sem hér er á ferðinni. Ég hef alltaf lítið svo á og lít enn þannig á, að hlutverk útvarpsráðs sé að gæta fyrst og fremst hlutleysis, gæta þess að í gegnum þessa fjölmiðla fari ekki hlutdrægt efni. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að útvarpsráð eigi ekki að hafa bein afskipti af dagskrá eða efnisvali i útvarpi og sjónvarpi.

Hjá útvarpi og sjónvarpi er mikið af hæfu og góðu starfsfólki. Það er aldrei talað um það. Það er alltaf verið að tala um þá pólitíkusa sem við kjósum í útvarpsráð. Hvað sem hver segir í þessu máli, þá er það staðreynd, það er aldrei talað um starfsfólkið sem vinnur hjá útvarpinu og sjónvarpinu. Mín skoðun er að aðalatriðið sé að það starfi gott fólk hjá þessum stofnunum, sem fái að starfa í friði fyrir okkur pólitíkusunum. Okkur, segi ég, ég geri ráð fyrir því að hver maður fái sömu tilhneiginguna til ræðumennsku eftir því sem hann situr lengur á hæstv. Alþingi. Aðalatriðið er að þetta fólk fái að njóta sín, og það er aðalatriðið fyrir íslensku þjóðina, fyrir fólkið sem á að njóta þessara fjölmiðla, að þarna sé hæfileikafólk. En það fær ekki hæfileikafólk til starfa á þessu sviði ef það fær ekki að vinna í friði fyrir stjórnmálamönnum, úr hvaða flokki sem þeir koma.

Nei, góðir hv. þm., í þessu máli hefur því miður verið notað of mikið pólitískt glamur og sýndarmennska hjá sumum ræðumanna, alla vega hér í kvöld. Ég vil undirstrika, að með þeirri skipulagsbreytingu, sem hér um ræðir, er stefnt að minni beinum afskiptum útvarpsráðs og auknu sjálfstæði starfsmanna þessara stofnana með því að hverfa til gamla formsins. Með því hugarfari styð ég umrætt lagafrv. Þá yfirlýsingu gef ég hér. Ég efast ekki um að hv. þm., sem eru á móti þessu, muni reyna að snúa út úr þessum ummælum mínum, en þetta er mín skoðun og sannfæring. Ég er einnig sannfærður um að með skipulagsbreytingu þeirri sem hér um ræðir, að kosið skuli útvarpsráð eftir hverjar alþingiskosningar, muni starfsmenn útvarps og sjónvarps njóta sín betur en nú er reyndin.

Svo er það annað mál, að hvað sem líður yfirlýsingum um kosningafyrirkomulag það sem upp var tekið 1971 um óháð hlutlaust útvarpsráð, þá var það kosið 100% pólitískri kosningu á Alþ. 1971. Hver einasti útvarpsráðsmaður var flokkslega eyrnamerktur, hver einasti. Þetta er staðreynd. Það er hræsni að halda því fram að útvarpsráðsmenn kjörnir 1971 hafi ekki allir verið kosnir á grundvelli flokkspólitískra kosninga. En ef menn vilja leika sér að því að bera blekkingar á borð og telja sjálfum sér og öðrum trú um að svo hafi ekki verið, verði þeim að góðu. Ég tek ekki þátt í þeim skrípaleik.

Það vill nú svo til að þeir menn, sem voru kosnir í útvarpsráð 1971, munu allir vera flokksbundnir og ekki aðeins það, þeir hafa flestallir verið mjög virkir þátttakendur í hinum ýmsu stjórnmálaflokkum. M.a. er einn hv. þm. f Ed., situr þar í forsæti. Annar var frambjóðandi i síðustu alþingiskosningum og situr i miðstjórn annars stjórnmálaflokks o.s.frv. Ég spyr: Skyldu þessir menn afklæðast algerlega flokksbúningnum þegar þeir koma á útvarpsráðsfund? Ég svara bara fyrir mig og segi: Ég veit að þeir gera það ekki og sá, sem heldur öðru fram, fer með vísvitandi blekkingar, gegn betri vitund. Það er einnig rangt og vísvitandi ósannindi að halda því fram að núverandi útvarpsráð hafi ekki verið pólitískt í störfum sínum. Ég hef þegar nefnt nokkur atriði máli mínu til sönnunar um það efni og ég vísa einnig til ýmissa dagskrárliða sjónvarps og útvarps á s.l. þremur árum. Vitað er að sumir útvarpsráðsmenn hafa haft bein afskipti af dagskrárefnum í stað þess að láta ráðna starfsmenn sjá algerlega um efnisútvegun og framkvæmd dagskrár. Sumir útvarpsráðsmenn leyfðu sér að taka undir og leggja blessun sína yfir árásir á ákveðnar stéttir manna sem höfðu enga möguleika til að bera hönd fyrir höfuð sér.

Nei, því miður kom í ljós að tilraunin með hið óháða og sjálfstæða útvarpsráð, sem farið var af stað með 1971, hefur gjörsamlega mistekist. Núv. útvarpsráð hefur verið hlutdrægt, mjög hlutdrægt, því miður. Meiri hl. var ákveðinn í upphafi síns ferils að boða landsmönnum ákveðna stefnu í menningar- og þjóðfélagsmálum, og það hefur ekki farið fram hjá þeim sem hafa hlustað á útvarpið eða horft á sjónvarpið að staðaldri. Sú stefna byggðist ekki á trú íslendinga á því þjóðskipulagi eða þeirri menningu sem íslenskt þjóðfélag hefur byggst á. Leitað var í ríkum mæli í aðrar áttir eftir efni sem hafði ákveðinn boðskap að flytja, boðskap sósíalismans, en það er boðskapur sem er íslensku þjóðinni mjög ógeðfelldur og gagnvart honum var þjóðin óvarin. Þetta er sannleikurinn, og þetta er sannleikurinn sem ekki má segja skv. kennisetningum hv. 5. landsk. þm., án þess að á menn sé ráðist og sagt að hér sé um Morgunblaðsofstæki að ræða. En í síðustu alþingiskosningum tók þjóðin sjálf af skarið. Hún hristi af sér þetta ok með eindregnum kosninganiðurstöðum og alþb.- menn verða að þola það að þjóðin óskaði ekki eftir þeim boðskap sem þeir hafa verið að reyna að flytja okkur í gegnum sjónvarp og útvarp undanfarin ár.

Ef hægt er að ráðast að mönnum fyrir að segja sannleikann frammi fyrir hv. alþm. Alþb., þá verður að hafa það, ef þeir bregðast svo við sem við höfum horft hér á í kvöld. Íslenska þjóðin vildi nýja ríkisstj. og hún vildi nýja stefnu sem var meira og betur í samræmi við íslenskan og þjóðlegan hugsunarhátt. Það þarf ekki að flytja inn stefnur fyrir okkur íslendinga, við eigum nægilega góða menningu til þess að standa á. Íslenska þjóðin þarfnast ekki pólitísks uppeldis eða leiðsagnar frá hinum nýju sósíalísku uppalendum sem mynda meiri hl. í núverandi útvarpsráði. Þetta er kannske of hreinskilið sagt, en ég vona að það sé þá ágætur matur fyrir hv. 5. landsk.

Þess vegna segi ég hiklaust að það er óhjákvæmilegt að breyta til hins fyrra horfs og kjósa útvarpsráð eftir hverjar alþingiskosningar. Það getur vel verið að hv. þm. Alþb. takist að hóta mönnum svo hér á hæstv. Alþ. að menn treysti sér ekki til að afgreiða þetta mál sem skyldi nú. En þá vil ég aðeins segja þetta: Það er þeim ekki til sóma að vera með hótanir þótt menn vilji halda til streitu skoðunum sinum og sannfæringu, þótt þær séu mjög andstæðar skoðunum Alþb.- manna. Svo skulum við, ágætir þm., minnast þess og hafa það hugfast, að útvarpsráð er ekki eingöngu til þess kjörið að gæta pólitísks hlutleysis, heldur er það einnig og fyrst og fremst til þess kjörið að gæta þess að fólkið í landinu fái notið þessara fjölmiðla í samræmi við óskir þess og þarfir. Því miður líta allt of margir stjórnmálamenn á opinberar stofnanir sem eitthvert góss, sem sé fyrir þá og nánustu fylgismenn þeirra. Það gleymir að almenningur, fólkið í landinu, á öll opinberu fyrirtækin og stofnanirnar, en ekki pólitískir refir eða dulbúnir skoðanabræður þeirra.

Ég treysti því að Alþ. geti eftir hverjar kosningar kosið útvarpsráð í samræmi við vilja meiri hl. þjóðarinnar. Ég treysti því að þannig kjörið útvarpsráð geti, frekar en það útvarpsráð sem kjörið var á grundvelli gildandi laga, gætt betur fyllsta hlutleysis og verndað einstaklinga og stéttir manna frá árásum öfgafólks sem hefur misnotað þessa fjölmiðla herfilega og sært þjóðernislegar tilfinningar meginþorra þjóðarinnar. Ég treysti því að útvarpsráð, kjörið eftir hverjar alþingiskosningar, geri starfsmönnum útvarps og sjónvarps kleift að vinna sjálfstætt og óháð að þeim mikilvægu verkefnum, sem þetta fólk innir af hendi, ekki fyrir stjórnmálamennina eða stjórnmálaflokkana, heldur fyrir íslensku þjóðina.